13.03.1928
Efri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

9. mál, menntamálaráð Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. flutningsmönnum þessarar brtt. fyrir að hafa borið hana fram, því það er í mesta máta gleðilegt, ef haft yrði meira eftirlit með byggingu og útliti kirkna hjer eftir en hingað til. Gott dæmi þess, hversu mikil nauðsyn hefði verið að hafa eftirlit með því, hvar kirkjur væru reistar, er Hafnarfjarðarkirkja, einhver fegursta kirkja landsins, þetta meistaraverk Rögnvalds Ólafssonar. Forráðamenn hennar völdu henni stað þar, sem lægst var, niðri á mölinni. Ef þessi kirkja hefði verið reist í Noregi eða Svíþjóð, hefði henni verið valinn staður hærra uppi, þar sem hún hefði getað staðið til ævarandi prýði. Eins og jeg tók fram, er kirkjan sjálf fögur. En ókunnugir menn, sem koma til Hafnarfjarðar, finna sárt til þess að sjá hana þarna niðri í lægðinni.

Viðvíkjandi fyrri lið till., um teikningar á kirkjum, er það að segja, að með því að hv. Nd. hefir gengið svo frá þessu máli, að í ráðinu eiga að vera 5 menn, mun mega ganga út frá því, að það eigi nægilega fjölbreyttum hæfileikum á að skipa til þess að geta haft góð áhrif í þá átt, að útlit kirkna verði fegurra og smekklegra en oft hefir átt sjer stað. Og það ætti að vita betur, hvað heppilegast er í þessum málum, heldur en menn, sem aldrei hafa átt kost á að kynnast slíku og fátt sjeð af fyrirmyndum.