26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3985 í B-deild Alþingistíðinda. (3573)

77. mál, einkasala á síld

Jóhann Jósefsson:

Mjer finst það langt frá að vera rjett, að það sje ekki allmikill munur á heimildarlögunum frá 1926 og frv. því, er hjer liggur fyrir. Jeg fylgdi á sínum tíma þeim lögum vegna þess, að þá lágu fyrir upplýsingar, sem sýndu fulla þörf á að tryggja þennan atvinnurekstur. En því miður hafa lög þessi ekki komið til framkvæmda enn og málið verið tekið upp að nýju með þessu frv., sem þannig er úr garði gert, að það er ekki í einu, heldur mörgu, sem á milli ber. Og stærsta atriðið, sem átt er við, er þá það, að með lögunum frá 1926 var það einkafjelag, sem standa átti fyrir einkasölunni og bera ábyrgð á henni án þess ríkissjóði væri við það blandað. En eftir þessu frv. verður ríkissjóður að taka á sig fjárhagslega áhættu, ef alt á ekki að lenda í kalda koli.

Ef til vill kemur það hvergi eins átakanlega fram og sýnir, hvað þroski landsmanna nær skamt til þess að ráða fram úr erfiðleikum þeim, sem fyrir koma á verslunar- og framleiðslusviði þjóðarinnar, eins og í því, er snertir síldarveiði og síldarsölu. Það hefir verið sagt, að þessi vandræði stafi af því, að við erum of bundnir við eina þjóð, eða markað hennar, um sölu á þessari vöru, síldinni. Fyr og síðar hefir verið mikið talað um þessa svokölluðu leppa, sem rækju erindi erlendra manna. En satt að segja veit jeg ekki, hvernig þeirri skilgreining er varið, og er því ekki fyllilega ljóst, hvenær mætti hætta að kalla þá leppa eða skoða þá sjálfa sem atvinnurekendur. Þessir fulltrúar eða milliliðir hafa orðið til þess að koma afla landsmanna á markað. Það getur vel verið, að umboðsmenska þeirra mætti betur fara og að hafa þyrfti meira eftirlit með þeim. En mjer finst fullmikið að því gert að tala um þessa milliliði með óvirðingu, og mætti því að ósekju sleppa þessu nafni, sem oft er varpað fram svo að segja út í bláinn.

Annars var það einkum eitt atriði þessa máls, sem jeg vildi gera að umtalsefni. Á undanförnum árum hefir það verið venja, vegna fiskileysis og þröngrar atvinnu hjer á Suðurlandi, að mannaðir hafa verið stórir mótorbátar og sendir á síldveiðar norður á Siglufjörð. Vanalega hefir verið samið við saltendur á staðnum nyrðra að kaupa veiðina fyrir ákveðið verð. Síðastliðið sumar voru mikil brögð að þessu, og þó að verðið á síldinni yrði lágt, munu fiskimennirnir sjálfir í mjög mörgum, ef til vill er óhætt að segja allflestum tilfellum hafa haft viðunandi atvinnu af leiðangrum þessum. Að vísu er mjer kunnugt um, að sumir báteigendur munu hafa tapað, en það voru líka ekki allfá hundruð fiskimanna, sem á þennan hátt höfðu sæmilega sumaratvinnu.

En með þessu frv. um einkasölu á síld og öðru, sem hjer er á ferðinni um verkakaupsveð í síldarafla, sýnist loku fyrir það skotið, að þessir smærri framleiðendur geti notið sín og stundað þennan atvinnuveg áfram. Ef frv. um einkasölu á síld og verkakaupsveð verða samþ., er um leið kipt tveim stoðum undan því, að mótorbátaeigendur geti gert báta sína út á síld, eins og verið hefir.

