22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3139 í B-deild Alþingistíðinda. (2824)

91. mál, sala Garða á Akranesi

Pjetur Ottesen:

Jeg vil aðeins láta nokkur orð fylgja frv. þessu, áður en það fer til nefndar.

Það er borið fram af allshn. Ed. að tilhlutun hæstv. stj. og er þannig til komið, að mjög fjölmennur fundur á Akranesi samþ. með miklum meiri hl. að fara fram á við ríkisstjórnina að fá prestssetursjörðina Garða á Akranesi keypta.

Þannig hagar til þarna, að jörð þessi á land umhverfis kauptúnið að ofanverðu. En eins og kunnugt er, er mikil garðrækt á Akranesi, en jafnframt garðræktinni reka þorpsbúar og hafa rekið um alllangt skeið töluverðan landbúskap. Þeim er þetta að nokkru leyti nauðsynlegt vegna garðræktarinnar, sem útheimtir mikinn áburð. Fjenaðareign kauptúnsbúa hefir aukist allmikið síðustu árin; þannig eru nú orðið í kauptúninu það margar kýr, að þær fullnægja að mestu mjólkurþörfinni á sumum tímum árs. og um 1000 fjár mun vera í kauptúninu, auk þess sem þar er allmikið af hestum. Þessa gripi verður að fóðra að miklu leyti á heyi, sem aflað er utan kauptúnsins, og að öllu leyti á aðkeyptri beit. Þörfin fyrir aukið landrými er því mjög brýn, því kauptúninu er öryggis vegna mjög nauðsynlegt að geta haldið í horfi með fjenaðareign og garðrækt.

Eins og jeg gat um, liggur Garðaland að kauptúninu að ofanverðu og er því ekki í annað hús að venda fyrir kauptúnsbúa með beitarafnot, svo kleift sje, en í Garðaland. Samkvæmt jarðræktarlögunum eiga kauptúnsbúar rjett á að fá sjer útmælt land þar til ræktunar, og hafa þegar gert það, en þó þeir á þann hátt geti fært út kvíarnar með ræktaða landið, þá er það allsendis ónóg og ófullnægjandi nema þeir hafi ráð á tilsvarandi beitarlandi. Nauðsynin á því fyrir þá að fá Garðana keypta er mjög brýn og aðkallandi.

Eins og tekið hefir verið fram, hefir stj. tekið þessari málaleitun vel, og sömuleiðis hefir hún fengið góðar undirtektir í Ed., og svo vænti jeg, að verði einnig hjer. Og því meiri ástæða er til að ætla, að svo verði, þar sem þingið er áður búið að margviðurkenna nauðsynina, með því að selja kaupstöðum og kauptúnum, sem líkt hefir staðið á fyrir og þessu kauptúni, jarðir hins opinbera.

Í greinargerð frv. stendur, að þurfa muni að semja við sóknarprestinn, sem hjer á hlut að máli, því að hann hafi umráð þessa lands, sem rjett er. Og er þess jafnframt getið, að komið hafi til orða að kaupa hús, sem hann hefir bygt í kauptúninu. Út af þessu vil jeg geta þess, að hvorki núverandi prestur eða fyrirrennari hans notuðu prestssetursjörðina Garða sjálfir, heldur bygðu hana öðrum. Og jeg vil taka það fram sem mína skoðun, að jeg tel mikið vafamál, hvort það sje rjett eða hyggilegt að ganga inn á þá braut að fara að byggja yfir presta í kauptúnum eða skaffa þeim íbúðir þar. Það er hætt við því, að það mundi draga dilk á eftir sjer fyrir ríkissjóðinn. Þó svo standi á hjer, að um er að ræða sölu á prestssetursjörð, þá sje jeg ekki, að það hvíli nein skylda á ríkissjóðnum í þessu efni frekar fyrir það, og það því síður, þar sem viðkomandi prestur hefir kosið frekar að byggja hús í kauptúninu og búa þar en að nota sjálfur prestssetursjörðina.

Annars vænti jeg, að prestur sá, sem hjer á hlut að máli, taki það tillit til þarfa kauptúnsins í þessu máli, að hann fari ekki að nota aðstöðu sína til þess á einn eða annan hátt, að kauptúnið fái ekki uppfyltar óskir sínar um kaup á jörðinni, og heldur ekki að binda samþykki sitt til sölunnar gagnvart ríkissjóði þeim skilyrðum, sem gætu valdið erfiðleikum fyrir ríkissjóðinn síðar meir.

Legg jeg svo til, að málinu verði vísað til allshn.umr. lokinni.