06.02.1928
Efri deild: 15. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Eins og sjá má af þskj. hefir allshn. ekki getað orðið sammála um þetta mál. Meiri hl. lítur svo á, að eins og sakir standa sje ekki einungis rjett, heldur sjálfsagt að veita stjórninni þessa heimild. Eins og frv. ber með sjer, er hjer aðeins um heimildarlög að ræða, og þótt meiri hl. verði að viðurkenna, að málið hafi ekki að öllu leyti fengið þann undirbúning, sem æskilegt hefði verið, svo ekki er hægt að segja með vissu, á hvern hátt það verði leyst, þá hefir meiri hl. þó álitið rjett að veita heimildina.

Um það þarf ekki að fjölyrða, því að um það mun ekki verða deilt, að brýn nauðsyn sje á því að bæta úr vandkvæðum á ástandinu í þeim efnum, sem frv. fjallar um. Það er einróma álit allra þeirra manna, sem það mál þekkja, að hegningarhúsið hjer í Reykjavík sje orðið alt of lítið og algerlega ófullnægjandi og standi á ótilhlýðilegum stað. Í nál. sínu gerir meiri hl. grein fyrir því áliti sínu, að þegar slíkt hús verði reist, þá eigi það ekki að vera í Reykjavík, og er það í samræmi við þá skoðun, sem kemur fram í greinargerð þessa frv. Er það atriði einnig viðurkent í nál. minni hl. Um hitt atriðið, sem bent er á í nál. minni hl. í sambandi við sjúkrahúsið á Eyrarbakka, hvort hugsanlegt sje, að það geti komið til mála sem betrunarhús í framtíðinni, er það að segja, að um þær ástæður, sem fram eru færðar móti frv. í nál. minni hl. í því sambandi, get jeg ekki dæmt að öllu leyti. Jeg er ekki nægilega kunnugur staðháttum á Eyrarbakka til þess að geta dæmt um málið að því leyti. En það get jeg ekki talið ókost, sem talið er í nál. minni hl., þótt sá staður sje nokkuð langt frá Reykjavík. Minni hl. bendir á, að ómögulegt sje að nota það hús sem gæsluvarðhald fyrir fanga, sem eru undir rannsókn.

Jeg lít nú svo á, að það sje ekki nauðsynlegt, að alment fangahús og gæsluvarðhald um stuttan tíma fari saman. Jeg álít það óhjákvæmilegt, að Reykjavík hafi eitthvert hús, þar sem hægt sje að stinga inn mönnum um stuttan tíma, og jeg sje ekkert á móti því, að það sama hús sje hægt að nota til geymslu fanga, sem eru í gæsluvarðhaldi um stundarsakir, t. d. meðan mál er undir rannsókn.

Hvað snertir þessa mótbáru minni hl. um vegalengdina frá Reykjavík, þá get jeg ekki sjeð, að það eitt eigi að nægja til fyrirstöðu því, að sjúkrahúsið á Eyrarbakka verði tekið til þessarar notkunar. Hinsvegar geri jeg ráð fyrir því, að hæstv. dómsmrh., sem hefir kynt sjer þetta mál vel, geri grein fyrir því, sem mæla kann með því, að þetta hús verði tekið til þessarar notkunar. En jeg mun ekki fara út í það, vegna þess að jeg er ekki svo kunnugur staðháttum þar, að jeg geti bygt umræður um það mál á þekkingu.

En þegar tillit er tekið til þess, að hjer er aðeins um heimildarlög að ræða, en hinsvegar viðurkent, að vinda þurfi bráðan bug að því að bæta úr fangahússkorti Reykjavíkur, þá get jeg ekki annað sjeð en að það sje sjálfsagt fyrir þingið að veita stjórninni þessa heimild. Og það væri í fylsta máta undarlegt. ef þm. sæju sjerstök vandkvæði á því að veita stjórninni þessa heimild, sem aðeins nemur 100 þús. kr., þegar litið er á það, að á undanförnum þingum hafa verið samþyktar heimildir fyrir þáverandi stjórnir, sem hafa numið, ekki hundruðum þúsunda, heldur mörgum miljónum. Það þarf ekki, þessu til sönnunar, að benda á fleira en járnbrautarmálið, sem var afgr. frá síðasta þingi sem heimildarlög, og það þótti þó vel viðeigandi að afgreiða það þannig. Jeg efast þó um, að undirbúningur þess máls hafi á nokkurn hátt verið betri en hjer á sjer stað. Því sje jeg ekki, að neitt sje því til fyrirstöðu, að þetta litla frv. um aðeins 100 þús. kr. heimild sje samþykt.

Jeg get heldur ekki sjeð, að það sje rjett af Alþingi að vísa málinu á bug, eins og lagt er til í nál. minni hl. Því að það er að vísa málinu á bug að neita stjórninni um þessa 100 þús. kr. heimild, ef málið yrði afgr. með rökst. dagskrá, eins og minni hl. vill, sú „rannsókn“, sem minni hl. vill láta framkvæma, er aðeins töf á málinu. Hinsvegar hefir hæstv. dómsmrh. látið það greinilega í ljós, að ef kostnaðurinn við framkvæmdir í málinu fari fram úr 100 þús. kr., þá verði aftur leitað til þingsins um heimildina. Að svo mæltu vil jeg mælast til þess, að hv. deild leyfi þessu litla frv. að komast óhindruðu sína leið, því að hjer er um að ræða þarfa- og nytsemdarmál, sem víst er, að landinu er enginn fjárhagslegur baggi bundinn með.