14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

6. mál, laun embættismanna

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg get ekki látið hjá líða að segja nokkur orð út af till. hæstv. forsrh. Það er alveg rjett, að margir sveitaprestar sitja við örðugan hag. En það er afleiðing þeirra erfiðleika, sem atvinnurekendur alment eiga við að búa. Það má ekki miða frambúðarfyrirkomulag dýrtíðarbóta við ástand, sem ekki er áframhaldandi. Búandi prestar hafa sumir keypt bústofn sinn á erfiðum tíma, eins og margir aðrir, og því er eðlilegt, að að þeim kreppi. En dýrtíðaruppbót á ekki að veita af slíkum ástæðum. Það er líka fjöldi embættismanna í kaupstöðum, sem hafa keypt hús í dýrtíðinni og sitja því framvegis við afardýra húsaleigu.

Það er full ástæða til að vísa till. til fjhn. Bæði er óvíst, hvaða kostnað þetta hefir í för með sjer, og svo þarf það ekki að taka langan tíma. Og jeg er hissa á því, að hæstv. forsrh. skyldi ekki undirbúa svo brtt. sína, að rannsaka, hvaða útgjöld hún hefir í för með sjer fyrir ríkissjóðinn. Sem betur fer leyfa þm. sjer ekki að koma með svona óundirbygðar till.

Jeg er samþykkur hv. 1. þm. N.-M., að það sje hættulegt að hreyfa við launamálinu, því að þá koma fram fleiri kröfur, sem ekki verður hægt að neita, því vissulega væri sanngjarnt úr að bæta hjá mörgum embættis- og starfsmönnum ríkisins, og úr því að á að endurskoða launamálið innan 1–2 ára, er rjettast að halda í horfinu og breyta engu þangað til.