13.05.1927
Sameinað þing: 10. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í D-deild Alþingistíðinda. (3693)

52. mál, byggingar- og landnámssjóður

Flm. (Jónas Jónsson):

Þessi till. kom fram snemma á þinginu, en með því að mál í líkri mynd hefir verið til meðferðar mestan þingtímann í Nd., þótti mjer ekki ástæða til að taka þessa till. til umr. fyr en útsjeð væri um afdrif frv. þess, sem lá fyrir hv. Nd. Það frv. komst til nefndar, en náði ekki samþykki deildarinnar. Mun það hafa vakað fyrir hv. Nd., að það þyrfti að rannsaka mál þetta ítarlegar í milliþinganefnd. Það, sem því gerst hefir í málinu í hv. Nd., er ekki annað en það, að deildin hefir sýnt samúð með hugmyndinni, en það er ekki vitað, hvað alt þingið vill gera í málinu. Því gefst nú tækifæri til að sýna það með orðum og atkvgr., hvernig menn standa að vissum atriðum þessa máls.

Það er sýnt, að hæstv. stjórn hefir ekki ástæðu til að undirbúa svona mál, en eftir að milliþinganefndin er skipuð, á hún að gera till. um það, og er mikils vert fyrir hana að vita, eftir hvaða línum þingið vill að hún fari.

Það eru aðallega þrjú atriði, sem mestu skifta, hvort þingið felst á. Þau atriði eru ekki bundin hvert við annað, og þingið vill ef til vill mæla með einu þeirra, þótt það geti ekki fallist á hin. Jeg hefi því hugsað mjer að athuga þessi atriði dálítið nánar.

Hv. Nd. hefir gengið inn á það í meðferð frv. frá hv. 1. þm. N.-M. (HStef), að rjett sje að fjölga býlum eins og hægt er og að endurbæta byggingar á þeim jörðum, sem eru að leggjast í eyði vegna slæmra húsakynna, og að rjett sje að veita lán úr ríkissjóði til þessara framkvæmda. En þar sem menn óttast, að fjárhagurinn verði ekki góður á næstu árum, vegna þeirrar kreppu, sem hæstv. stjórn og flokkur hennar hefir nú leitt yfir landið, er sjerstök ástæða til þess að sjá ríkissjóði fyrir auknum tekjum, um leið og nýir baggar eru lagðir honum á herðar. Það er oft stærsti gallinn á gjöf Njarðar, þegar þingið samþykkir einhver kostnaðarsöm lög, svo sem berklavarnalögin, að ekki er jafnframt sjeð fyrir tekjum til þess að standast kostnaðinn, og því er altaf hætta á, að jafnvel góð lög verði afnumin, þegar fjárhagurinn breytist til hins verra.

Jeg lít svo á, að á aðaltekjustofninn, hina almennu tolla, sje þegar fullhlaðið, eða ekki líkur til, að þar verði miklu á bætt. Ef við gerum samanburð — sem jeg skal þó ekki fara út í að sinni — á beinum og óbeinum sköttum hjer og hjá öðrum þjóðum, þá sjest það, að við erum mestu tollkóngarnir. Í Englandi hvíla á almenningi miklu minni tollar en hjer hlutfallslega, enda þótt ýmsar vörur, hinar svokölluðu óhófsvörur, svo sem vín og tóbak, sjeu þar hátt tollaðar nú, en margar vörur, sem við tollum hátt, eru lítt eða ekki tollaðar. Aftur á móti ná Englendingar miklum tekjum með beinum sköttum, en þar eru svo ríkir menn, að samanburður við okkur getur varla komið til greina. Samt eru beinu skattarnir, tekju- og eignarskattar, þyngri þar á hliðstæð efni en hjá okkur. Hjer mun því hægt að ná meiri tekjum en gert er, án þess að ganga nærri skattþoli einstaklinganna. Til þess að fyrirbyggja, að menn segðu, að hjer væri um rán að ræða og að hinn nýi gróðaskattur yrði óbærilega ranglátur, hefi jeg orðað það svo í till., til leiðbeiningar fyrir nefndina, að þó gengið yrði inn á þessa braut, þá væri ætlast til, að eignar-, tekju- og gróðaskattur yrðu hlutfallslega aldrei hærri allir til samans hjer en í Englandi. Þetta er til að sýna öllum, sem um málið hugsa, að hjer er aðeins gert ráð fyrir, að þyngdur sje skattur á gróðamönnum og gróðafyrirtækjum, innan skynsamlegra takmarka, og er það ekki ósanngjarnt. Jeg sá ekki annan mælikvarða eðlilegri til að fara eftir heldur en þann, sem þroskuð og nokkuð íhaldssöm þjóð, eins og Bretar, hafa sett sjer að fara eftir, og ekki ættu íhaldsmenn hjer að telja það hættulegt að fylgja fordæmi þeirra.

