23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4268 í B-deild Alþingistíðinda. (3729)

82. mál, áfengislög

Jóhannes Jóhannesson:

Af því að hv. 3. landsk., frsm. minni hl. nefndarinnar, getur ekki verið til staðar, ætla jeg að segja örfá orð um brtt. minni hl. á þskj. 549. Skal jeg taka mjer hv. 2. þm. S.-M. til fyrirmyndar í því að vera stuttorður, enda er ástæðulaust að vera með mikla mælgi, þegar komið er fram á nótt. Vil jeg um leið skjóta því til hv. þdm., hvort ekki væri sanngjarnt, að sett væru vökulög handa þingmönnum, svo trygt væri, að þeir gætu fengið nægan svefn.

Um afstöðu minni hl. til þessa máls er það að segja, að hann greinir ekki í neinu verulegu á við meiri hl., og samvinna í nefndinni hefir verið hin besta. Vilji okkar minnihlutamanna er, að lögin komist í það horf, sem bannmenn óska, svo reynsla fáist fyrir því, hvað lögin geta borið mikinn árangur og hvort von sje til þess, að hægt sje að halda uppi fullkomnu banni. Annars eru margir í vafa um það, hvort blessun sú, er fylgir banninu, sje meiri en bölvunin, sem af því leiðir. Þess vegna höldum við ekki fast við neina af þessum brtt., nema þær, sem við teljum, að samþykkja verði svo að þetta frv., ef að lögum verður, komi ekki á neinn hátt í bága við lög nr. 3, frá 4. apríl 1923, um undanþágu frá lögum nr. 91, 14. nóv. 1917, um aðflutningsbann á áfengi. Á þeim lögum byggist samningurinn við Spán, og meðan hann er í gildi, njótum við bestu tollkjara þar á saltfiski, og það er alveg ómissandi fyrir okkur, og megum við því ekkert gera, er kemur í bág við þann samning eða gefi Spánverjum ástæðu til að segja honum upp. Um þetta höfum við ekki getað orðið hv. frsm. meiri hl. sammála. Hann telur, að þó frv. verði samþykt eins og það kemur frá meiri hl., þá brjóti það ekki í bág við Spánarsamninginn, en þar erum við minni hl. á gagnstæðri skoðun. Annars er það ekki orðalagið, sem við leggjum áherslu á í þessari 10. brtt. okkar, heldur er það „principið“, og skal jeg því taka hana aftur til 3. umr., ef ske kynni, að samkomulag fengist um betra orðalag. Sama er að segja um 6. brtt. okkar. Það er vitanlega ekki meining okkar að vilja rýra bannlögin að neinu leyti með þessu; við viljum aðeins, að þau sjeu ekki svo úr garði gerð, að hægt sje að telja það brot á Spánarsamningnum.

Um 1. brtt. okkar, við 1. gr. frv., er það að segja, að hún er aðallega orðabreyting. Í 1. gr. frv. stendur svo, sem jeg ætla að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta: „Brot gegn þessari grein er fullframið, þegar áfengi er flutt inn í landhelgi, nema sannað sje, að það sje ekki ætlað til sölu eða neyslu hjer í landi eða landhelgi“. — En jeg lít svo á, að ekki sje hægt að heimta sannanir fyrir því, að ekki eigi að selja það eða neyta þess hjer. Því þegar menn eiga að færa sönnur á slíkt, þá verða þeir að sanna „negativan“ hlut, en það er venjulega mjög erfitt og jafnvel ómögulegt. Jeg get t. d. ekki sannað, að jeg ætli ekki að drepa mann, því að það er ekki hægt að færa sönnur á það, hvað maður ætlar ekki að gera. En þó greinin hjeldist óbreytt, þá mundu orðin „nema sannað sje“ ætíð verða skilin svo, að það dygði, ef líkur væru færðar fyrir því, að ekki ætti að neyta þess eða selja. Af þessum ástæðum kynni jeg betur við; að þessi brtt. okkar væri samþ., þar sem hún líka í raun og veru felur aðeins orðabreytingu í sjer.

Þá kem jeg að 2. brtt. okkar, sem er við 3. gr. og snertir skemtiferðaskipin. Það er nú farið að tíðkast, að þau skip venji hingað komur sínar, og hafa þau gefið mörgum drjúgan skilding, og finst mjer, að við ættum ekki að slá hendinni móti því. Auk þess stafar banninu mjög lítil hætta af þessum skipum, og jeg held, að það geti ekki á neinn hátt orðið því til hindrunar, að bannið geti orðið „effektivt“, þó þessi undanþága sje veitt; þar sem tekið er fram, að skipin megi hvorki flytja farþega hingað nje hjeðan aðra en þá, er búa í skipinu meðan það stendur hjer við. Hinsvegar má búast við því, að menn, sem eru á ferðalagi til þess að skemta sjer, vilji hafa sínar venjur og hentisemi: þætti þeim þá máske gengið fullnærri persónulegu frelsi sínu, ef þeir mættu ekki hafa drykkjarföng um hönd, og gæti það orðið til þess, að slík skip hættu að venja komur sínar hingað til lands. En það mundi svifta landið þó nokkrum tekjum, og finst mjer ekki rjett, að Alþingi verði til þess að stuðla að því.

