01.02.1928
Efri deild: 11. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

7. mál, skógar, kjarr og lyng

Frsm. (Einar Árnason):

Vegna þess að brtt. þessar, sem hjer liggja fyrir, komu ekki fram fyr en nú í fundarbyrjun, hefi jeg ekki getað borið mig saman við samnefndarmenn mína í landbn. um þær.

Jeg veit því ekki, hvernig nefndin í heild sinni lítur á þær og verð að segja það, sem jeg segi hjer, á eigin ábyrgð.

Mjer skilst, að brtt. við 6. gr. sjeu miðaðar við það, að framlag ríkissjóðs verði eða geti orðið minna til þessara girðinga, og væri það í sjálfu sjer auðvitað gott, að ríkissjóður yrði fyrir sem minstum útgjöldum. En eins og jeg tók fram við 2. umr., hafa slíkar girðingar oftast nær í för með sjer, að nytjar jarðanna rýrast, og er því hætt við, að menn yrðu síður fúsir á að ráðast í framkvæmdir, ef framlagið væri minna. Þannig má búast við, að eftir því sem framlag ríkissjóðs yrði minna, yrði minna gert að því að hlynna að skógrækt í landinu. Að þessu athuguðu get jeg ekki álitið, að brtt. hv. 3. landsk. (JÞ) við 6. gr. sjeu þannig vaxnar, að þær mundu, ef samþ. yrðu, verða til þess að lyfta undir framkvæmdir í þessu máli, og jeg get ímyndað mjer, að meiri hluti nefndarinnar sje á sömu skoðun.

Þá er 3. brtt. hv. þm. (JÞ), og er 7. gr. frv. þar orðuð alveg upp. Í fljótu bragði virðist ekki vera hjer um efnisbreytingu að ræða. Um það, sem hv. flm. tók fram um muninn á landi með nýjum skógargróðri og landi, þar sem skógur hefði verið áður, er nefndin auðvitað alveg sammála honum, en jeg verð að halda því fram, að þessi munur sje ákveðinn fullskýrt í frv.greininni eins og hún nú er orðuð. Aftur er um hitt atriðið að segja, þar sem hann vill gera nánari fyrirmæli um, hvernig skógræktarstjóri veiti heimildina, að í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að sett verði reglugerð um þetta, og það hefir nefndin talið nóg. Jeg verð að líta svo á, að tvær fyrri brtt. sjeu frekar til spillis málinu, en sú þriðja óþörf.