08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2972 í B-deild Alþingistíðinda. (2755)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. minni hl. (Hákon Kristófersson):

Jeg skal taka mjer til fyrirmyndar framkomu hv. 2. þm. Reykv. um það, að halda ekki langa framsöguræðu. Mál þetta er svo þaulrætt, að það væri að bera í bakkafullan lækinn að auka við þær umr. Auk þess þykist jeg viss um, að með hinum mikla liðstyrk, sem fylgismenn frv. hafa, sjeu forlög þess ákveðin. Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, höfum við hv. 1. þm. Skagf. ekki getað orðið sammála hinum nefndarmönnunum um afgr. þessa máls. Við höfum ekki getað komið auga á nauðsyn þess að hafa sjerstakan þingmann fyrir Hafnarfjörð. Það, sem hlýtur að vera þungamiðjan í þessu máli, er þetta: Hefir Hafnarfjörður beðið skaða af því að hafa ekki sjerstakan þingmann? En jeg minnist þess ekki, að komið hafi fram rök, sem sanni það. Því hefir vitanlega verið haldið fram, að staðhættir Hafnarfjarðar væru ólíkir staðháttum annara sýslufjelaga, sem hafa sameiginlegan þingmann. En jeg held, að svo sje ekki. Aðallífsframfæri sitt hafa Hafnfirðingar frá sjónum. Ef svo væri, að þingmaður Hafnarfjarðar væri alókunnugur högum og háttum sjómanna, þá væri kannske ástæða til að óska breytingar. En þessu er ekki til að dreifa, því kunnugt er það, að báðir hv. þm. G.-K. eru með víðsýnustu þm. á þeim málum, er snerta sjávarútveginn, og svo hefir það verið með þm. þess kjördæmis. Þar með er þeirri ástæðu niður slegið, að Hafnarfjörður hafi skaðast á því að hafa sameiginlega þingmenn við sýslurnar.

Því hefir verið haldið fast fram af hálfu meðmælenda þessa máls, að Hafnarfjarðarbær væri svo ríkur að íbúatölu, að hann ætti heimtingu á að fá þm. út af fyrir sig. Þetta er vitanlega skoðun þeirra. En er frambærilegt að slá því fram, að Hafnarfjörður bíði nokkurt tjón við það ástand, sem nú er?

Það hefir verið skírskotað til þess, að rökin fyrir skiftingu Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi yrðu ekki hrakin. Jeg ætla að leyfa mjer að halda því fram, að rökin á móti skiftingu verði ekki hrakin. Alt á þetta að vera gert samkvæmt ósk Hafnarfjarðarbúa og undirskriftir frá þeim lagðar fram. En jeg þykist mega fullyrða, að hundruð kosningarbærra manna hafa lýst sig andvíga skiftingunni.

Hv. 2. þm. G.-K. hefir nú sem fyr verið aðalforsvarsmaður þeirra, sem ekki sjá beina ástæðu til skiftinga: kjördæmisins. Hann ætti manna best að vera máli þessu kunnugur, og staða hans sem útgerðarmanns gerir það að verkum, að hann er færari til þess en jeg og aðrir utanaðkomandi menn að dæma um, hvað sje kaupstaðnum fyrir bestu.

Það er alveg óhæfilegt að slá því fram, eins og gert hefir verið, að jeg og aðrir, sem eru á móti þessu máli, vilji vinna með því að sulti Hafnarfjarðarbúa, enda tók jeg þau ummæli sem ósvífna og illa hugsaða slettu til mín og minna flokksbræðra, en ekki sem rök. Mig furðar á því, að ef hv. flm. þessa frv. eru svo sannfærðir um, að Hafnarfirði beri þau rjettindi, sem þar er farið fram á, skuli þeir ekki hafa reynt að stíga feti framar og koma fram með gagngerða athugun á kjördæmaskipuninni yfirleitt. Jeg slæ þessu aðeins fram, af því að mjer er ekki ljóst, af hverju þeir snúa huga sínum einungis að þessum stað.

Jeg býst við, að langar umr. um þetta mál sjeu þýðingarlitlar. Það má segja, að „Svo voru net úr garði gerð, að gegnum smugu fáir“. Jeg hefi ekki getu til þess að hamla á móti því valdi, sem hv. flm. frv. hafa hjer á Alþingi. Þeir verða að bera ábyrgð á þessu sem öðru, sem þingið gerir, því vitanlega eru þeir hið raunverulega ráðandi afl í þinginu eins og stendur.