13.03.1928
Neðri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

16. mál, búfjártryggingar

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og sjá má á nál. á þskj. 388, er landbn. sammála um að mæla með, að frv. þetta verði samþykt óbreytt eins og hv. Ed. gekk frá því. Hjer á landi vantar alla reynslu í þessu efni. Leiðir því af sjálfu sjer, að tvímælis kann að orka um ýms einstök atriði í byrjun. En nefndin hefir ekki getað fundið nein ákvæði í frv., sem sjálfsagt væri að breyta. Reynslan verður að skera úr því, hvernig þetta fyrirkomulag reynist. Það er auðvitað, að þegar þessi starfsemi er komin á laggirnar og reynsla er fengin, muni þykja sjálfsagt að breyta ýmsu. En nú í byrjun er ekkert í frv., sem sje þann veg vaxið, að fyrirfram verði sagt, að málum sje betur skipað á annan veg. — Landbn. er á einu máli um það, að búfjártryggingar sjeu hið mesta nauðsynjamál fyrir landbúnaðinn og sjálfsagt sje, að málið gangi fram. Öllum er ljóst, að afkoma landbúnaðarins og þeirra, sem stunda hann, er komin undir búfjenu og afurðum þess. Landbúnaðurinn er því altaf í hættu, meðan búfjeð er svo ótryggur stofn sem til þessa hefir verið. Við Íslendingar höfum þar mjög sorglega reynslu. Á undanförnum öldum, þegar hjer hefir orðið harðrjetti og hungur, hefir það nær altaf verið sakir þess, að búfjeð hefir fallið. Harðrjetti hefir varla þekst hjer af öðrum ástæðum. Vitanlega er svo enn, að aðalhættan er hin sama, fóðurskorturinn, þó að löggjöfin hafi á seinni árum gert nokkuð til að draga úr þeirri hættu, og eins heilbrigð skynsemi og þroski landsfólksins. Enn er það þó mikið alvörumál. Þetta frv. fjallar þó ekki um það efni, heldur tryggingu búfjárins gegn sjúkdómum og slysum. Það nær aðeins skamt, en nefndin er þess fullviss, að það er þó spor í rjetta átt. Þó frv. gangi ekki lengra en þetta, er auðsjeð, hvílíkt hagræði einkum hinum fátækari bændum er að geta trygt hina verðmætari gripi sína. Annað má og nefna.

Þegar þetta mál nær þroska og tryggingarnar verða almennar, þá verður búfjeð veðhæft, sem það er ekki nú. — Búast má við, að framkvæmdir verði heldur litlar fyrst í stað, þótt lögin verði samþ. Enda er frv. aðeins hugsað sem heimildarlög um, að sveitirnar geti tekið upp búfjártryggingar, en engin skylda er lögð á um það. Má búast við, að fyrst í stað verði ekki margir, sem nota þessa heimild. En jafnvíst tel jeg hitt, að með tímanum verði æ fleiri og fleiri, sem taka upp tryggingarnar, og þær fái meiri og almennari þýðingu fyrir þjóðarheildina. Þá mun framtíðin og leiða í ljós, að tryggingarnar verða víðtækari. Að öðru leyti er ekki ástæða til að tala um málið alment. Vísa jeg um þau atriði til greinargerðar frv.