12.05.1927
Neðri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Frsm. meiri hl. (Jón Guðnason):

Háttv. efri deild hefir gert nokkrar breytingar á frv. þessu, frá því að það var afgreitt frá þessari deild, og eru sumar þeirra þýðingarmiklar. Eigi að síður hefir meiri hl. allshn. komið sjer saman um að mæla með því, að frv. nái fram að ganga eins og það er nú, og gerir hann það í trausti þess, að stjórnin framkvæmi lögin með allri sanngirni og á þeim grundvelli, sem ætlast var til upphaflega.

Því verður ekki neitað, að ákvæðin, sem sett hafa verið inn í efri deild, ganga í þá átt, að draga úr styrk þeim, sem veittur er til berklasjúklinga. En hinsvegar verður það ekki sagt, að ósanngjarnt sje að láta suma sjúklingana greiða dálítið af kostnaðinum, þó að þeir geti ekki greitt hann allan, og sje því beitt sanngjarnlega, ætti það ekki að koma að sök.

Um brtt. hv. þm. V.-Sk. (JK) hefir nefndin óbundin atkvæði.