14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Jónas Kristjánsson:

Aðeins nokkur orð til þess að svara hv. þm. Ak. Hann sagðist ekki búast við, að hægt yrði að venja fólk á sparnað með því að hækka tollana. Þetta má vel vera að því er snertir það fólk, sem hefir næga peninga, og hitt, sem aldrei hugsar um að spara, en fjöldinn hlýtur að venjast á meiri sparnað, ef varan er dýr. Og sparnað á þessum sviðum tel jeg frá heilbrigðislegu sjónarmiði stórnauðsynlegan, því að kaffið er t. d. ekki matur, eins og hv. þm. Ak. vild halda fram, heldur er það þvert á móti viðsjált til mikillar notkunar. Og það er álit fjölda lækna, að kaffidrykkjan eigi sinn stóra þátt í taugaveiklun og fleiri sjúkdómum, sem svo mjög þjáir kvenfólk nú á tímum. Þá er það viðurkent, að tannpína og tannáta stafi af of mikilli sykurnautn, en tannpínan er ekkert annað en nokkurskonar beinkröm, og þess vegna er það, að börn, sem fá mikinn sykur, eru yfirleitt með beinkröm. Ennfremur eru slík börn miklu næmari fyrir berklaveiki en hin. Jeg fæ því ekki sjeð, að það sje neitt straff á fólk, þó að það með háum tollum sje varað við þessum miður nauðsynlegu vörum, og þá stefnu er víða búið að taka upp, þar á meðal í Ameríku.

Það getur því ekki talist ósanngjarnt, þó að það fólk, sem notar vörur þessar í óhófi, sje látið borga töluvert háan toll af þeim til þjóðfjelagsins, og það því frekar, sem búast má við því, að það öðrum fremur geti orðið handbendi þess.