29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3172 í B-deild Alþingistíðinda. (2877)

57. mál, þingsköp Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. meiri hl. með fyrirvara. En þessi fyrirvari minn byggist þó ekki á því, að jeg sje ekki samþ. till. hans, það sem þær ná.

Það er ekki hægt að segja, að það sje stórvægilegur ágreiningur, sem hefir orðið þess valdandi, að nefndin hefir klofnað um þetta mál. Jeg fyrir mitt leyti er sammála hinum nefndarmönnunum í meiri hl. um það, að rjettara sje að kjósa eina nefnd í Sþ. til að fjalla um utanríkismálin heldur en að hafa nefndirnar tvær. Mjer finst þessi tilhögun eðlilegri vegna þess, að utanríkismálin geta hvort sem er sjaldnast sætt meðferð venjulegra þingmála, því eins og þeir hafa vikið að, hæstv. forsrh. og hv. frsm. meiri hl., þá eru þessi mál sjaldnast venjuleg löggjafarmál. Hlutverk þessarar nefndar eða nefnda verður því einkum það, að vera til ráðuneytis fyrir stj. í þessum málum, því að samkvæmt okkar stjórnskipulagi eru utanríkismálin í höndum stj., en ekki þingsins. Það er konungurinn, með ráði stj. og á hennar ábyrgð, sem gerir samninga við önnur ríki, en ekki þingið. En ef setja þarf nýja löggjöf vegna einhverra samninga við önnur ríki, þá heyra þau lög hvort sem er undir einhverja af fastanefndum þingsins, en að sjálfsögðu mætti fyrir því leita álits utanríkismálanefndar, þegar svo stæði á. Það er því ekki út af þessum ágreiningi, sem jeg hefi skrifað undir nál. meiri hl. með fyrirvara, heldur vegna þess, að úr því að farið var að gera till. um breytingar á þingsköpunum á annað borð, vildi jeg hafa þær töluvert víðtækari en þetta. Jeg býst við, að ef jeg hefði verið heill heilsu undanfarna daga, þá hefði jeg komið fram með brtt. í þá átt; en hv. 1. þm. N.-M. hefir leyst mig af hólmi að nokkru leyti, þar sem hann flutti brtt. um það að fjölga fastanefndum þingsins. Tel jeg það mjög til bóta, því að jeg hefi fulla reynslu fyrir því, að allshn. er ofhlaðin störfum, og því full nauðsyn að skifta störfum hennar milli tveggja nefnda. Jeg mun því fyrir mitt leyti geta greitt atkv. með till. hv. þm. um sjerstaka sveitarmálanefnd.

En það er þó ekki þetta, sem sjerstaklega vakir fyrir mjer, heldur hefði jeg óskað, og sjálfsagt hreyft því í nefndinni, ef jeg hefði verið frískur, þegar málið var þar til meðferðar, að reynt væri að finna einhverjar leiðir til þess, að sjálfir þingfundirnir gætu farið betur fram en þeir gera.

Jeg ætla ekki að fara langt út í þetta nú, en jeg veit, að allir hv. þm. hljóta að hafa það á tilfinningunni, að í þessu efni er mjög ábótavant. Að hægt sje að bæta úr þessu með breytingum á þingsköpunum, skal jeg ekki fullyrða, því velsæmistilfinning þm. sjálfra ræður auðvitað mestu um það, hvernig þingfundirnir eru, en þó hygg jeg, að brtt. þær, sem komu fram í hv. Ed. um takmörkun á ræðutíma o. fl., kynnu að verða til einhverra bóta í þessu efni. Áskil jeg mjer því rjett til að flytja brtt. í svipaða átt við 3. umr.

Þó það komi ekki beinlínis þingsköpunum við, þá vildi jeg þó í þessu sambandi beina því til forseta þingsins, hvort ekki væri reynandi að útvega þm. svo góð sæti, að þeir gætu þolað að sitja meðan á þingfundum stendur, því að þessi sæti eru þannig, að ómögulegt er að tolla í þeim, ef þingfundir eru langir, og spillir það töluvert góðri reglu á fundunum.