19.05.1927
Efri deild: 79. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3652 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

Starfslok deilda

Jónas Jónsson:

Nú þegar þessu kjörtímabili er lokið og við eigum að ganga til nýrra kosninga, höfum við þm. margs að minnast. Og þegar jeg nú lít um öxl yfir það kjörtímabil, sem liðið er, þá er jeg yfirleitt ánægður með þá þróun, sem átt hefir sjer stað. Í byrjun kjörtímabilsins reyndi Íhaldsflokkurinn að koma fram kúgunarlöggjöf, sem ekki hafði þekst hjer áður og var kveðin niður með öllu. Jafnhliða tilraunum til innlendrar kúgunar, sem náði jafnvel til ofbeldisverka í stjórn þingfunda, gætti vaxandi áhrifa erlends fjármagns á þjóðmálin. Á þessu síðasta þingi kjörtímabilsins hefir framferði stjórnarflokksins verið stórum sæmilegra en áður, og jeg vona, að það komi aldrei fyrir framar á Alþingi að reynt verði að beita ofbeldi, og aldrei framar, jafnvel ekki á dulbúinn hátt, að dekra við erlent vald.