29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

25. mál, kynbætur nautgripa

Hákon Kristófersson:

Jeg flyt tvær brtt. á þskj. 323. Hin fyrri er við 3. gr. og fer í þá átt, sem jeg mintist á við 2. umr., að mjer þætti vanta í frv. Hún er svo ljós, að jeg þarf ekki að gera langa grein fyrir henni, enda held jeg, að menn hafi skilið við 2. umr., hvað fyrir mjer vakir. Með samþykt tillögunnar vil jeg koma í veg fyrir, að þeir erfiðleikar verði á kynbótastarfseminni, sem jeg þá nefndi. Jeg vænti, að hv. deild sjái, að það er síður en svo, að brtt. mín valdi nokkrum óþægindum á framkvæmd þessa máls, heldur er hún áreiðanlega til bóta.

Síðari brtt. er við 7. gr., þess efnis, að hækka það framlag, sem gert er ráð fyrir í frv., úr 8 kr. upp í 10 kr. Jeg lít svo á, að þetta mál sje þess eðlis, að það komi frekar við einstaklingum en hreppsfjelögum, þótt segja megi, að afurðirnar heyri hreppsfjelögunum til. En þetta ætti að vera sveitarsjóðum óviðkomandi, enda munu það vera einstakir menn innan bygðarlaganna, sem njóta hagnaðarins, — og hví skyldu þeir þá ekki bera hinar fjárhagslegu byrðar? Það er síður en svo, að ekki sje í hóf stilt, þó að upphæðin sje hækkuð upp í 10 krónur. Þó að jeg telji þessa tillögu vera til bóta, mun jeg samt ekki leggja eins mikla áherslu á hana og fyrri tillögu mína. Fyrri tillagan á að tryggja það, að menn geti ekki gert neitt, sem sje kynbótastarfseminni beint til tjóns, en það tel jeg vera hægt að gera með frv. eins og það liggur nú fyrir. Verði frv. samþykt eins og það liggur nú fyrir, tel jeg það einskis virði. Aftur á móti ef brtt. mín á þskj. 323 verður samþ., tel jeg frv. nokkurs virði.