Síðastliðið sumar var afli mjög mikill, eins og kunnugt er, og þegar í ágústbyrjun voru menn orðnir hræddir um það, að framleiðsla á saltaðri síld yrði alt of mikil og myndi verðfall hljótast af. Þegar aðeins var liðin ein vika af ágústmánuði, voru síldarsaltendur yfirleitt svo hræddir, að þeir sneru sjer til stjórnarinnar og óskuðu þess, að hún bannaði, að meira yrði saltað af síld. Á þeim tíma höfðu reknetabátar ekki fengið nema 1/3 af þeim afla, er þeir fengu, og ef þá hefði verið horfið að því ráði, eins og margir lögðu til, að stöðva síldarsöltun. hefði afli reknetabátanna orðið helmingi minni en hann varð. Afleiðingin af slíkri stöðvun er auðsæ; hún hefði orðið stórkostlegt tap fyrir bátaeigendurna og hlutur sjómanna hefði enginn orðið, nema með því að selja bátana fyrir sjóveði.

Það, sem skeði í fyrra, getur endurtekið sig aftur, og jeg get ekki sjeð, hvernig það er hugsanlegt, að síldarútgerðin eigi sjer nokkra framtíð með þessu sniði, ef ekki eru gerðar þær breytingar, sem bæta það upp, er á burtu er numið með lögum þessum. Jeg hygg, að það muni vandfundinn sá síldarsaltandi, sem vildi skuldbinda sig til þess að kaupa allan afla reknetabátanna yfir veiðitímabilið, ef bæði þessi frv. verða að lögum, og það mundi leiða til þess, að við, sem bátana eigum og viljum stunda veiðina, yrðum að salta sjálfir. En hversu margir fiskimenn geta lagt í þann kostnað að salta sjálfir án tilstyrks annarsstaðar frá? Mjer er vel kunnugt, að mörgum hefir veitst fullörðugt að greiða allan þann undirbúningskostnað er slík veiðiför hefir í för með sjer. — Það er nógu erfitt að útbúa bátana, vátryggja þá og mennina o. s. frv., sem alt verður að greiðast fyrirfram, þótt ekki bætist við sá kostnaður, að sjá fyrir salti og tunnum. Hygg jeg, að þetta atriði hafi slegið svo miklum óhug á síldarútvegsmenn, eins og sjest best á áskorun frá fundi þeim, er haldinn var hjer í Reykjavík, þar sem mættu umboðsmenn fyrir ¾ hluta þeirra útvegsmanna, er vanalega hafa gert út. Hv. frsm. meiri hl. drap á þetta atriði og viðurkendi, að komið hefðu fram mótmæli, en kvaðst ekki geta lagt mikið upp úr þeim. Hitt vissi hann, að mál þetta hefði mikið fylgi. Þó fæstir ljetu á því bera nema í einrúmi. Finst mjer harla undarlegt, að fylgjendur þessa máls skuli tjá hv. frsm. fylgi sitt við málið í einrúmi. en láti það hvergi koma oninberlega fram. Mjer finst það því óskilianlegra, þar sem andstæðingarnir koma opinberlega fram með sín mótmæli og draga enga dul á.

Þeir, sem best skynbragð bera á þetta mál, álíta, að tvö atriði þurfi sjerstaklega til þess að bæta vandræði síldaratvinnurekstrarins, en það eru síldarbræðslustöðvarnar og skipulag á sölu saltsíldar. Hinn fjölmenni fundur útgerðarmanna mótmælti einkasölu á síld, fyr en Íslendingar ættu aðgang að fullkomnum síldarverksmiðjum um leið, og lagði áherslu á það, að að þessu ráði yrði ekki snúið fyr en verksmiðjurnar væru komnar upp.