Ef þetta verður þyrnir í augum einhverra hv. þm., þá ber það vott um, að þeir gera ekki ráð fyrir, að landið leggi fram fje til framkvæmda landnáminu, nema með því að þyngja almenna skatta, en það er hvorki rjettlátt nje hyggilegt, eins og nú er málum komið.

Annar liðurinn lýtur að því að beina til milliþinganefndarinnar að geta þess, að lánskjörin úr þessum sjóði verði það hagstæð, að kleift verði fyrir reglusaman og duglegan mann, sem getur lítið lagt fram nema sína eigin vinnu, að rísa undir byrjunarkostnaðinum. Jeg segi þetta af því, að einn maður í Nd., hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), sem bar fram brtt. við frv. um landnámssjóðinn, um það, að hækka tillagið úr ríkissjóði, og hefir auðsjáanlega gert það af góðum hug við málið, hefir einnig gert till. um lánskjör, sem í sjálfu sjer eru mjög góð, miðað við lánskjör þau, sem nú fást til ræktunar, en sem jeg hygg þá, að ástæða sje til að óttast að verði drápsbaggi fyrir fátæka landnema, sem taka land til ræktunar og þurfa að koma upp húsum, girðingum o. fl. Jeg er mjög hræddur um, að það kunni að verða ókleift fyrir einyrkja að borga 400 kr. í vexti, fyrir utan afborgun, af 10 þús. kr. láni. Jeg ætla þó ekki að fara nánar út í þetta, en hefi orðað það alment, til þess að sýna, að tilgangurinn er að skapa landnemunum heilbrigð lífskjör.

Í Noregi, þar sem mikið hefir verið gert til þess að fjölga býlum og þar sem lánskjörin eru ágæt, hafa í vetur, er afleiðingar gengishækkunarinnar tóku að sverfa að atvinnuvegunum, flosnað upp margir nýbyggjar. Þeir þoldu ekki gengishækkunina, þó að vel væri að þeim búið. Sumir menn álíta, að sveitirnar verði að standa í ábyrgð fyrir lánunum, og svo er það erlendis. Og þegar smábændurnir flosnuðu upp í Noregi í vetur, þá auglýstu sveitarfjelögin býlin í tugatali og reyndu að fá nýja ábúendur. Þetta er þýðingarmikið atriði, að jörðin, mannvirki öll og ábúðarrjetturinn sjeu látin standa að veði fyrir lánunum, en ekki verið að blanda sveitarfjelögunum í það. Enda mundi það erfitt, því að altaf er hræðsla hjá sveitarfjelögunum við allar ábyrgðir, og ef þær eru ekki annað en formið eitt, þá eru þær líka í sjálfu sjer gagnslausar. Niðurstaðan verður því sú, að ef maðurinn stendur ekki í skilum með sanngjörnum afborgunum, þá er ekki annað að gera en að láta hann fara frá jörðinni. Þannig er líka reynslan í Noregi. Þá er þó eins gott fyrir sjóðsstjórnina að geta gengið að ábúandanum, enda væri það nægilegt aðhald, ef maðurinn misti ábúðarrjettinn, ef hann gæti ekki staðið í skilum. Er þá gert ráð fyrir, að sjóðsstjórnin fengi nýjan mann á jörðina, og gæti býlið þannig haldist við.

Þriðja atriðið er gert til að benda væntanlegri milliþinganefnd á það, að það væri mjög óheppilegt, ef gengið væri inn á þá braut að taka land eignarnámi og skifta því með valdi. Jeg býst nú líka við því, að þingið mundi ekki samþ. lög, sem gerðu slíkar ráðstafanir, enda er það óþarft, þó að undir einstöku kringumstæðum geti slíkt komið fyrir. En hjer á landi ætti jarðaskifting að verða auðveld, um leið og fjármagn fæst með hæfilegum kjörum til þess að nota landið, sem til er. Jeg hygg, að það færi t. d. best á því, að systkini, sem eiga skiftanlegar jarðir, sætu fyrir lánum, af því að þá væri hægur og tryggur vöxtur framkvæmanlegur alstaðar á landinu, án nokkurs valdboðs. En það er fullvíst, að það mundi spilla fyrir landnámssjóðshugmyndinni, ef jarðir yfirleitt yrðu teknar með valdi til skiftingar. Nú hefir býlafjölgun einmitt víða gerst þar, sem minst flyst af fólki burt til kaupstaðanna. Jeg get t. d. tekið dæmi af fjórum systkinum, sem búa nú á einbýlisjörð í Þingeyjarsýslu.

