11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (2250)

145. mál, brot dómsmálaráðherra á varðskipalögum

Jóhann Jósefsson:

Það hefir áður fallið í minn hlut að láta uppi við hæstv. dómsmrh. (JJ), hverja skoðun jeg hefi á aðstöðu hans til varðskipamálsins. Og hann hefir látið blað sitt bera það út, að honum hafi þótt það leiðinlegt, sem jeg hefi um það sagt. sannast hjer, að sök bítur sekan, og er von, að honum þyki leiðinlegt, þegar sýnd eru með rökum afglöp hans og fótatramp á þingræðinu.

Ástæðan til þess, að jeg tek nú til máls, er sú helst, að hæstv. ráðh. (JJ) ljet mín að nokkru getið í ræðu sinni. Það er rjett, að jeg hefi komið nokkuð við sögu þessa máls. En það get jeg sagt með sanni, að alt, sem jeg hefi lagt til strandvarnanna, hefi jeg gert af heilum hug og umhyggju fyrir velferð þess máls. Jeg held, að enginn ávinningur verði að því að eltast við útúrdúra hæstv. ráðh. Hann notaði sömu aðferðina nú og áður, að vefja kjarna málsins í aukaatriðum, sem ekkert koma því við. Er hægt að sýna fram á, að fjölda margt í ræðu hans var af tómum yfirdrepskap mælt, ef ekki hreinn tilbúningur, til þess að dylja það, sem talað er um. Hann talaði um, að „Þór“ væri lítilfjörlegur. En jeg ætla, að allir muni finna, að ekki er ástæða til að gera það að umtalsefni, þó að „Þór“ sje orðinn gamall. Jeg geri varla ráð fyrir, að hæstv. dómsmrh. sje svo barnalegur að ímynda sjer, að menn hafi haldið, að með því að kaupa „Þór“ væri fengið fullkomið strandvarnaskip. Það hefir víst öllum verið ljóst, að „Þór“ hafði ýmsa galla sem strandvarnaskip, þó að hann gæti verið góður til annars. Get jeg bætt því við, að mjer finst „Þór“ verður hlýlegri ummæla en hann hefir hlotið frá hæstv. ráðh. Vil jeg minna á, að þetta skip hefir ekki komið Vestmannaeyingum einum að liði, heldur fleiri og færri mönnum úr öllum hjeruðum landsins. Og þó að hann sje nú talinn lítils virði móts við annað skip, nýtt og betra, er þess að minnast, að hann hefir tekið eigi færri en 80 skip að ólöglegum veiðum.

Það er eins og hæstv. dómsmrh. hafi hrelst nokkuð mikið, er það tókst í dag að rjetta ofurlítið hluta þeirra manna, sem urðu harðast fyrir barðinu á honum í þessu lögbrotamáli.

Hann var eitthvað að tala um það, að búið hefði verið að „agitera“ svo fyrir að bæta launakjör yfirmanna skipanna, að sjer hefði ekki hugkvæmst að koma í veg fyrir það. Það var bágt, að hann skyldi ekki gera það! Jeg get fullvissað hæstv. dómsmrh. um, að það, sem skeði í dag, var ekkert annað en rjetting á hlut manna, sem allir sáu, að verið var að leika grátt. Það er hægt fyrir hæstv. dómsmrh. að gera lítið úr aðgerðum fyrv. stj. í strandvarnamálinu; það er hægara að átelja eftir á en ráða vel fram úr í byrjun. Jeg vil minna á það, að þegar þetta mál var tekið upp af fyrv. Stj. og Íhaldsflokknum, var um algert nýmæli að ræða að því er fyrirkomulagið snerti. Hjer hjá okkur var engin reynsla fengin í þessu efni, og reynsla annara þjóða ekki sambærileg.

Hæstv. dómsmrh. talaði um, að fyrv. stj. hefði lítið gert til þess að fá mentaða stýrimenn, sem væru til taks, ef á þyrfti að halda. Þetta er algerlega rangt. Þegar „Óðinn“ var keyptur, gerði fyrv. Stj. ráðstafanir í þessa átt og sendi Friðrik Ólafsson, núv. skipherra „Þórs“, á liðsforingjanámskeið í Danmörku, svo að hann væri viðbúinn að taka við skipinu. Það vita allir, að frammistaða þessa manns við námið var ágæt, og hæstv. dómsmrh. hefir kannast við það við mig, að hún hefði verið ágæt og landinu til sóma. Jeg er ekki að átelja núv. stj. fyrir að halda þessu starfi áfram. Jeg tel það þvert á móti rjettmætt og sjálfsagt að gera slíkar ráðstafanir. Það geta altaf komið fyrir veikindi og önnur forföll á varðskipunum, en málið er svo mikilsvert og þær hliðar, sem að útlendingum snúa, svo þýðingarmiklar, að sjálfsagt er að sjá um, að altaf sjeu til forustu á varðskipunum valdir þeir menn, sem hafi þá mentun, sem krefjast verður af foringjum strandvarnaskipa.

