08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (1629)

74. mál, löggilding verslunarstaðar á Vattarnesi

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg gat ekki sjeð við því, sem fram var komið hjer í deildinni áður en jeg kom inn. En jeg flutti frv. þetta sjerstakt og óháð öðrum samskonar frv., sem nú liggja fyrir þinginu, af nauðsyn. Ástæðan er sú, að jeg vildi flýta fyrir þessari löggildingu, svo að hún yrði komin í kring áður sala færi fram á komanda vori á eignum þeim, sem jeg áður nefndi. Þess vegna hefi jeg tekið í frv. stærð og takmörk lóðarinnar til löggildingar; en eftir frv. því, sem fram er komið í efri deild, er stjórninni ætlað eftir á að ákveða lóðarstærð samkv. lögum nr. 55 frá 1905, og gæti dráttur, sem af því leiddi, aftrað því, að löggilding á Vattarnesi hefði áhrif á sölu húseignanna þar á komanda vori. Jeg sje ekki, að neinu sje spilt, þó að frv. þetta gangi sjerstaklega fram. En ef hv. nefnd, sem fær mál þetta til meðferðar, sýnist svo, þá getur hún lagt til breytingar á þessu. Aðeins kemur löggildingin ekki að fullu liði, ef fylgt er fyrirmynd frv. þess, sem liggur fyrir efri deild.