25.01.1928
Neðri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2971 í B-deild Alþingistíðinda. (2752)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Bernharð Stefánsson:

Jeg vil aðeins taka það fram, að mjer þætti viðkunnanlegra, að þeir hv. þm., sem þurfa að vitna í orð mín og gerðir á fyrri þingum, vildu fara rjett með. Hjer hefir orðið nokkur misbrestur á því hjá hv. 2. þm. G.-K. Jeg fylgdi málinu og greiddi atkv. með því, þó að jeg hinsvegar teldi sanngjarnt, að Gullbringu- og Kjósarsýsla hjeldi sínum þm. (ÓTh: Vill ekki hv. þm. lesa sína eigin ræðu?). Jeg þarf þess ekki, því að jeg man vel mína afstöðu til málsins, en það er altaf hægt að snúa út úr orðum manna, eins og hv. 2. þm. G.-K. er að reyna að fleyta sjer á hjer. Jeg sagði einmitt í þeirri ræðu, sem hv. þm. vitnaði í, að jeg teldi það sanngjarnt, að Hafnarfjörður yrði sjerstakt kjördæmi.