Þegar þess er gætt, að mikil líkindi eru til þess, að frv. það, sem fyrir þinginu liggur um stofnun síldarbræðslustöðva, verði samþ. og að bræðslustöð verði komið upp á næsta ári, og þegar hinsvegar mikill hluti þeirra manna, er mál þetta varðar, hefir óskað þess, að einkasalan kæmist ekki á, fyr en verksmiðjan eða verksmiðjurnar eru til, finst mjer ekki nema sanngjarnt, að þessar óskir verði teknar til greina, nema því aðeins, að meiri hluti þings sje þess fullviss, að engin vandræði hljótist af einkasölunni á þessu ári. Það, sem hefir komið okkur hv. 2. þm. G.-K. til þess að lýsa okkur andvíga einkasölunni nú er það, að okkur þykir nokkuð viðurhlutamikið að samþ. hana gegn mótmælum frá meiri hluta síldarframleiðenda, þegar tillit er tekið til þess að skilyrði einkasölu eru alt önnur, þegar verksmiðjur eru komnar upp. Það er öllum vitanlegt, sem til síldarútvegs þekkja, að aðstaðan er alt önnur hjá þeim, sem veiða í reknet og snyrpinót. Reknetaveiði stunda þeir vanalega, sem hafa minna fje til umráða og veikari fjárhagslega aðstöðu; kostnaðurinn við reknetaveiði er líka miklu minni, og því hverfa margir að því ráði, sem ekki hafa efni á því að reka síldarútgerð í stærri stíl. Það er því vitanlegt, að þeir, sem reknetaveiðar stunda, geta ekki selt síldarafurðirnar í verksmiðjurnar með því verði, er verið hefir. Nú er gert ráð fyrir því í frv., að framkvæmdanefnd geti bannað að veiða í salt, hvort heldur er í reknet eða snyrpinót. Það sjá allir, að ekkert vit er í því að láta bann þetta jafnt yfir alla ganga, því að þegar bannað er að veiða síld til söltunar, leiðir af því mikið tjón fyrir reknetabátana, en þeir, sem veiða í snyrpinætur, geta veitt síld og selt í verksmiðjurnar, því að þeir fá meiri uppgrip af afla í einu. Þetta er enn einn agnúinn á þessu frv., sem meiri hl. sýnir enga viðleitni til að laga, en vill aðhyllast frv. með litlum breytingum.

Nefndinni hefir borist mótmælaskeyti að norðan, sem að vísu hafði bann formgalla, að aðeins var tiltekin tala þeirra nafna, er undir voru rituð. Gengu mótmælin í svipaða átt og þau mótmæli er fram komu á fundi útgerðarmanna, sem haldinn var hjer í bæ. Síðan þetta gerðist hafa þessir menn endurtekið mótmæli sín og sent skeyti til ýmsra þm., og þar á meðal, að því er mjer er sagt, til hv. þm. Eyf. Nú hefir hv. 2. þm. Eyf. talað hjer, en það þótti mjer undarlegt að hann gat þess ekki að sjer hefði borist slíkt skeyti því að í skeyti til mín frá 19. mars er komist svo að orði (með leyfi hæstv. forseta):

„Undirritaðir útgerðarmenn, síldarkaupmenn og bryggjueigendur á Siglufirði mótmælum eindregið einkasölu á síld að svo stöddu samkvæmt símskeyti, er vjer sendum alþingismönnum Eyjafjarðarsýslu, sjávarútvegsnefnd Nd. og miðstjórn Íhaldsflokksins þann 25. febrúar“.

Undir skeytið eru rituð nöfn 20 manna, og skilst mjer, að það muni vera þeir menn, er áður höfðu sent sjútvn. það skeyti, sem jeg gat um. Mjer þykir líklegt, að hv. 2. þm. Eyf. hafi láðst að geta skeytisins, nú er hann talaði fyrir skemstu, en muni kannast við, að hann hafi fengið það, nú er jeg minni hann á það. Nú er það viðurkent, að meiri hl. útvegsmanna hefir mótmælt því eindregið, að einkasala á síld komist á á þessu ári. Þegar þess er gætt, að líklegt þykir, að verksmiðjan, sem öllum flokkum kemur saman um, að sje aðalatriðið í þessu sambandi, komist upp á næstu árum, þá fæ jeg ekki skilið það ofurkapp, sem lagt er á það, að síldareinkasalan komist á áður en verksmiðjan er komin upp.

