17.03.1928
Neðri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2691 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

15. mál, strandferðaskip

Gunnar Sigurðsson:

* Jeg stend upp til þess að gera grein fyrir, hvers vegna jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara. Hitt ætla jeg mjer ekki, að fara að verja frsm. meiri hl. nefndarinnar. Það mun hann sjálfur gera.

Mína aðstöðu ber ekki að skilja svo, að jeg sje á móti góðum samgöngum á sjó; síður en svo. En nú er svo komið, að þær mega heita í sæmilegu lagi, enda mikið fyrir þær gert af hálfu ríkisins. En á landi eru hvergi samgöngur með tískusniði. Þess vegna á að byrja á því að bæta þær, svo að hægt sje að una við, áður en lengra er farið í því að fjölga strandferðum.

Þá er fjárhagshliðin. Ber ekki eingöngu að líta á stofnkostnað strandferðaskipsins, heldur og rekstrarkostnaðinn, því að hann mun verða tilfinnanlegri, er stundir líða. Jeg ætla, að á því leiki lítill vafi, að landflutningar, hvort sem þeir fara fram á bílum eða járnbrautum, muni verða ódýrari en skipaflutningar. Þetta hefir reynst svo, og er þó ekki tekið tillit til hallans á rekstri skipanna, þegar flutningskostnaður er reiknaður.

Samgöngur á landi eru beinlínis skilyrði þess, að hægt sje að reka hjer landbúnað. Mjer er það vel kunnugt, og þýðir ekki að dylja það, að landbúnaður borgar sig ekki hjer á landi sem stendur. Hann er rekinn með framlagi frá öðrum atvinnuvegum. En því vil jeg halda fram, að sje ekki hægt að fá landbúnaðinn til að bera sig af eigin ramleik, þá eigi að leggja hann niður. Það getur verið, að þessi orð mín hneyksli einhverja. En þó að jeg tali hjer sem fulltrúi sveitanna, ætla jeg að standa við þau. Við verðum að líta á ástandið eins og það er. Íslenskur landbúnaður er í flestum atriðum 1000 árum á eftir tímanum. Hann vantar samgöngur. Hann vantar lánsstofnanir. Hann vantar vjelar. Við skulum hugsa okkur þá miklu landbúnaðarþjóð Dani. Hvernig mundi fara fyrir þeim, þó að ekki væri nema eitt af þessu þrennu frá þeim tekið? Jú, landbúnaður þeirra mundi leggjast í kalda kol. Hv. þdm. mega ekki skilja orð mín svo, að jeg sje sjerlega svartsýnn á framtíðarmöguleika íslensks landbúnaðar. Þvert á móti. En hjer dugir ekkert kák, engir smástyrkir og vetlingatök. Segjum, að hingað kæmi erlendur auðmaður. Jeg er ekki að óska þess, en nefni það sem dæmi. Gerum ráð fyrir, að hann væri svo auðugur, að hann gæti keypt alt suðurláglendið og gerði það. Hverjar umbætur mundi hann fyrst framkvæma? Jeg er alveg sannfærður um það, að hann mundi byrja á því að leggja veg austur frá Reykjavík.

Afstöðu minni ræður engin hreppapólitík. En hjer er um mesta undirlendi landsins að ræða. Heill alþjóðar krefst þess, að byrjað sje á að sjá því fyrir góðum samgöngum. Jeg segi ekki, að jeg vilji útiloka endurbætur strandferðanna eftir á. En á þessu á að byrja. Og því held jeg fram sem áður, að flutningar sjeu dýrari á sjó en landi. Meiri hl. nefndarinnar hefir sýnt það með tölum í nál. Og svo má ekki gleyma flugvjelunum. Trú mín er sú, að þær muni, áður en langt líður, koma að miklum notum til að bæta samgöngurnar til hinna afskektari hjeraða.

Jeg þarf litlu að svara háttv. 4. þm. Reykv., og hefi þegar gert það að mestu leyti. Hann gaf í skyn, að jeg mundi aðallega líta á hag Holtanna í þessu máli. Það er ekki rjett. En jeg tel óhjákvæmilegt að koma einhversstaðar upp nýtísku samgöngum á landi. Nú er naumast hægt að komast frá Reykjavík upp í Mosfellssveit án þess að Stranda á leiðinni, og er slíkt óviðunandi ástand. Aðalinntak máls míns get jeg markað í fáum orðum: Samgöngur á sjó eru þegar komnar í sæmilega gott lag. Hinsvegar getum við varla í náinni framtíð lagt í svo mikinn kostnað, sem þarf til þess að fá óaðfinnanlegar samgöngur inn í hvern fjörð og hverja vík. Nú krefst nauðsynin þess fyrst og fremst, áð einhversstaðar sje hafist handa um viðunandi samgöngur á landi.

*Hjer vantar kafla í ræðuna. P. O