14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Torfason:

Hv. þm. Borgf. byrjaði ræðu sína í gær á því að gera sig að kóngi, en mig að ketti, og skal jeg gjarnan samþykkja það, að jeg sje ekki nema smáköttur í samanburði við hv. þm. Borgf. (PO: Þetta er ljeleg fyndni!). Hv. þm. hefir getað leikið kónginn á undanförnum þingum, en annað mál er, hvort hann er það nú. En svo er að sjá, sem hann gleymi því stundum, að hann er það ekki lengur. En þar sem þessi kongur er nú „dauður“, skal jeg ekki fara lengra út í þetta í þetta sinn. Enda skulda jeg honum það, að hann rjeðist ekki á mig við 2. umr. fjárlagafrv., þegar jeg var fjarstaddur.

Uppistaða þessa máls er sú, að Árnessýsla hefir lagt til vega samkvæmt skýrslu, er jeg hefi, kr. 164115,00 á 13 árum. En fjórar sýslur aðrar hafa til samans lagt fram á sama tíma kr. 146200,00. Hv. þm. ætti því að vera auðvelt að samþykkja þetta. Jeg þyrfti nú í raun og veru ekki að svara meiru, því hv. þm. reyndi alls ekki til að vjefengja þetta, sem heldur var ekki von, þar sem þetta stóð í opinberri embættisskýrslu vegamálastjóra. En hv. þm. vildi reyna að bjarga sjer með því að koma með annan samanburð, og vildi halda því fram, að hjer væri verið að ganga inn á hála braut. Hvað það snertir, þá hygg jeg, að hv. þm. Borgf. hafi hjer sjálfur lagt inn á hála braut, og er hætt við, að hann steypist á henni. En að samþykkja þessa eftirgjöf er ekki að ganga inn á hála braut. Það er aðeins hv. þm., sem hefir reynt að gera hana hála. Engar hinar sýslurnar hafa þurft að leggja fram fje til endurbyggingar og „púkkunar“ á þjóðvegum, nema Árnessýsla og Rangárvallasýsla. Hv. þm. sagði, að Árnessýsla skapaði fordæmi með þessu. En jeg var búinn að segja frá því áður, að jeg fór þess á leit við fulltrúa Rangárvallasýslu að bera samskonar till. fram. Hjer er því ekki um fordæmi, heldur hliðstætt dæmi að ræða, að mestu leyti.

Þá vildi hv. þm. núa mjer því um nasir, að jeg hefði greitt atkvæði móti eftirgjöf til Rangæinga við 2. umr., en væri nú með henni. Það er rjett, að jeg sagði þá nei. En það var af því, að af ókunnugleika þingmanna Rang. og ónógum undirbúningi var krafan ranglega fram borin að því leyti, að hún var of há. En jeg sagði þeim, að jeg mundi vera með eftirgjöfinni, ef þeir klipu 4 þús. kr. af upphæðinni. Það hafa þeir nú gert. Það er því ekki hægt að tala um neinar andstæður frá minni hálfu, þótt jeg sje með þessu nú.

