09.03.1927
Neðri deild: 25. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Magnús Torfason:

Hæstv. fjrh. (JÞ) svaraði fáum orðum ræðu minni við 2. umr„ en þar sem þá var áliðið orðið, hirti jeg ekki um að svara því þá, enda hrakti hann fátt af ummælum mínum. En ræða hans gaf mjer tilefni til þess að standa upp og bera af mjer sakir. Hann sagði, að jeg hefði ekki haft það rjett eftir sjer, að gengi íslenskrar krónu miðaðist við framboð og eftirspurn á erlendum gjaldeyri. (Forsrh. JÞ: Hv. þm. skaut þarna inn orðinu „algerlega“). Það hefir mjer aldrei dottið í hug að gera. En hæstv. ráðh. var að bera það af sjer, að hann hefði yfirleitt haft þessa stefnu. En það vill nú svo vel til, að jeg get lesið upp úr þingtíðindunum játningu hans, máli mínu til sönnunar.

Svo stendur eftir hæstv. ráðh. í þingtíðindunum 1926, B., dálki 60:

„— því að það er nú svo, að gengi íslenskrar krónu er ekki hlutur, sem hægt er að ákveða með auglýsingu eða tilkynningu, heldur miðast það við framboð og kaup á erlendum gjaldeyri“.

Þarna er svo að sjá, sem það eigi algerlega að miðast við þetta. Það er ekki beinlínis notað orðið „algerlega,“ en það er ekki heldur undan tekið. — En að jeg tek þetta fram núna, stafar af því, að jeg hefi áður mótmælt þessum skilningi á gengislögmálunum. Sjerstaklega hefi jeg mótmælt þessu á tveim þingmálafundum, þar sem jeg og hæstv. forsrh. höfum verið saman, og mætti hann gjarnan muna a. m. k. annan þeirra. — Jeg hefi tekið það fram, að þessi lögmál, sem hæstv. ráðh. talar um, hafi enn minna að segja hjer en annarsstaðar, og það stafar af því, að við erum svo smáir og af því að við erum að heita má lausir við alt gengisbrask.

Jeg vil nú ekki segja með þessu, að hæstv. forsrh. vilji skrökva, en mjer finst hann vera ósköp þægilega gleyminn maður á alt, sem honum kemur lakar að muna. Jeg get sagt frá öðru atriði, sem sannar það. Hann sver það nú og sárt við leggur, að hann hafi haft hemil á hækkun krónunnar 1925. Jeg vil nú ekki fullyrða, að hann segi þetta ósatt; jeg get vel trúað, að í lok hækkunarinnar hafi hann ekki viljað lengra fara. En á vissum tíma gerði hann áreiðanlega sitt til að hækka krónuna. Það var í fyrra tekið fram í þessari hv. deild, ómótmælt af hæstv. ráðh., að fulltrúi hans í gengisskráningarnefnd hafi a.m.k. einu sinni greitt atkvæði með hækkun, með því fororði, að hann gerði það samkv. vilja síns yfirboðara. — Það veit líka hver maður, að hæstv. ráðh. var fastasti fylgismaður gengishækkunarinnar. Jeg er hissa á, að hann skuli nú vilja draga úr því hrósi, sem hann þóttist eiga á þingi 1926, er hann var að hæla sjer fyrir, hve hátt stökk krónan hefði tekið, hærra en í nokkru öðru landi. — En það er raunar ósköp skiljanlegt, að hann sje búinn að gleyma, að hann hafi nokkuð verið bendlaður við hækkun krónunnar. Hún hefir ekki reynst svo giftudrjúg.

