27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2383 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

141. mál, bankavaxtabréf

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. 2. þm. G.-K. vill ekki viðurkenna, að þetta sjeu heimildarlög. En það eru heimildarlög samt. Það hefir komið fyrir, að veðdeildin hefir ekki lánað um tveggja ára skeið í senn. Það getur staðið svo á, að ekki þyki rjett að láta lögin koma til framkvæmda. Ef mín tillaga verður samþykt, er veðdeildinni heimilt að veita lán til húsa hvar sem er, en það er venjan að binda með reglugerð, hvað til þess þurfi, að eignin sje veðhæf. Jeg veit, að fyrir vestan hefir veðdeildin framkvæmt það mjög stranglega að lána ekki út á eignir utan verslunarlóðar.

Yfirleitt þykir mjer fara best á því, að sem mest af starfsreglum veðdeildarinnar sje ákveðið með reglugerð, en ekki með lögum, enda eru lögin aðeins rammi um það, sem má gera, en reglugerð setur nánari ákvæði um það, hvernig eigi að framkvæma lögin. Þar sem nú er upplýst af hv. 2. þm. G.-K., að veðdeildin fer nú ekki stranglega eftir þessu verslunarlóðaákvæði, er því meiri ástæða til að breyta um.