Þá reyndi sami hv. þm. að draga úr þeim mælikvarða, sem vegamálastjóri hefir lagt á þessi mál, með því að annað komi hjer til greina, t. d. það, að Árnessýsla hafi notið lengur hagsmuna af brautum en aðrar sýslur. Þetta er nú rjett. En þó hygg jeg, að í fjárhag landsins með tíð og tíma gæti þeirra hagsmuna lítið, þegar ár og aldir líða, og engin ástæða til, að þeir gjaldi þess nú. En þegar farið er út í þennan samanburð, þá mætti nú taka fleira til samanburðar. Er þá fyrst frá því að segja, að á sama tímabili, sem Árnessýsla er skylduð til að kosta endurbyggingu brautarinnar, er það gen þvert ofan í vegalögin frá 1894. Þá má minna á það, að Árnessýsla nýtur einskis góðs af hinum miklu upphæðum, sem lagðar eru til strandferðanna árlega. Nú eru lagðar um 30 þús. kr. í samgöngurnar við Borgarnes. Þessar upphæðir, sem veittar eru árlega, geta orðið nokkuð háar með tíð og tíma og miklu meira en það, sem lagt hefir verið í þessa vegarkafla í Árnessýslu. En jeg hefi altaf litið svo á, að það væri í fyllsta máta eðlilegt, að meira fje væri veitt til vega í Árnessýslu en annarsstaðar, vegna hafnleysisins þar. Við Árnesingar vildum glaðir gefa mörg hundruð þúsund krónur til þess að eiga eins góða höfn og Borgfirðingar eiga í Borgarnesi. Þá höfum við engan búnaðarskóla, en hann hafa Borgfirðingar haft um langan tíma. Jeg hefi spurt mæta bændur í Árnessýslu að því, hvort þeir kysu heldur búnaðarskóla eða Ölfusárbrúna, og þeir hafa svarað, að þeir vildu miklu heldur hafa fengið búnaðarskólann. Borgfirðingar hafa notið mikils góðs af sínum búnaðarskóla, og má eflaust að miklum mun rekja velmegun þeirra til hans. Þetta efni mætti nú rekja lengi og víða, en það skal ekki verða gert frekar. Jeg tók aðeins þessi dæmi til þess að sýna það, að nokkuð kæmi á móti þessu annarsstaðar. (PO: Jeg vil benda hv. þm. á það, að Hvanneyrarskólinn er landsskóli!). Jú, en er hann nokkuð verri fyrir það, þó hann sje landsskóli, en ekki hjeraðsskóli? Hann skyldi þá vera verri fyrir það, að ríkið kostar hann að öllu leyti. En ef hv. þm. telur bændaskólann á Hvanneyri ekki sambærilegan við þetta, þá má minna hann á Hvítárbakkaskólann. Borgfirðingar hafa fengið fje til þessa hjeraðsskóla síns, og nú er í ráði að færa hann og gera hann enn veglegri. Jeg skal svo ekki fara út í meiri samanburð. Það hefir aldrei verið siður minn að telja eftir nauðsynleg fjárframlög til annara kjördæma. Þetta sýnir blátt áfram, að jeg sje þó dálítið út fyrir mitt asklok.

Þá vildi hv. þm. gera lítið úr, að þetta hefði verið valdboð. En það var einmitt valdboð, gert að sýslunefndinni fornspurðri og gegn mótmælum hennar. Þá vildi þm. ennfremur halda því fram, að Árnessýsla hefði sloppið algerlega við viðhaldið meðan verið var að byggja Flóaveginn. Þetta er alls ekki rjett. Jeg hefi nú símað heim í skrifstofu mína til þess að spyrjast nánar fyrir um þetta, og reikningar sýslunnar sýna, að árið 1921 hefir sýslan borgað 5 þús. kr. til viðhalds, og á næstu árum rúmar 5 þús. kr. (PO: Hvaða ár?). Meðan verið var að byggja brautina. Það má vera, að það skakki ári, því að reikningar vegamálastjóra komu eftir á. Hann heimtaði, að við kostuðum viðhaldið.

Jeg er ekki að ámæla hv. þm. fyrir að vita ekki þetta, en svona liggur í málinu. Sömu ár varð sýslan að borga 26 þús. kr. til viðhalds Eyrarbakkabrautinni. Eitt árið 12 þús. kr. til þessarar brautar, sem er 11 km. löng, eða meira en 1 þús. á hvern km.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að jeg hefði sagt, að ekki orkaði tvímælis um neina af þeim till., sem hæstv. stj. hefði borið fram eða mælt með. Þetta er nú ekki rjett með farið. Jeg sagði eitthvað á þá leið, að varla orkaði tvímælis um þær till., sem hæstv. fjmrh. nú hefði borið fram. Enda þekkja allir hæstv. fjmrh. að því, að tæplega getur varfærnari mann í fjármálum og hann lætur engan leiða sig út á neinar villigötur.