Hv. þm. Borgf. hefir nú bent á ýmsa galla þessa frv., og er jeg honum alveg samdóma um þá flesta. En jeg held, að hv. þm. hafi gleymt stærsta gallanum, þeim, að ætlast er til þess að leggja þetta mikla vald í hendur framkvæmdarstjóranna um margra ára bil. Nú er það svo, og þar skilur mjög á milli laganna um síldarsamlag og þessa frv. um einkasölu, að þinginu er ætlað að velja útflutningsnefndina, en hún aftur framkvæmdarstjórnina en eftir lögunum um síldarsamlag átti ráðherra að skipa hana, og hvíldi því ábyrgðin á herðum hans. Með þessu móti hvílir engin ábyrgð á stjórninni um val framkvæmdarstjórnarinnar, en með síldarsamlagslögunum hvílir ábyrgðin á viðkomandi ráðherra, og er því meiri trygging fengin fyrir því, að hæfir menn veljist til starfans. Með frv. er helst stefnt að því að gera þetta alt flokkspólitískt. — Hv. þm. Mýr. spyr, hvort bankaráð Landsbankans sje pólitískt. Jeg get því nærri, að það muni ofarlega í huga hv. þm. og jeg get svarað honum því, að það er fult útlit til þess, að það sje að verða eins pólitískt og jafnvel hann frekast getur óskað sjer. — Nú er ekki víst, að hæfir menn fái framkvæmdarstjórnina, og því hyggilegra að binda þá ekki strax til of langs tíma í einu. Reynist þeir vel, er hægast að framlengja setu þeirra.

Jeg held, að hv. þm. Borgf. (PO) hafi ekki minst á þennan galla, en eins og gefur að skilja, er það í alla staði hyggilegast, að framkvæmdarstjórnin sje ekki bundin til langs tíma, og þar sem ekki er hægt að benda á neina þá menn, er hafi margra ára reynslu að baki í þessu efni, þá tel jeg miklu hyggilegra, að stjórnartímabil hinnar fyrirhuguðu framkvæmdarstjórnar væri ákveðið öllu styttra.

Það er í raun og veru ekki undarlegt, þótt menn líti misjafnlega á það, hvernig ráða eigi fram úr vandræðum síldarsölunnar, þegar skoðanir atvinnurekendanna, sem mesta hafa reynsluna og þekkinguna í þessu máli, eru skiftar í þessu efni að mun. Þó er það svo, að meiri hl. útgerðarmanna æskir þess, að komið verði upp fullkomnum síldarverksmiðjum, áður en verslunin er alveg lögð í hömlur. Það er ekki nema rjett að kannast við það, að að þessum atvinnuvegi steðji miklir örðugleikar, einkum um sölu afurðanna. En það hefir sama sem ekkert verið gert til þess að útvega nýjan markað fyrir síldina. Það hefir að vísu verið sendur maður eina ferð til Mið-Evrópu til þess að athuga markaðshorfur, en sannleikurinn er sá, að þing og stjórn hafa ekkert látið til sín taka í þessu máli, sem nokkurt framtak hefir verið í. Hið sama er að segja um síldarútvegsmenn; samtök þeirra eru alt of lítil, og er því ekki að undra, þótt ýmsir álíti, að eina ráðið til þess að bjarga þessu við sje að skipulagsbinda þessa atvinnugrein. En það er valdast, hvernig það er gert; vandinn er að gera þetta á rjettan hátt, en með frv. er fjarri því, að viturlega sje af stað farið.

