04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2453 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

34. mál, varðskip landsins

Frsm. 3. minni hl. ( Hákon Kristófersson):

* Eins og hv. deild mun vera kunnugt orðið, klofnaði allshn. í þrjá hluta um þetta mál, og hafa hv. frsm. tveggja þessara minni hl. þegar gert grein fyrir nál. sínum og skoðun á málinu.

Við hv. 1. þm. Skagf. og jeg höfum skilað sjerstöku nál. á þskj. 674, og eins og það ber með sjer, leggjum við þar til, að frv. þetta verði felt, en þau lög, sem nú gilda um þetta efni, verði látin gilda áfram.

Það hafa verið bornar ýmsar ástæður fram fyrir því, að frv. þetta sje betra en núgildandi lög. Það er rjett, að í því eru ákvæði, sem alls ekki eru í lögunum frá í fyrra. Það mætti nú að vísu segja gagnvart mjer, að jeg hafi ekki verið þeim lögum fast fylgjandi, þar sem jeg kom fram með ítarlegar brtt. um launakjör háseta og stýrimanna við þau lög. Sú afstaða mín er óbreytt enn. Jeg tel niðurröðun launanna ekki rjettláta og launin öll lág, að undanteknum launum skipstjóranna. Jeg er alveg sammála hv. frsm. 2. minni hl. um það, að það sje mjög óheppilegt, að menn þessir sjeu svo illa launaðir, að þeir sjeu ávalt reiðubúnir að fara í aðrar stöður, sem bjóðast kunna. Hinsvegar get jeg með engu móti fallist á þá skoðun hans, að hjer sje verið að stofna vísi til sjóhers. Þetta er aðeins lögregla á sjónum, og embætti þessi eða sýslanir algerlega hliðstæðar sýslunum á landi, sem engum hefir dottið í hug að kenna við landher. Jeg vona einnig, að hv. frsm. 2. minni hl. taki það ekki illa upp fyrir mjer, þótt jeg geti ekki fallist á, að það sje sama og að hneppa þessa menn í þrældóm að banna þeim að gera verkfall. Jeg þykist vita, að hann sjái sjálfur, hvílík fjarstæða þetta er.

Hv. frsm. 2. minni hl. heldur því fram, að afkoma háseta verði verri eftir varðskipalögunum en hinum almennu sjólögum. Jeg var einnig á þessari skoðun í fyrra, en skal játa, að jeg hefi hlaupið dálítið á mig, og eftir þeim upplýsingum, sem þáverandi dómsmrh. veitti mjer, sá jeg, að jeg hafði ekki athugað gildandi lög, sem hann benti mjer á, að þessir menn kæmu undir. Jeg hafði t. d. haldið í fyrra, að ef maður á varðskipunum veiktist fyrir Norðurlandi um síldveiðatímann, þá yrði hann af kaupi sínu og yrði að standa straum af sjer sjálfur, en eftir yfirlýsingu þáv. dómsmrh. sá jeg, að menn þessir voru trygðir eins og aðrir embættismenn ríkisins.

Jeg mun reyna að verða við tilmælum hv. frsm. 1. minni hl. um að hleypa ekki hita í umræðurnar. Þótt jeg væri á móti þessum lögum í fyrra, eins og þegar hefir verið tekið fram, voru það ekki nema nokkur sjerstök ákvæði þeirra, er ollu því. Nú eru lögin ekki komin til framkvæmdar að neinu leyti, og tel jeg það óheppilegt og illa farið, því að jeg tel sjálfsagt, að virða beri svo lagasetningu Alþingis, að hún komi þegar til framkvæmdar, er hún hefir öðlast löglega staðfestingu. Þessa skoðun hljóta allir hv. þm. að hafa, ef þeir bera á annað borð nokkra virðingu fyrir löggjafarstarfsemi sinni. Til að gera nú einhverja yfirbót á vanrækslu sinni, ber hæstv. stjórn fram þetta frv.

