12.05.1927
Neðri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Frsm. minni hl. (Jón Kjartansson):

Jeg er sammála hv. 1. þm. Rang. (KlJ) um það, að æskilegast sje að hafa sem flest lög í einni heild. En það, sem vakir fyrir mjer hjer, er það sama, sem kom fram í efri deild, að endurskoða þurfi berklavarnalögin mjög bráðlega, og sje það því óþarfa kostnaður að fara að prenta lögin upp, ef þeim svo yrði breytt á næsta ári, og það því fremur, sem þetta snertir ekki berklavarnalögin sjálf, heldur afskifti bæjar- og sýslusjóða.

Það er ekki rjett hjá hv. 1. þm. Rang. (KIJ), að það myndi kosta lítið að prenta upp lagabálk eins og berklavarnalögin; það mundi kosta mikið.