3. brtt. er aðeins orðabreyting, og sömuleiðis sú 5., sem hljóðar um sama efni. — 6. brtt. er tekin aftur til 3. umr., eins og jeg hefi áður sagt. — 4. brtt., við 23. gr., fer í sömu átt og brtt. meiri hl. við þessa sömu grein. Hún er aðeins lengri hjá meiri hl., en meiningin er sú sama. — Um 7. brtt. okkar er það að segja, að okkur finst þingið fá stjórninni helst til mikinn rjett í hendur, ef orðalagið er eins og í frv. stendur. Því eftir því er dómsmrh. gefið vald til þess að skipa eins marga tollþjóna og honum sýnist og launa þeim eins og honum sýnist. Við lítum svo á, að heppilegra sje, að þessir menn sjeu skipaðir lögreglustjórum til aðstoðar heldur en sem sjerstakir löggæslumenn. Teljum við, að með því verði meira samræmi í löggæslunni, en hitt gæti valdið ýmsum vandræðum og árekstri og óþarfa kostnaði.

Þá er brtt. okkar við 36. gr. Eins og allir hv. deildarmenn vita, er það tekið fram í lögum þessum, að skipstjóri beri ábyrgð á brotum skipverja á lögunum. Ef ekki finst sá seki, en ætla má, að einhver af skipverjum hafi framið brotið, þá ber skipstjóri ábyrgð á því og verður að sæta þeirri refsingu, sem við liggur, ekki aðeins sektum, heldur og fangelsi, ef svo ber undir og sakir eru til. Það er hægt að dæma skipstjóra, sem eftir lögum þessum ber ábyrgð á brotum skipverja í fangelsi fyrir brot, sem hann er ekki við riðinn að öðru leyti en þessu. Þetta þykir okkur nokkuð hart. Það getur verið erfitt fyrir skipstjóra að velja sjer skipshöfn, svo að ekki kunni að slæðast með einhverjir, sem hiki ekki við að fremja brot, sjái þeir sjer hagnað í því, þótt það komi skipstjóra þeirra í vanda. Við viljum ekki láta það viðgangast, að skipstjóri verði jafnvel að sæta fangelsisvist fyrir þá sök eina, að hann hefir verið svo óheppinn að taka einn slíkan miður vandaðan mann á skip sitt.

Svo segir í frv., að vinnuskylda skuli vera samfara afplánun sekta samkvæmt lögum þessum. Eins og nú er ástatt um hegningarlöggjöf og refsivist á landi hjer, mun ómögulegt enn sem komið er að framfylgja þessu ákvæði til hlítar. Minni hl. hefir því lagt til, að ekki verði strangara að orði kveðið en svo, að vinnuskylda megi vera samfara afplánun áfengissekta. Stjórnin gæti komist í hinn mesta vanda með það að láta afplána þessar sektir. Fyrst og fremst er enginn stafur fyrir því, hvernig slík afplánun skuli fara fram, og engir þeir staðir til, þar sem hún gæti farið fram. Jeg ímynda mjer, að bæði stjórnin og embættismenn, sem framfylgja eiga lögunum, kæmust í vandræði, ef ákveðið væri í lögum nú þegar, að vinnuskylda skuli vera samfara afplánun slíkra sekta. Það mundi og kosta sjerstakt eftirlit, sem þyrfti að kaupa, og skapa þannig ný útgjöld fyrir ríkissjóð. Hinsvegar er ekkert við það að athuga, að þetta ákvæði um vinnuskyldu skilyrðislaust verði leitt í lög, þegar svo hefir verið um hnútana búið, gengið svo frá hegningarlöggjöfinni og hegningarhúsvistinni, að því verður við komið.

Ég finn ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta mál. Minni hl. nefndarinnar er sammála flestum brtt. hv. meiri hl., hefir unnið að þeim í sameiningu við hann og mun greiða atkvæði með þeim. En við álítum það ekki nóg. Við álítum betra að samþykkja brtt. okkar líka.

Þess hefir verið farið á leit við okkur háttv. 3. landsk., að við tækjum 6. og 10. brtt. okkar aftur til 3. umr. Viljum við verða við þeirri ósk, og geri jeg það hjer með. Verða þær bornar fram aftur þá, breyttar eða óbreyttar eftir atvikum.