27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3869 í B-deild Alþingistíðinda. (3520)

116. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hv. þm. N.-Ísf. gerði mig mjög undrandi, þegar hann fór að útlista sundurskiftingu á tekjum ríkissjóðs, og sjerstaklega þegar hann var að aðskilja beina skatta og óbeina. Jeg hefi hingað til haldið það, að þeir skattar, sem hvíldu endanlega á þeim, sem þeir eru lagðir á, væru beinir skattar, en hinir skattarnir óbeinir, sem goldnir eru af öðrum en þeir hvíla á að lokum. En hjá hv. þm. N.-Ísf. er línan dregin þannig, að hann tekur skatta eins og vitagjald — sem allir vita, að er óbeinn skattur á siglingar og tollur á farmgjöld, — og telur með beinum sköttum. Fleira þvílíkt nefndi hann, sem jeg hirði ekki upp að telja. Og loks, til þess að fá þessar tölur til að standa heima, dregur hann sjerstaklega undan tóbakstoll og telur annars eðlis en annan toll, og því beri ekki að telja hann undir toll, en undir sjerstakan flokk, sem háttv. þm. þar til tekur.

Jeg verð nú að segja, að sá, sem á venjulegan skattfræðilegan hátt hefði athugað þessa skatta, sem fyrir liggja í fjárlagafrv., hefði gert það nokkuð öðruvísi; að minsta kosti gerði jeg það, og jeg hygg jeg þori að treysta þeirri skiftingu á móti skiftingu hv. þm. N.-Ísf. Eftir því eru beinu skattarnir — persónu- og eignarskattar — 1125 þús., skattur af viðskiftum, neyslu og aukatekjur 6349000 kr. Þetta gerir samanlagt 7474000 kr. Þá eru eftir tekjur af ýmiskonar ríkisrekstri og eignum ríkissjóðs. Sumt af þessu er alls ekki tekið í fjárlög, heldur haft á sjerstökum reikningum; er í raun og veru engin ástæða til að taka það, þegar verið er að tala um skatta, því að hvort heldur sem ríkissjóður hefir vaxtatekjur af eignum sínum, sem hann leigir, eða hann tekur til sín hagnað af verslun, þá er ekki hægt að kalla það skatt, heldur atvinnu- og eignatekjur ríkisins. Þess vegna verður af þeim skattaálögum, sem í fjárlagafrv. eru nú, eins og það liggur fyrir eftir 3. umræðu í Nd., 15%, sem tilheyra beinum sköttum, en 85% óbeinir skattar.

Hv. þm. N.-Ísf. vildi segja, að í Danmörku væru beinu skattarnir ennþá minni en hjá okkur. Jeg hefi nú athugað ríkisreikning Dana frá 1926–1927, og útkoman er þessi: Persónu- og eignarskattur 140 miljónir, viðskiftaskattur 20 milj., neysluskattur 209 milj., aukatekjur 15 milj. Þetta er samtals 384 milj. Ef maður tekur svo hundraðstölu, eru beinu skattarnir, persónu- og eignarskattur, 37%, viðskifta- og neysluskattur og aukatekjur 63%.

Jeg hygg, að hvernig sem hv. þm. N.-Ísf. reynir að vinda sig úr þessu, muni honum ekki takast það, því að þessar tölur standa óhrekjanlegar. Það væri þá helst, að hann reyndi að segja, að póst- og símagjöld væru sjerstök notendagjöld og að því leyti beinir skattar. En það þarf ekki annað en líta á gjaldahlið fjárlaganna til þess að sjá, að hve miklu leyti þau eru skattur og að hve miklu leyti endurgjald á útlögðum kostnaði ríkissjóðs. Áætlun yfir póstmálin eru 450 þús. í tekjur, en 481 þús. kr. gjöld; með öðrum orðum: Það er gert ráð fyrir, að notendur borgi ekki einu sinni kostnað, hvað þá heldur meira, — það vantar 31 þús. til. Fyrir símatekjum er áætlað 1500 þús., en gjöldin 1418000 kr. Þar er gert ráð fyrir 82 þús. í hagnað. Ef dreginn er frá þessari upphæð hallinn af póstinum, þá sjest, að tekjurnar af pósti og síma gera lítið meira en greiða ríkissjóði þann kostnað, sem hann hefir af þessum fyrirtækjum.