Síðari liður 3. greinar tillögunnar á að tryggja það, að velgerningar ríkisvaldsins verði ekki misnotaðir, þannig, að jarðirnar komist í sölubrask og að millimennirnir stingi í sína vasa arðinum af þeim hlunnindum, sem ríkið hefir lagt til. Jeg þarf ekki annað en minna á það, að komið hefir fyrir, að jarðir, sem landið hefir selt, hafa hækkað tífalt á 2–4 árum. En það er enginn velgerningur að selja þannig jarðirnar, og hefði þjóðfjelagið betur átt þessar jarðir lengur. Úr brjefum, sem jeg hefi fengið víðsvegar af landinu, hefi jeg orðið þess áskynja, að ýmsir menn, sem bera þetta mál fyrir brjósti, leggja einmitt áherslu á þetta, að trygt verði, að verðhækkun og millimenska geti ekki gert hjer ógagn. Það getur vel verið, að það sjeu til aðrar leiðir en jeg hefi hjer bent á. Hjer er gert ráð fyrir, að til sje löggjöf, er leggi á þá kvöð, að ekki megi selja slíkar jarðir hærra verði en fasteignamatsverði. Má líka gera ráð fyrir því, að það sje hinn öruggi mælikvarði og lægra sje ekki sanngjarnt að fara. Sumum háttv. þm. kann nú að virðast sem þetta sje allmikil íþynging fyrir þá menn, er út í landnám leggja, en þjóðfjelagið gerir þetta ekki vegna þeirra einstaklinga, er fá jarðimar, heldur vegna heildarinnar. Það sýnist því vera sanngjarnt, að um leið og þjóðfjelagið hjálpar, þá fylgi þessi kvöð sem trygging fyrir því, að árangur verði af hjálpinni.

Jeg ætla svo að ljúka máli mínu með því að segja frá úrræði, sem bóndi einn austur í Vestur-Skaftafellssýslu fann upp og framkvæmdi viðvíkjandi jörð sinni fyrir hjer um bil 20 árum. Þessi bóndi var Helgi Þórarinsson í Þykkvabæ. Hann hafði veitt því eftirtekt, hvílíkur ófagnaður það var, þegar jarðirnar hækkuðu mjög í verði. Þar sem duglegur bóndi gerir miklar umbætur á jörð sinni, þykir hækkunin eðlileg. Hann á ef til vill nokkur börn, og eftir hans dag er jörðin seld einu barna hans með svo háu verði, að hin börnin fái sem mestan arf. En barnið, sem kaupir, sligast svo undan umbótum foreldra sinna, vegna hins háa verðs. Helgi Þórarinsson vildi reyna að sigla fram hjá þessu skeri, og því gaf hann sveitinni jörð sína, með því skilyrði, að sveitin bygði hana eftirkomendum hans eftir nánari reglum, og ákvað afgjaldið, að mig minnir, 120 kr. Það, sem vanst með þessu, var það, að jörðin varð þannig til varanlegra afnota fyrir ætt hans, með afgjaldi, sem var svo lítið, að það var sama sem að búið væri á henni leigulaust. Þetta gerir hverjum bónda auðveldara að bæta jörð sína og gera hana fullkomna og gagnlega framleiðslunni í landinu.

Jeg hefi svo ekki fleira að segja um till. að þessu sinni. Jeg veit, að enginn þm. getur misskilið, að með þessu er reynt að slá föstum nokkrum aðalatriðum viðvíkjandi meðferð milliþinganefndarinnar á þessu máli. Atriði þessi eru svo ljós, að enginn ætti að þurfa að vera í vafa um, hvort hann er með eða á móti þeim. Jeg býst nú reyndar við, að einstakir þm. sjeu á móti 1. lið till., af því að þar er lagt til að leggja hærri skatt á efnamenn. En þá vil jeg spyrja þessa sömu þm., hvar eigi að taka fjeð í þetta. Það er hægt að sýna viðhorf þingsins með því að láta greiða atkv. um hvern lið till. fyrir sig, og koma þá fram meðmæli eða mótmæli þingsins, að því er snertir hvern einstakan lið sjerstaklega.

Jeg þarf ekki að taka það fram um gróðaskattinn, að hann er mun rjettlátari en neysluskatturinn, af því að hann greiða ekki aðrir en þeir, sem hafa ákveðnar eignir og ákveðnar tekjur á tilteknu ári. En um leið og þeim gengur illa, hverfur skatturinn. Það er þess vegna, sem jeg stakk upp á því að afla sjóðnum tekna með gróðaskatti, þó að mjer sje það ljóst, að sá skattur er nokkuð misjafn, eftir því, hvernig árar, og þarf þá í mögrum árum að grípa til annara úrræða, samhliða megintekjustofninum.