16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3284 í B-deild Alþingistíðinda. (3104)

124. mál, laxveiði í Nikulásarkeri í Norðurá

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og sjá má á nál. á þskj. 325, hefir allshn. orðið sammála um að mæla með samþ. þessa litla frv., með tveim lítilsháttar breytingum. Hin fyrri er um það, að ekki þurfi eignarnám fram að fara, nema ekki fáist samkomulag um kaup eða afnot. Síðari breytingin er aðeins orðabreyting, sem jeg tel, að ekki þurfi neinnar sjerstakrar skýringar við.

Við þetta frv. hafa komið fram nokkrar brtt. frá ýmsum hv. þdm. Nefndin hefir ekki, svo jeg muni, tekið þessar brtt. fyrir á fundi, og þar af leiðandi hefi jeg ekkert um þær að segja frá hendi nefndarinnar. Eins og sjá má á brtt., fara þær fram á hið sama og frv., eins og nefndin leggur til, að það verði, að því leyti, að laxganga verði ekki hindruð um Norðurá, í Nikulásarkeri. En þar sem í frv. er gert ráð fyrir, að kerið verði eign fjelags, sem laxveiði stundi í Norðurá, þá gengur brtt. á þskj. 377 út á það að banna með öllu laxveiði í kerinu. Jeg býst við, að ekki skifti miklu máli, hvor leiðin verður farin, þar sem tilgangurinn er hinn sami, en mjer virðist aðeins nokkuð langt gengið í till. á þskj. 377, að banna alla laxveiði í kerinu. Virðist mjer það einnig vera þarflaust, því að í brjefi Pálma Hannessonar, sem fylgir greinargerð frv., leggur hann einkum áherslu á, að lagnetin í kerinu hindri göngu laxins, og sýnist þá, sem stangaveiði muni ekki gera skaða í því efni. Jeg skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, einkum þar sem lítur út fyrir, að hv. flm. frv. ætli að ganga inn á, að frv. verði samþ. með þessum breytingum, og þótt nefndin hafi ekki haft þessar brtt. sjerstaklega til meðferðar, þá skil jeg ekki, að hún leggi kapp á að hindra það, að þær nái fram að ganga.