24.02.1928
Neðri deild: 31. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (2387)

80. mál, uppsögn sambandslagasamningsins

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg ætla að segja hjer nokkur orð fyrir hönd flokksmanna minna, í tilefni af þeirri fyrirspurn, sem hv. þm. Dal. (SE) bar fram.

Við getum fallist á svör þau, sem hæstv. forsrh. (TrÞ) gaf hv. þm. Dal., það sem þau náðu.

Við getum verið ásáttir um það að segja upp samningnum við Dani, og eins og hjer stendur, að „láta íhuga, sem fyrst, á hvern hátt utanríkismálum vorum verði komið fyrir bæði sem haganlegast og tryggilegast, er vjer tökum þau að fullu í vorar hendur“.

Að þessu leyti erum vjer algerlega samþykkir svörum hæstv. forsrh., en við vildum gjarnan bæta því við, að við erum þeirrar skoðunar, að konungssambandi milli Íslands og Danmerkur eigi að vera slitið að fullu, þegar það er hægt. Jafnframt vil jeg beina þeirri fyrirspurn til annara flokka hjer á þingi, hvort þeir sjeu mjer ekki sammála um, að Ísland eigi sem fyrst að verða frjálst lýðveldi. Eftir sambandslögunum, er ákveða konungssamband á milli landanna, og stjórnarskrá Íslands, er það svo, að æðstu völd eru í höndum konungs ásamt þinginu, löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið. Hjer er þingbundin konungsstjórn. Lögin eru borin upp fyrir konungi, er undirritar þau áður en þau ná gildi. Hann gerir samninga við önnur ríki, stefnir Alþingi saman, frestar því eða rýfur það, veitir æðstu embættin og getur jafnvel gefið út bráðabirgðalög. Sje vilji þjóðarinnar annar en hans í þessum málum, heldur hann þó fullum rjetti sínum samkvæmt sambandslögum og stjórnarskrá. Það er því auðsætt, að ekki er hægt að kalla þjóðræði í landinu, á meðan konungur er yfir okkur, og enn þá síður svo lengi sem sá konungur er þjóðhöfðingi annars lands. Landið er konungsríkið Ísland, en ekki lýðveldið Ísland. Vilja hinir flokkarnir taka höndum saman við oss Jafnaðarmenn til þess að endurreisa lýðveldið Ísland?

Jeg geri ráð fyrir, að það verði tækifæri til að svara hv. 1. þm. Skagf. (MG) við annað tækifæri, því, sem hana fór að tala um samband danskra og íslenskra stjórnmálaflokka. Að minsta kosti ætti sá hv. þm., er hefir sem ráðherra flotið á dönskum styrk og dönsku fje frá dönskum mönnum, búsettum hjer og í Danmörku, sem fæst að tala um slíkt.