26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4475 í B-deild Alþingistíðinda. (3827)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Mjer kom ekki á óvart, þó að í einhverju yrði reynt að breyta Landsbankalögunum, sem hjeðan voru afgreidd í fyrra. En hitt kom mjer þó ekki til hugar, að farið yrði að hringla með bankann fram og aftur ár frá ári. Og það er víst, að ef farið hefði verið að tillögum mínum og fleiri um sjerstakan seðlabanka, hefði þetta ekki komið til. Með þá stofnun hefði ekki verið hægt að hringla á ýmsa vegu.

Eitt af því, sem bankanum er nauðsynlegast, er að hafa um sig sem fullkomnastan frið. Lög hans og reglugerðir verða að vera svo, að þeim þurfi ekki að breyta árum saman, helst ekki áratugum saman. En af því að Landsbankanum hafa verið fengin fleiri hlutverk en seðlaútgáfan og gjaldeyrisverslunin, er það látið afsaka hringlandann.

Það má segja um nærfelt allar þær breytingar, er hjer liggja fyrir, að þær miða að því að þrengja að bankanum. Fyrsta breytingin, ríkisábyrgðin á skuldbindingum bankans, verður vissulega til að þrengja að bankanum, þegar kreppuárin koma. Það er hættulegt fyrir hvern banka að hafa mjög mikið sparisjóðsfje, eins og háttar um það hjer á landi. Sparisjóðsfje er ótryggara hjer á landi en annarsstaðar. En í öðrum löndum er það þó svo, að einkabankarnir vilja hafa mjög takmarkað innlánsfje. — Í Englandi, sem er elsta bankaland í álfunni, ef frá eru taldir einn eða tveir bankar í Ítalíu, hafa bankarnir hlotið meira traust fyrir það, hve lítið innlánsfje þeir hafa notað í starfsemi sinni. Stórbankarnir fimm, „The big five“, sem kallaðir eru, aðhyllast t. d. þá reglu að hafa sem minst innlánsfje. Hjer er stefnt í gagnstæða átt. Það á að neyða Landsbankann til að taka við svo að segja öllu innlánsfje landsmanna. Þetta held jeg, að væri mikill bjarnargreiði við bankann. Það verður einnig landsmönnum sjálfum og allri peningamálastarfsemi í landinu til hinnar mestu óþurftar, ef stefnt er að því, að sparisjóðirnir úti um land leggist niður. En það er tvímælalaust gert með frv. Menn úti um land, sem fjarri búa útibúum bankanna, eiga ákaflega erfitt með að afla sjer rekstrarlána, en þar hafa sparisjóðirnir bætt mikið úr. Með þessu frv. er stefnt að því, að Landsbankinn, seðlabanki ríkisins, hafi einn ábyrgðina og áhættuna, þegar kreppuárin koma, á þeim tímum, þegar það er vitað, að allar peningastofnanir bíða hnekki og fjárhagslegan skaða. Bankanum eru bundnar þessar byrðar að nauðsynjalausu og honum til tjóns.

Þá er með frv. felt niður ákvæði gildandi laga um aukið stofnfje til bankans. Það er viðurkent, að 5 miljónir króna er hið minsta eignarfje, sem bankinn má byrja með. En í þessu frv. er það lagt á vald stjórnarinnar, hvort hún leggur bankanum aukið stofnfje eða ekki. Jeg sje enga skynsamlega ástæðu til þess, að þingið efni ekki í þessu efni það, sem það lofaði í fyrra. Einasta ástæðan til þess, að í frv. sje sagt „heimilt“, en ekki „skylt“, hygg jeg, að geti verið sú, að þetta eigi að nota sem keyri á Landsbankastjórnina. Mjer er raunar ekki ljóst, til hvers á að nota þetta keyri, og jeg held, að svona aðferðir sjeu eins dæmi, þegar um stofnun seðlabanka er að ræða.

Um stjórnarfyrirkomulag bankans hafa jeg og aðrir þráfaldlega deilt. Það mundi taka of langan tíma, ef farið væri að rekja hjer allar þær deilur. En það er ekki til að skapa öryggi um bankann, að þetta nýja, stóra höfuð er sett á hann. Það er gert til að dreifa ábyrgðinni. Ef til þess kæmi, að stjórnendurnir ættu að bera ábyrgð á stjórn sinni á bankanum, væri hún svo dreifð, að hvergi væri hægt að koma henni fram. Þetta fyrirkomulag um mannmargar stjórnarnefndir var upphaflega tekið upp í sambandi við hluthafabanka, til þess að fá auðuga menn til að leggja fram fje til þeirra. Þeir fengu svo að vera í stjórnarnefnd, sem ekkert gerði annað en að skrifa undir reikninga og þess háttar, en fengu góðan skilding fyrir. — Jeg legg ekki mikið upp úr því, að nefndin eigi að vera launalaus. Krafan um þau kemur áreiðanlega eftir fá ár.

Jeg vildi aðeins benda á þessi atriði til athugunar fyrir nefnd þá, er málið fær til umsagnar og álita.