Meðal annara atriða í þessu frv. er þannig ákveðið, að dómsmrh. sje heimilt að gera starfssamning við yfirmenn skipanna til ákveðins tíma, 6 ára. Þessi aðferð ríður í bág við þá reglu, sem embættismenn þjóðfjelagsins eiga alment við að búa, og einnig við mína persónulegu skoðun á því, hvernig þessu verði haganlegast fyrir komið. Þar hygg jeg og, að jeg tali fyrir munn okkar beggja, minn og hv. 1. þm. Skagf. Jeg tel þarna gengið inn á mjög varhugaverða braut, og þótt ekki væri vegna annars, mundi þetta nægja til að fá mig á móti frv. Jeg lít svo á, að það sje aðalatriðið að fá á skipin valinkunna menn, sem áhuga hafa á starfi sínu, hvort sem eru undir- eða yfirmenn. Virðist mjer hentast, að þeir hafi hugsað sjer að gera það sem mest að æfistarfi sínu, og erum við hv. 2. þm. Reykv. sammála í þessu atriði. Um rök fyrir þessu get jeg annars skírskotað til nál. hv. minni hluta allshn. í Ed. á þskj. 380. Veit jeg ekki til, að þau rök hafi verið hrakin af neinum, hvorki innan þings nje utan. Jeg þykist vita, að hv. þdm. hafi kynt sjer þetta skjal, en samt vildi jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkur orð úr því. Þar segir svo m. a.: „Nú á tímum veit jeg ekki til, að slíkir samningar hafi verið notaðir nema í Suður-Afríku og á einstöku stöðum öðrum, við ráðningu verkamanna frá Indlandi og Kína. En þessir óuppsegjanlegu 6 ára vinnusamningar þóttu nálgast svo mjög þrælahald, að úr menningarlöndum Norðurálfunnar reis sterk alda gegn þessu, og veit jeg ekki annað en að bann gegn þessu sje nú lögleitt alstaðar þar, sem hvítir menn ráða“. — Mjer er nú spurn: Hvaða nauðsyn er hjer fyrir hendi, að við þurfum að fara að taka upp eitthvað þessu líkt? Það verður að teljast mjög athugavert og alveg undir hælinn lagt, hve haldgott það verður fyrir menn að taka við þessum störfum. Ríkisstjórnin á hverjum tíma getur þótst þurfa að koma einhverjum sínum gæðingi í gott brauð, og er þá opin leið til að hafa mannaskifti á skipunum, án þess að sá, sem fara yrði, hefði gert nokkuð fyrir sjer. Mjer sýnist allar horfur á, að þetta ákvæði verði síður en svo til nokkurrar þurftar fyrir landhelgigæsluna.

Því hefir verið haldið fram, að frv. þetta gengi í sparnaðaráttina. Ef menn athuga ummælin á þskj. 380, munu þeir fljótlega sjá, að ekki er miklu til að dreifa í þá átt. En jeg skal ekki taka að mjer að verja gildandi lög í því efni, því að þar var jeg á annari skoðun en flytjendur frv. í fyrra. En það er bersýnilegt, að sparnaður þessa frv. getur ekki rjettlætt það, að það gangi fram.

Með þessum fáu orðum hefi jeg viljað sýna, hve óheppilegur og illa sæmandi sá hringlandaháttur hlýtur að teljast fyrir Alþingi, að eitt þingið rífur niður það, sem hið næsta á undan hefir samþykt. Það er bersýnilegt, ef þessi aðferð á að haldast í löggjöfinni, að hvenær sem meiri hluti myndast, þá rífur hann niður öll verk andstæðinga sinna, sem þeir hafa e. t. v. gert degi áður. Þá hljóta borgarar þjóðfjelagsins altaf að verða í óvissu um það, hvort þau lög, sem samþykt eru, eigi að standa deginum lengur.

Jeg mun að sinni ekki fara inn á það, sem gerst hefir í málinu á síðasta ári. Aðalatriðið fyrir okkur hv. 1. þm. Skagf. er það, að við teljum þessa löggjöf síst betri eða hentugri en núgildandi löggjöf.

Jeg tel ekki ósennilegt, að fleiri þykist þurfa að ræða um þetta mál, og mun jeg þá neyddur til andsvara, ef umr. hefjast á breiðari grundvelli.

(* Ræðuhandr. óyfirlesið.)