23.01.1928
Neðri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

14. mál, hjúalög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Því er eins varið með þetta mál og það, sem áðan var nefnt, að það er flutt samkvæmt áskorun samþyktri hjer í deildinni í fyrra. Hjúalögin, sem nú gilda, eru orðin 60 ára gömul og því ekki undarlegt, þó að þau þurfi að endurskoðast. Hinsvegar hafa frv. í þessa átt legið fyrir tveim þingum og ekki náð fram að ganga, og veit jeg ekki, hvort vænta má, að málið fái meiri byr nú. Hinsvegar þótti stj. sjálfsagt að verða við þessari áskorun þingsins.

Í þessu sambandi vil jeg geta þess, að í þessari sömu þál. var því beint til stj. að láta endurskoða ákvæði gildandi laga um lausamenn og um skylduna til að eiga lögheimili. Var tveim hv. þm. falið að athuga þetta. En eins og hjer í deildinni í fyrra varð ágreiningur í þessu efni, eins fór svo nú, að þær till., sem fram komu, urðu ekki samhljóða, og eru því ekki lagðar fram af stj. hálfu neinar till. um þetta í frv.formi að þessu sinni. Enda hafði stj. mjög nauman tíma til að sinna málinu. En till. verða afhentar hv. allshn. Að svo mæltu vil jeg leggja til, að máli þessu verði að umr. lokinni vísað til hv. allshn.