05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vil nota þetta tækifæri til að segja það, að jeg tel það öldungis óhjákvæmilegt að taka gjaldaákvæði berklavarnalaganna til rækilegrar endurskoðunar. Með þessu frv. er eitt atriði tekið út úr heildinni og því ráðið til lykta á þann hátt, að það má ekki verða sú endanlega niðurstaða að því er snertir það einstaka atriði.

Þegar núgildandi ákvæði um skiftingu kostnaðarins voru sett í berklavarnalögin, þá var hugsunin, eins og hv. þm. V.-Sk. (JK) rjettilega tók fram, sú, að stilla svo til, að hjeruðin ættu hagsmuna að gæta um það, að kostnaðurinn yrði sem minstur. Og að því lengra, sem kæmist í því, því ljettari yrði byrðin fyrir það hjerað. Í framkvæmdinni hefir þessi hugsun hinsvegar ekki fengið að njóta sín til fulls. Aðalmeiningin með endurskoðun hlýtur því, að minni hyggju, að eiga að vera sú, að þessi heilbrigða hugsun fái að njóta sín, en með þessu frv., sem hjer liggur fyrir, er hún algerlega lögð á skurðarborðið. Eftir þessu frv. hafa engir aðrir aðiljar en ríkissjóður einn hagsmuna að gæta um minkun kostnaðarins, og er þá hætt við, að erfitt verði að draga úr hinni óhóflegu og óþörfu eyðslu, sem á sjer stað í þessum efnum, að sögn þeirra lækna, sem veita forstöðu berklastofnunum í landinu. Jeg vil þó ekki, að ummæli mín verði misskilin á þann veg, að jeg telji eftir einn einasta eyri af opinberu fje, sem nauðsynlegur er og að gagni má koma til berklavarna. En það er vitanlegt, að þessi styrkur er nú mjög misbrúkaður, og það jafnvel af sumum þeirra, er njóta hans til heilsuspillis. það er því algerlega nauðsynlegt að taka lögin í heild til rækilegrar endurskoðunar, en þá á ekki að taka eitt atriði út úr, eins og gert er í þessu frv., sem hjer liggur fyrir. Jeg tel líka ástæður þær, sem hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) bar fram í þessu efni, mjög ljettvægar.

Hvað reikningana snertir sje jeg ekki neitt því til fyrirstöðu, að þess væri krafist, að þeir sjeu tvíritaðir, og sje annað eintakið sent sýslumanni eða bæjarfógeta, en hitt til stjórnarráðsins, sem legði úrskurð sinn á reikninginn. Ef svo sýslumaður hefir greitt of mikið, er ekki annað en að ríkissjóður greiði þeim mun minna, og má altaf jafna þann mun. En þetta liggur utan meginkjarna málsins, sem sje það, að styrkurinn sje ekki misnotaður, allir njóti hans, sem þurfa, en heilsuhælin sjeu ekki setin til langframa af fólki, sem ekki þarf þar að vera.