En eins og hv. þm. Dal. benti á, þá er aldrei hægt að skipulagsbinda sölu síldar okkur til gagns, meðan mikill floti erlendra skipa stundar hjer síldveiðar við landið og veiðir mikinn hluta þeirra síldar, sem seld er á heimsmarkaðinum. Einkasalan getur ekki ráðið bót á þessu, og þeir, sem aðhyllast hana beint, hafa líklega látið hrífast af fortölum þeirra manna, sem hafa þá oftrú, að á öllum erfiðleikum megi vinna bug með einkasölu. Jeg er ekki viss um, að þetta sje eina bjargráðið, og því finst mjer ástæða til þess að slá máli þessu á frest, eins og meiri hl. útvegsmanna hefir óskað, þar til við höfum umráð yfir síldarbræðslustöð, sem tekið getur á móti síld til bræðslu frá landsmönnum við sæmilegu verði og þannig greitt fyrir síldarsaltendum.

Jeg hefi heyrt þess getið, án þess að jeg viti þar sönnur á, að stjórnarráðinu hafi borist mótmæli frá Svíum gegn einkasölu á síld. Vil jeg beina þeirri spurningu til hæstv. atvmrh., hvort þessi mótmæli hafi borist frá opinberum stöðum í Svíþjóð og hvort þau sjeu þess eðlis, að hætt sje við, að síldarmarkaðurinn í Svíþjóð yrði oss andstæður eða verri með þessu fyrirkomulagi, sem nú er fyrirhugað. Mjer er það fullljóst, að það er ekki heppilegt fyrir íslensku þjóðina að innleiða það fyrirkomulag á sölu afurðanna, sem mætir mikilli mótspyrnu þeirra, er við eigum að skifta við um sölu í útlöndum.

Jeg mun að þessu sinni ekki fara öllu lengra út í þetta mál, en við 3. umr. mun jeg, ef tími vinst til, benda á fleiri galla, sem eru á þessu frv.

Áður en jeg sest niður, vil jeg lítillega minnast á það bjargráð, sem hv. meiri hl. hefir sett inn í brtt. sínar, þar sem hann vill leyfa framkvæmdarstjórum einkasölunnar að „liðsinna“ útgerðarmönnum um útvegun á tunnum og salti, ef það sje hægt án áhættu fyrir einkasöluna. Þessi till. er sjálfsagt gerð í bestu meiningu, til þess að gera smærri atvinnurekendum mögulegt að hafa hagnaðinn af því að salta sjálfir. En þrátt fyrir góðan vilja hv. meiri hl. er engin hjálp í þessari till. Þeir, sem á annað borð eru svo efnum búnir, að þeir geti keypt sjer tunnur og salt, þurfa ekki aðstoð til að annast pantanir sínar. En þeir, sem fjevana eru, geta enga stoð haft í þessum till. hv. meiri hl., af því að einkasalan má engan fjárhagsstuðning veita þeim, þann er áhætta fylgir. Ekki er hægt að ætlast til þess, að framkvæmdarstjórarnir fari að leggja sitt eigið fje í hættu til að hjálpa þessum mönnum.

Hv. þm. Dal. og hv. þm. Borgf. deila um það, hvort fjárhagsleg áhætta fylgi rekstri einkasölunnar. Þar hlýt jeg að hallast að skoðun hv. þm. Dal. Mín skoðun er sú, að ómögulegt sje að reka einkasöluna án þess að það hafi fjárhagslega áhættu í för með sjer, og síst ef till. hv. meiri hl., þær er jeg gat um áðan, eiga að verða til nokkurs gagns. Þar að auki leiðir þetta af því ákvæði frv. sjálfs, að framkvæmdarstjórunum skuli heimilt að taka lán og greiða með því nokkurn hluta síldarverðsins fyrirfram. Fari t. d. síldin stöðugt hækkandi, en búið er að borga út nokkurn hluta hennar, þá er a. m. k. um áhættu að ræða, og ef til vill beint tap. Vilji hv. þm. Borgf. ná því marki, að koma í veg fyrir alla áhættu, verður hann ekki einungis að ganga í móti bjargráðum hv. meiri hl., heldur og áðurnefndu ákvæði frv. sjálfs.