16.02.1928
Efri deild: 24. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3156 í B-deild Alþingistíðinda. (2859)

57. mál, þingsköp Alþingis

Einar Árnason:

Hv. frsm. allshn. taldi, að það væri óviðunandi, að þingmenn alment mættu ekki halda nema eina aðalræðu, því að það gætu komið fram andmæli, sem þingmaðurinn nauðsynlega þyrfti aftur að svara. Þetta er vitanlega rjétt, og að sjálfsögðu var hægt að bæta úr þessu með því að takmarka meira tímann, og með því gæti hann aftur fengið tvær ræður. En jeg held, að ef leyfðar væru þrjár ræður, þá þyrftu þeir fjórar, og ef leyfðar væru fjórar, þá þyrftu þeir fimm, og svo koll af kolli. En þar sem það er vitanlegt, að þingræður yfir höfuð breyta ekkert afstöðu manna til málanna, eða að minsta kosti ákaflega sjaldan, þá held jeg, að ein ræða geri alveg sama gagn og þrjár. Það hefir löngum verið sagt, að menn væru ekki komnir hjer til þess að sannfærast af þingræðum, og er líklega mikið til í því. Það er því óhætt að fullyrða, að mikið af þessum ræðum sje búið til fyrir prentsmiðjurnar, til þess að setja þær á pappírinn. Mjer finst því ekki, að þessi ástæða nefndarinnar sje mikils virði.