Þá kom hæstv. dómsmrh. með hina lúalegu og margupptuggnu aðdróttun, að við Íhaldsmenn hefðum haft í huga að koma hjer upp herliði. Í því sambandi talaði hann um hershöfðingja og aðmírála. Því fór fjarri, að við hefðum nokkuð slíkt í huga, en til þess að sýna hv. deild, að jeg fer ekki með staðlausa stafi, vil jeg leyfa mjer (með leyfi hæstv. forseta) að lesa nokkur orð upp úr nál. allshn. Ed. 1927, sem fjallaði um málið. Þar segir svo:

„Nefndin felst í öllum aðalatriðum á það fyrirkomulag, sem ríkisstj. vill hafa viðvíkjandi varðskipunum samkvæmt þessu frv.“.

Og enn segir þar:

„Hjá nágrannaþjóðum vorum er eftirlit landhelginnar ýmist framkvæmt af sjóliðinu (Marine militaire) eingöngu eða af því og sjólögreglunni (Police maritime) í sameiningu.

Samkvæmt frv. svara löggæslumenn þeir, sem hafa eiga eftirlit með löggæslu vorri, til hinnar síðarnefndu“.

Undir þetta nál. skrifa tveir Íhaldsmenn og einn gegn og mætur Framsóknarmaður, núverandi forseti Ed. (GÓ). Við lögðum einmitt áherslu á það, að hjer væri um sjólögreglu að ræða, en ekki herskip. Ef hæstv. dómsmrh. vill því halda áfram að beina því til okkar, að við höfum viljað tildur í þessu efni, hittir sú ásökun einn mætan flokksmann hans engu síður en okkur hina, sem undir nál. skrifuðum.

Það var eitt atriði í ræðu hæstv. dómsmrh., sem jeg vil ekki láta ómótmælt á Alþingi, þar eð það kom frá manni í svo virðulegu embætti. Hann ásakaði íslenska útgerðarmenn fyrir tilfinningaleysi og afskiftaleysi gagnvart mönnum á fiskiflotanum íslenska. Jeg held að til þess að koma með slíkar ásakanir þurfi meira en flapurkendar og staðlausar staðhæfingar hæstv. dómsmrh. enda eru þær ósannar og ósannanlegar, af því að þær eru ósannar. Af þeirri þekkingu, sem jeg hefi á útlendum og íslenskum útgerðarmönnum held jeg því fram, að íslenskir útgerðarmenn sjeu ekki ómannúðlegri við háseta sína en útlendir útgerðarmenn. Jeg álít þá meira að segja standa hinum síðarnefndu langt framar.

Þó að jeg hafi drepið á ýms atriði í ræðu hæstv. dómsmrh., er það þó ekki þetta, sem um er deilt. Það er ekki heldur verið að deila um það, hvort fyrirkomulagið og launakjörin eftir 1. frá síðasta þingi sjeu rjett eða eftir allra höfði. Það er verið að ræða um það, að lög, sem Alþingi hefir sett í landinu samkvæmt stjórnarskrá þess, eru brotin og lítilsvirt af hæstv. dómsmrh., þeim manni, sem sjerstaklega er settur til þess að gæta helgi laga og rjettar. Hjer er farið fram á með þáltill. á þskj. 544, að Alþingi víti þetta, en ekki hvort þessi lög hafa fallið þessum virðulega ráðh. í geð, þegar þau voru sett. Það er ekki óeðlilegt, að sá maður, sem nú situr í sæti dómsmrh. á Íslandi, reyni með sinni alræmdu aðferð að skríða frá í felur og vefja kjarna málsins ýmsu óviðkomandi, til þess að hylja það, sem um er deilt. Hv. 1. þm. Skagf. (MG) hefir sýnt fram á það, með því að tilgreina atkvæðamagnið, sem lögin um varðskipin voru samþ. með á síðasta þingi, að því er svo fjarri, að Íhaldsmenn hafi einir staðið að þessum lögum. En hvað um það. Lögin eru komin á á rjettan hátt, og framkvæmdarstjórn landsins bar að framkvæma þau, en ekki fótumtroða. Ráðherrar eru ekki hafðir til þess að fara eftir eigin geðþótta. Jeg get skilið, að í sálum sumra þeirra leynist löngun til að fara eftir eigin höfði, en ekki eftir lögunum — það er skiljanleg tilfinning —, en sú löngun á ekki að verða ofan á, því að maður á að geta vænst þess, að ráðh. haldi sjer fast við lögin. En hæstv. dómsmrh. hefir sýnt, að það er ekki einungis í þessu máli, sem hann hefir ríka tilhneigingu til þess að fara þvert ofan í lögin. Jeg vil minna á Akureyrarskólann og ýmsar smærri ráðstafanir og valdbrot ráðh., svo sem tilbreytingar á embættum, þegar hann óskar að koma einhverjum andstæðingi sínum frá, sem hæpið er að eigi stoð í lögum. Jeg hefi heyrt, að hann hafi víðsvegar um land vikið frá þeim mönnum, sem höfðu útsölu Spánarvínanna með höndum. Það getur hafa verið ástæða til þessa í sumum tilfellum, en jeg þekki þar til, sem þetta var ástæðulaust með öllu. Í staðinn eru svo settir gæðingar og vildarmenn hæstv. dómsmrh.! Jeg þekki ekki öll dæmin, þau eru fleiri og verða vafalaust enn fleiri.