Þá vil jeg segja fáein orð við sessunaut minn, háttv. þm. Dal. (SE) Hann taldi sig vera riddara fyrir starfsmenn hins opinbera og fanst það undarlegt af mjer að vilja leggja stein í götu þeirra. Og meðal annars las hann upp skjal frá form. starfsmannasambands ríkisins. Þar segir svo:

„Nú virðist svo, sem hið háa Alþingi ætli ekki að sinna rjettmætum kröfum vorum í þessu efni, en að það á hinn bóginn ætli að auka dýrtíðina í landinu með auknum tollum og sköttum, tollum á matvöru, kolum og salti, og 25% hækkun á tekjuskatti.

Sjerstaklega mun hið síðastnefnda koma hart niður á starfsmönnum ríkisins, því að nokkuð mun það vera alment, að þeir greiði 300–400 kr. og þaðan af meira í tekjuskatt. Er því hjer um talsverða íþyngingu að ræða“.

Þarna segir því form. starfsmannasambandsins, að embættismenn hafi 10500–12500 kr. í árslaun, þegar búið er að draga frá fyrir konu og 3 börnum, því að 300–400 kr. tekjuskattur svarar til slíkra tekna. Þetta geta tæplega kallast sultarlaun, og ef þetta er rjett, sem ekki er ástæða til að rengja, þá tel jeg ekki eftir þessum mönnum að borga tekju- og eignarskatt. Því að auðvitað kemur í sama stað niður, hvort þetta eru alt embættistekjur eða ríkið lætur þá hafa svo stuttan vinnutíma, að þeir geta haft tíma til að afla sjer verulegra aukatekna. En embættismennirnir líta nú öðruvísi á þetta. Þeir gera ekki aðeins kröfu til þess að losna undan þessum 25% viðauka, heldur líka undan öllum tekju- og eignarskatti. Svo bíræfin hefir engin stjett manna í landinu gerst enn, að beiðast undan öllum beinum opinberum gjöldum. Það er meira en lítil heimtufrekja af þeim, sem fyrir þessu standa, að fara fram á skattfrelsi fyrir eina stjett í landinu, og það fyrir þá stjett, sem er vel launuð, að eigin sögusögn. Það er því von, að háttv. sessunautur minn segi, að það sje stolið frá þeim, sem ekkert eiga, með því að láta þessa menn, sem margir hafa frá 10500 til 12500 kr. árslaun, borga tekjuskatt. Jeg held, að það hefði mátt segja með meiri rjetti, ef gengisviðaukinn af kaffi- og sykurtollinum hefði ekki verið numinn burtu, að þá hefði verið stolið frá þeim, sem ekkert áttu, eins og jeg sagði í fyrstu.

Hv. 2. þm. G.-K. vildi láta mig fallast á það, að það væri erfiðara fyrir mig að lifa á 7 þús. kr., árstekjum en verkamennina á 2000-3000 kr. og að embættismennirnir væru brjóstumkennanlegir samanborið við verkamennina. Þessu hefi jeg að nokkru leyti svarað, með því að bera fram frv. það, sem hjer er til umræðu, og jeg mun möglunarlaust greiða þann skattauka, sem á mínum tekjum lendir vegna þessarar hækkunar, því að jeg tel hann fyllilega rjettmætan. Og jeg fæ ekki skilið, að nein sjerstök ástæða sje til þess, að verkamenn sjeu hamingjusamari með 2–3 þús. kr. en við með margfalt meira. Eftir kenningu hv. 2. þm. G.-K. ættu allir menn að sækjast eftir sem minstum tekjum og eignum, en hann virðist ekki sjálfur fylgja þessari gullvægu reglu, sem kannske gildir í öðrum heimi, en áreiðanlega ekki hjer á jörðu. Jeg tel okkur, sem hærri tekjur hafa en verkamenn, ekki heldur eiga neina siðferðislega kröfu til hærri launa en þá, meiri vellíðanar nje meiri hamingju í lífinu á neinn hátt.