Síðast þegar þetta mál var hjer á dagskrá, kvaðst hæstv. forsrh. verða að ganga inn á þá braut að auka lánsfje bankanna, enda þótt hann væri hækkunarmaður og það bryti í bág við sína stefnu í gengismálinu. Þegar svona er komið, að menn fara að fara gegnum sjálfa sig, þá sýnir það best, að í óefni er komið. Hitt er annað mál, að það getur undir ýmsum kringumstæðum verið rjettmætt að skifta skoðun. — Jeg vona því, að mönnum skiljist, að jeg get ekki haft neina tröllatrú á gengisvisku hæstv. ráðh. Jeg hugsa, að það sje satt og rjett, sem sagt hefir verið, að hann hafi sjálfur þverbrotið allar sínar stefnur í gengismálum.

Að því er þetta frv. snertir, sem hjer liggur fyrir, þá hlýt jeg að mótmæla því, að jeg hafi sagst vera því andvígur. Miklu fremur hefi jeg látið í ljós þá skoðun, að óhjákvæmilegt muni að taka lán, jafnvel þótt það verði að vera áteyrir, eins og jeg býst við, að fari. Hitt vil jeg undirstrika og leggja áherslu á, sem jeg hefi áður sagt, að jeg álít þessa ráðstöfun algerlega ónóga til rjettingar fjárhagnum, nema rjett sem bráðabirgðabót. En að ekki er farið lengra, það býst jeg við að stafi af því, að skjóta eigi fram af sjer frekari ráðstöfunum, þar til kosningar eru um garð gengnar.

Þess hefir verið getið í umræðum, að jeg vildi skóinn niður af Íslandsbanka. En það er ekki rjett álitið. Það, sem jeg hefi sagt um Íslandsbanka, kom til af því, að annar hv. þm. hafði látið í ljós, að hann væri illa stæður. Þessu mótmælti jeg, en varð þá um leið að koma nokkuð inn á meinsemdir bankans. En jeg vona, að allir hv. þdm. hafi heyrt, að jeg taldi það eitt forsvaranlegt að reyna að bæta mein hans. Það er ekki jeg, sem hefi viljað skóinn niður af Íslandsbanka. — Nei, það er alt annar maður, sem hefir sýnt það í verkinu, að hann vill gera alt, sem hann getur, til að minka bankann. Það er hæstv. forsrh. þessa lands, sem nær hefir komið Íslandsbanka á knje. Hann hefir fyrst og fremst gert það með hinni gífurlegu krónuhækkun á árunum 1924–’25. Hæstv. ráðh. mátti vita, að hinar óvissu skuldir bankans hækkuðu að sama skapi sem krónan, enda er mönnum það kunnugt, að Íslandsbanki stóð lengst á móti hinni óskaplegu hækkun. Þar með lýsti hann yfir því, að hann ætti bágt með að standast hækkunina. Aðstaða hans var líka sú, að hann þoldi krónuhækkunina ver en Landsbankinn, og það vissi hæstv. ráðh. — Hæstv. fjrh. sýndi einnig, að hann er ekki hlyntur Íslandsbanka með frv. því um nýjan banka, sem hann bar fram á þingi í fyrra. En það geta allir menn sjeð, að það hefði drepið Íslandsbanka, ef hjer hefði komið nýr banki, laus við gamlar skuldir og með nóg starfsfje. Jeg skifti mjer samt ekki af þessu í fyrra, en það kom til af því, að jeg hugsaði, að hæstv. ráðh. þættist ef til vill vera búinn að gera svo vel við bankann, að hann hlyti að verða fjárþrota, og því ætti að hafa nýja bankann sem varaskeifu.

Út í deilurnar að öðru leyti vil jeg ekki fara. Jeg hefi ekki skift mjer af þeim, af því m. a., að jeg skoða þetta frv. aðeins sem bráðabirgðabót og held, að það muni koma aftur að ári í annari mynd, og þá væntanlega þeirri, að Íslandsbanka verði hjálpað til að geta starfað áfram. Jeg segi þetta af því, að jeg mundi ekki þora að vinna að því, að bankinn gæti ekki leyst starf sitt af hendi. Álit Íslendinga mundi bíða við það svo mikinn hnekki, að afleiðingarnar yrðu óútreiknanlegar.