05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Frsm. meiri hl. (Jón Guðnason):

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, miðar aðallega til þess að gera þá breytingu á núgildandi lögum um berklavarnir, að í staðinn fyrir það, að berklavarnakostnaðurinn er nú borgaður af hlutaðeigandi sýslusjóðum, sem kröfur eiga um endurgreiðslu á nokkrum hluta hans hjá ríkissjóði, þá skuli eftirleiðis kostnaðurinn greiddur beint af ríkissjóði, en hann eigi aftur kröfu á sýslusjóðina um 2 kr. gjald á hvern íbúa sýslnanna.

Meiri hluti nefndarinnar telur þessa breytingu til mikilla bóta. Það hefir verið erfitt og umfangsmikið fyrir sýslusjóðina að sjá um þessar greiðslur, þó aldrei nema þeir hafi fengið það síðar endurgreitt, sem þeim bar. En fyrir ríkissjóð skiftir þetta engu máli.

Hjer er því aðeins um fyrirkomulagsatriði að ræða, sem ekki eykur útgjöld ríkissjóðs á neinn hátt, en ljettir til muna á sýslusjóðum. Þess vegna leggur meiri hl. nefndarinnar til, að hv. deild samþ. frv. þetta.