Hæstv. dómsmrh. hefði ekki átt að minnast á Mussolini. Hann er frægur fyrir það að fótumtroða þingviljann, og sá, sem hjer sýnir mesta tilhneigingu til þess að þykjast vera Mussolini — þykjast eins og krakkarnir — er einmitt hæstv. dómsmrh. Það ætti að vera öllum hv. þm. ljóst, hver hætta það er fyrir þjóðina, ef ráðh. skirrast ekki við að brjóta lögin, ef þeim býður svo við að horfa. Það er óþarfi fyrir mig sem er ungur á Alþingi, að vera að minna eldri þm. á það, hver hætta getur af þessu stafað fyrir þjóðfjelagið.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að sjer hefði brugðið í brún, þegar hann hefði sjeð skjalabunkann í stjórnarráðinu og átt að skrifa undir lögin frá því í fyrra. Hvílíkur barnaskapur! Eins og ráðh. sje ekki skyldugur til þess að afgreiða lög, þótt þau sjeu ekki samþ. af hans meiri hl.? Hæstv. dómsmrh. sagði meira. Hann sagði, að sjer hefði ekki litist á, og þar sem fyrverandi stj. hefði ekki framkvæmt lögin, hefði hann ákveðið að draga það líka. Það getur verið, að hæstv. dómsmrh. finnist þessi skýring eiga vel við nú, en það vill nú svo til, að það er til skjalfest önnur skýring á þessu fyrirbrigði. Í „Tímanum“ 14. jan. stendur m. a. þessi skýring á broti hæstv. dómsmrh.:

„Núverandi stj. hefir gert þá grein fyrir afstöðu sinni, að hún teldi laun yfirmanna varpskipanna óhæfilega há og að hún teldi háskalegt að festa þá menn í öruggum embættum, sem í framtíðinni ættu með árvekni og síhvössu auga að gæta landhelginnar fyrir innlendum jafnt og erlendum lögbrjótum“.

Þá var það, að hæstv. dómsmrh. ljet þetta í veðri vaka sem ástæðu. Hann feldi sig ekki við lögin og fanst þess vegna ekki rjettmætt að framkvæma þau. Þingviljinn var andstæður hans eigin vilja, og þá tók hann sjer vald til þess að brjóta vilja þingsins á bak aftur. Þetta skeði í málinu og þó meira en þetta. Hæstv. dómsmrh. hefir viðurkent, að önnur leið hafi verið opin til þess að fresta framkvæmd laganna.

Þetta vissu allir og jeg hefi áður bent hæstv. ráðh. á þetta. Sú leið var að setja mennina í stöðurnar, en skipa þá ekki. Hæstv. dómsmrh. hafði vissan meiri hluta, og það var opin leið fyrir hann, ef lögin voru skaðleg fyrir þjóðina, að fresta framkvæmdum þeirra og bíða uns þingið kæmi saman og rjetti þá galla, sem að hans áliti voru á lögunum. En hæstv. dómsmrh. vildi ekki fara þessa leið; hann kaus heldur að fara þá ólöglegu. Þetta er lítilsvirðina á löggjöfunum og fyrirlitning á Alþingi.

Það má vera, að svo fari í þetta sinn, að hæstv. dómsmrh. geti notað þann meiri hluta, sem styður hann að völdum, til þess eins og hann sjálfur segir að „láta kúgast“ til að loka augunum fyrir lögbrotum. Hæstv. dómsmrh. komst svo að orði um einn duglegan stýrimann á varðskipunum, að hann hefði ekki látið kúgast til að loka augunum fyrir lögbrotum. Sjálfur hefir hann von um að geta látið þingmeirihl. kúgast til að loka augunum fyrir þessu lögbroti sínu. Á meðan þjóðskipulag okkar byggist á þingræðisgrundvelli og borgararnir eiga líf sitt og tilveru undir þessu skipulagi, sem þjóðin hefir búið við um langan tíma, á meðan svo er, eru smærri lögbrotin ekki þau hættulegustu fyrir þingræðið, svo sem landhelgis- og áfengisbrotin, heldur þau brot, sem hjer er verið að átelja, þegar ráðherrar, sem eru framkvæmdarstjórn landsins, skirrast ekki við að lítilsvirða og fótumtroða vilja Alþingis.

Hæstv. dómsmrh. hefir engri hættu bægt frá í þessu máli, heldur stefnt í þá hættu, að veikja grundvöllinn og grafa undan þessu sjálfstæðismáli þjóðarinnar. Hann hefir engu bjargað. Þeir, sem fallast á þessar gerðir hans, stefna tvennu í voða: Vald og helgi Alþingis er fyrir borð borið, og sömuleiðis áhrif og rjettur borgaranna sjálfra. Sje þessu fylgt af þinginu, er opin leið fyrir ofstopamenn í ráðherrasæti að fara eftir geðþótta sínum, hvað sem þingviljinn segir, en þá er Alþingi sjálft að kippa grundvellinum undan sínu eigin valdi.