Það er því óhætt að treysta því, að hann tekur ekki upp aðrar fjárveitingar en þær, sem hann er sannfærður um, að sjeu nauðsynlegar og rjettmætar.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að því er virtist, að vegamálastjóri ætti að hafa fjárveitingavald með sínum till. (PO: Það sagði jeg aldrei). Það var ómögulegt að skilja orð hv. þm. öðruvísi. Enda vill hann fara eftir till. vegamálastjóra, en ekki hæstv. fjmrh. Eftir því ætti vegamálastjóri að vera einskonar yfirfjmrh. þessa lands. Jeg neita því algerlega, að það eigi svo að vera. Hann á að gefa stj. skýrslur og vera henni til ráðuneytis, og ekkert annað.

Samkvæmt skýrslu vegamálastjóra hefir Árnessýsla greitt á 13 árum 164115 krónur til vegabóta, en fjórar aðrar sýslur ekki nema 146200 kr. á sama tíma. Þetta sýnir, hve óskaplega hefir verið að okkur sorfið.

Þá vildi hv. þm. Borgf. enn halda fram athugasemd sinni viðvíkjandi Flóaáveitufjelaginu. Jeg vil þá enn halda því fram, að hjer sje þm. að fara fram á lögbrot. En vitaskuld er þar nú ekki leiðum að líkjast. Um Flóaáveituna eru alveg sjerstök lög, og jeg vil skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann telji rjett eða heimilt að bera þessa till. upp í hv. deild.

Þá hefir verið reynt að gera sjer mat úr því, að færa beri þessa eftirgjöf tekjumegin líka, en það eru mörg fordæmi fyrir því og dæmi um, að lán hafa verið gefin eftir án þess að þetta væri gert. Þó að þetta væri ekki eftir gefið, þá er hætt við, að viðlagasjóður yrði aldrei feitur af því láni, sem sýslan getur ekki borgað. — Jeg sagði áður, að jeg skildi ekki vel hugsanaferil hv. þm. í þessu máli, og jeg stend við það. Þar sem hann greiðir atkv. með því að gefa Rangárvallasýslu eftir 40 þús. kr., þá er mjer alveg óskiljanlegt, hvernig hann getur verið á móti þessari eftirgjöf til Árnessýslu.

Þá var hv. þm. að fara út í mína litlu till. viðvíkjandi Miklavatnsmýraráveitunni, um að færa niður viðlagasjóðslán til áveitunnar á þeim jörðum, sem ekki geta haft hennar not, svo ekki þurfi að hækka skatturinn á þeim bændum, sem eftir eru.

Þessi sveit er fátæk og sveitarþyngsli mikil, en þar búa nokkrir duglegir og atorkusamir menn, undir þungum álögum, sem mikið stafa af ómögum úr Reykjavík. Þeir hafa eingöngu haft sig upp á landbúnaði. Það reyndist of þjettbýlt í þessari sveit, en þegar fór að verða rýmra, gátu þeir lifað og fengu kjark og dug til framkvæmda og jarðabóta. Þeir hafa lagt fram mikla vinnu og sumir unnið af sjer allar landsskuldir með jarðabótastyrk, og meira til. Einn maður á til góða hjá ríkinu um 1200 kr. fyrir jarðabótastyrk. Með öðrum orðum, þessir menn eru stórkostlega að bæta jarðeignir ríkissjóðsins og auka verðmæti þeirra.

Till. hv. þm. gengur þá út á að hegna þeim fyrir það með því að láta þá borga háan skatt fyrir þessa „þurveitu“ — það er nýtt orð, dregið af því, að sumir fengu engan dropa af vatni í þessa áveitu, og hefir ekki verið hægt að slá þar eitt högg víða, sem áður voru bestu slægjur.

Annars skal jeg snúa mjer að öðru atriði, sem sje því, að í raun og veru ætti ríkið að borga þessu hjeraði fyrir mistök þeirra manna, sem það hefir sent austur. Það er ekki annað sýnna en að áveitufræðingarnir hafi ekki kunnað sitt verk, það verk, sem þeir áttu að vinna þarna, og ríkið ber ábyrgð á því. Þeir eru því falsaður og svikinn varningur, sem hefir verið seldur bændum dýru verði; og hver, sem selur öðrum svikinn varning, er skyldur að borga hann að fullu. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að sviknir verkfræðingar verði frekar en annar svikinn varningur teknir sem góð og gild vara.