29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3169 í B-deild Alþingistíðinda. (2876)

57. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hv. frsm. minni hl. vildi halda því fram, að það væri meira í samræmi við það skipulag, sem haft væri á þessum málum á þingi, að kosnar yrðu tvær nefndir, sín í hvorri deild. En jeg verð að taka undir það, sem hæstv. forsrh. sagði, að yfirleitt sæta utanríkismál ekki lagameðferð hjer á þingi. Það er ekki hægt að binda enda á milliþjóðamál með því að búa til lög um þau. Eina leiðin til að gera það er að samþ. þáltill. um þau í Sþ., og það verður því Sþ., sem þar kemur til greina. Hitt er annað mál, að það getur komið til deildanna kasta um löggjöf innanlands, ef búið er að binda enda á sjálf utanríkismálin, en við höfum þar slegið þann varnagla, að deildirnar geti þá skotið málunum til hinnar föstu utanríkismálanefndar, og má líka senda þau til hverra annara nefnda sem vill, eftir að þau eru orðin innanríkismál. Það sýnir sig því af þessu, að það er algerlega í samræmi við fyrri venjur hjer á þingi, að þessi mál verði höfð í sameinuðu þingi.

Jeg vil ennfremur benda á, hvernig yrði að fara með þessi mál, ef tekin væri upp sú regla, sem hv. minni hl. nefndarinnar vill. Við yrðum þá að hafa sömu aðferðina við þau mál eins og lög, þrjár umr. í hvorri deild, og svo aftur flæking á milli deilda og kannske að lokum í Sþ. Það getur vel verið, að meðferð sem þessi geri lítið til um almenn lög, og sje jafnvel þörf, en þegar er að ræða um mál, þar sem alt er komið undir einingu og samheldni, eins og er um utanríkismál, og oft getur verið nauðsynlegt að gera skjótar ákvarðanir, þá er slík aðferð óþolandi.

Svo vil jeg benda á það, að ýms mál koma fyrir þingið, sem það vildi láta sæta nefndarrannsókn, — en hvor deildin er þá rjetthærri? Til hvorrar nefndarinnar ætti þá að vísa málinu? Það væri rangt að vísa því þá til nefndar í annarihvorri deildinni. Mjer finst það vera vanhugsað hjá hv. minni hl., hvernig hann hugsar sjer meðferð þessara mála, og andstætt við það, sem tíðkast í öðrum löndum, sem reynslu hafa í þessum efnum.

Einnig vil jeg benda á það, að eins og till. hv. minni hl. eru um það, að vera skuli sín nefndin í hvorri deild og að svo komi ný nefnd á milli þinga, þá er engin vissa fyrir því, að sömu mennirnir, sem hafa kynt sjer málin á milli þinga, fái líka sæti í nefndum þingsins, sem þó er sjálfsagt að sje, því að með því kæmi þingið sjer upp mönnum með þekkingu á afgreiðslu utanríkismála.

Hv. þm. Borgf. hjelt því fram, að það myndi ekki leyfast mönnum, sem eiga heimili utan Reykjavíkur, að sitja í þessari utanríkismálanefnd, ef það yrði fastanefnd. Jeg skal ekki segja um það, en það gæti víst átt sjer stað um þá menn, sem byggju í nágrenni Reykjavíkur, og ef til vill væru kosnir menn, sem ekki gætu mætt nema þegar um stærri mál væri að ræða, eða þá með fyrirvara. Auk þess mætti hafa varamenn, þó að nefndin hafi ekki mælt með því að svo komnu. En það er auðsætt, að nefndin verður að starfa á milli þinga, og nefndarmenn því að eiga heimili í nánd við stjórnaraðsetrið, Reykjavík. Hitt er auðvitað alveg rangt, að það sje lögfest; að menn, búsettir utan Reykjavíkur, geti ekki verið í nefndinni, því að það er auðvitað ekkert nema samgönguleysið, sem gerir það, að menn, búsettir norður á Hornströndum, geta ekki eins vel verið í nefndinni eins og Reykvíkingar.

Þá vil jeg segja nokkur orð frá eigin brjósti um till. hv. þm. Dal. Hann vill þræða á milli skerjanna með því að mynda eina fastanefnd úr báðum deildanefndunum, er starfi á milli þinga. En mjer finst það sama á móti þessari till. sem till. hv. minni hl., að eftir þeirri meðferð, sem utanríkismál hljóta á meðan þau eru utanríkismál, er eðlilegast að afgr. þau frá Sþ. Auk þess mætti bæta því við, að eftir till. hv. þm. er ríkisstjórninni „heimilt“ að kalla nefndina saman hvenær sem henni þykir þess við þurfa. En það segir sig sjálft, að þessi utanríkismálanefnd kemur ekki til að hafa neina verulega ábyrgð á starfi sínu eða stjórn þessara mála, heldur verður það ríkisstjórnin ein, sem veit, hvenær þarf að kalla nefndina saman. En eins og hv. meiri hl. nefndarinnar óskar að hafa þetta, þá er það beinlínis skylda stj. að kalla nefndina saman til að ræða slík mál. Jeg verð að segja, að mjer þykir fara betur á því, vegna þess að annars er í raun og veru ekki það eftirlit frá þingsins hálfu með þeim málum, sem æskilegt væri, og að minsta kosti gæti jeg hugsað mjer það, að sú stjórn sæti hjer á landi, að mönnum þætti það vissara og hyggilegra. Áreiðanlegt er það, að stjórnarandstæðingar, sem ættu menn í slíkri nefnd, kysu heldur, að það væri skylda stj. að kalla nefndina saman.

Að gefnu tilefni vil jeg loks geta þess, að frv. þetta flutti jeg fyrir hönd flokks míns, en ekki fyrir ríkisstjórnina. Hafði jeg átt tal við hæstv. forsrh. löngu fyrir þing um þetta mál og skýrt honum frá því, að við mundum flytja slíkt frv. Tók hann þá vel í málið í fyrstu.