24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2739 í B-deild Alþingistíðinda. (2525)

15. mál, strandferðaskip

Frsm. minni hl. (Hannes Jónsson):

Við 2. umr. þessa máls vjek hv. þm. Barð. að mjer nokkrum orðum. Jeg hafði getið þess, að hann hefði verið nærgöngull við Morgunblaðið í röksemdafærslu sinni í málinu. Hann hefir nú þvegið þetta af sjer við mig. Jeg get búist við því, að bæði honum og þeim, sem að þessu blaði standa, hafi dottið eitthvað svipað í hug, og því get jeg skilið það, að hv. þm. Barð. kom með þessi rök, sem áður höfðu birst á prenti, til þess að sýna fram á, að mín röksemdafærsla rækist á.

Í nál. minni hl. er það skýrt tekið fram, að það, sem valdi þessari nauðsyn á auknum strandferðum, sje viðskiftaþörfin og ferðalangarnir. Það er nú að vísu svo um þessa ferðalanga, að þeir ferðast ekki altaf af brýnni nauðsyn, heldur að nauðsynjalausu, en samt verður þjóðin að sjá svo um, að ferðalöngun þeirra sje fullnægt. Og ef við gerum það ekki, verður það minkun fyrir þjóðina. Auk þess eru það Danir, sem annast að miklu leyti fólksflutningana fyrir okkur nú sem stendur. (SÁÓ: Og Norðmenn líka). Jeg býst við því, að í þeirra skaut falli aðallega óþarfar ferðir. En jeg vil ekki eyða fleiri orðum að þessu atriði. Mjer virðist sem því verði ekki mótmælt, að þessum ferðalöngum verður að fullnægja, og það verðum við að gera sjálfir, ef við eigum að geta talist sjálfstæð þjóð.

Það var annað í ræðu hv. þm. Barð., sem mig langar til að athuga og koma með fyrirspurn til hans út af. Hann var að dylgja með það, að jeg hefði farið út fyrir takmörk, sem aðrir þm. gleymdu ekki að taka tillit til. Ef hv. þm. á við þau orðaskifti, sem farið hafa milli mín og hv. 2. þm. G.-K. hefi jeg ekkert um það að segja. Sá hv. þm. sagði, að jeg hefði orðið mjer til minkunar, en jeg svaraði fyrir mig og jeg býst ekki við, að hv. þm. Barð. þurfi að kvitta þá reikninga, fyrir hvorn okkar sem er. En ef háttv. þm. á við eitthvað annað, sem einhver flokksbróðir hans, utan þings eða innan, hefir látið sjer sæma að bera mjer á brýn, vona jeg, að hann komi með það, svo að jeg geti svarað því. Hinu get jeg lýst yfir, að jeg hefi ekki hugsað mjer að svara því, sem kemur fram á vígvelli Íhaldsflokksins í blaðaheiminum. En jeg tel mjer skylt að afsanna það, sem borið er fram hjer á Alþingi af þessu tægi.