24.02.1928
Neðri deild: 31. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3281 í B-deild Alþingistíðinda. (3093)

124. mál, laxveiði í Nikulásarkeri í Norðurá

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Jeg þarf ekki að bæta miklu við þá skýru greinargerð, sem frv. fylgir í fylgiskjali hr. Pálma Hannessonar. Frv. er borið fram í þeim tilgangi að auka laxgengd og laxveiði í Norðurá. Á þessi er, sem kunnugt er, vatnsmikil og löng og hefir ágæt skilyrði til laxgengdar, væru ekki í henni tveir þröskuldar, sem hamla göngu laxins. Annar þessara þröskulda er fossinn Glanni. Er nú í ráði að sprengja hann og gera laxgengan á þann hátt. Neðri þröskuldurinn er Laxfoss, sem að vísu er laxgengur, en fyrir neðan fossinn er ker, þar sem stunduð hefir verið netjaveiði undanfarið. Þetta ker þarf að friða með öllu, eigi laxinn að geta komist upp fyrir fossinn. Nú hafa verið mynduð samtök milli bænda í Norðurárdal og upprekstrarfjelags Þverárhlíðar. Er ætlun þeirra að stofna til laxaklaks á ýmsum stöðum ofan til í ánni. Pálmi Hannesson telur marga staði þar mjög vel fallna til laxaklaks. Bændum hefir ekki tekist að komast að samkomulagi við prestinn í Stafholti um yfirráð yfir keri þessu. Hafa þeir því tekið það ráð að snúa sjer til Alþingis. Þetta er hagsmunamál fjölda bænda, og má vænta þess, ef mál þetta nær fram að ganga, að takast megi að gera Norðurá að einni laxauðugustu á hjeraðsins. Vænti jeg, að þessu máli verði vísað til allshn.umr. lokinni.