23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. 3. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg hefi þegar talað tvisvar sinnum; en þar sem jeg flyt þýðingarmikla brtt., vona jeg, að hæstv. forseti leyfi það, að aths. mín verði nokkuð löng.

Jeg skal leyfa mjer að lýsa ánægju minni yfir því, að hæstv. ráðh. hefir talað hjer í dag. Við eigum því ekki að venjast nú orðið að fá að hlýða á hans skemtilegu rök.

Hæstv. ráðh. var að skýra frá, að hann ætlaði sjer að breyta atkv. sínu, ætlaði sjer að greiða öðruvísi atkv. í þessu máli nú heldur en hann gerði fyrir fáum dögum. Og það er spaugilegt að hlýða á hæstv. ráðh. skýra frá þessu um leið og hann er að álasa Íhaldsmanni fyrir að hafa greitt atkv. öðruvísi en hann hafði gert mörgum árum áður. Frá bæjardyrum hæstv. ráðh. sjeð virðist þó vera eðlilegt að gerbreyta atkvæði sínu á fáum dögum.

Hann ber þau rök fram til að afsaka snúning sinn, að sjer sje mjög ljúft að fella niður toll á kaffi og sykri, ef það sje hægt. Nú sjeu líkur fyrir, að ýms tekjuaukafrv. verði samþykt, og þess vegna geri hann það óhikað. En nú munu öll þau tekjuaukafrv., sem lögð hafa verið fyrir þingið, vera runnin frá stj., hvernig sem þau eru feðruð. Öll þessi frv. voru komin fram, er hæstv. ráðh. greiddi atkv. um þetta mál. Það er því einungis um tvent að gera. Annaðhvort hefir stj. borið fram frv. um meiri tekjuauka en þörf var á, eða hún ætlar nú að sætta sig við tekjuhalla á fjárlögunum. Jeg geri ekki ráð fyrir að óreyndu, að stj. þekki ekki örðugleika atvinnuveganna, eins og allir aðrir borgarar þessa lands. Og jeg vil ekki gera ráð fyrir, að stj., undir þessum kringumstæðum, hafi farið að bera fram alóþörf frv., til þess að seilast ofan í vasa gjaldþegnanna dýpra en nauðsyn bar til.

Það vill svo vel til, að á Alþingi 1926 hefir hæstv. ráðh. felt úrskurð í þessu máli. Þá var um það rætt, hvort heppilegra væri, ef ríkissjóður á annað borð mætti missa tekna, að lækka skatta á framleiðslunni eða tolla á ónauðsynlegum vörum. Þá greiddi hæstv. ráðh. atkv. um málið. Ef hæstv. ráðh. hefði þá álitið rjettara að fella niður tolla af kaffi og sykri heldur en kolum og tunnum, þá hefði hann átt að bera fram brtt. við frv. þess efnis. (Forsrh. TrÞ: Jeg greiddi atkv. móti frv.). Jeg get sannað, að hæstv. ráðh. var með því, a. m. k. að sumu leyti. Hæstv. ráðh. hefir því selt skoðun sína í þessu máli fyrir fríðindi frá jafnaðarmönnum. Hjer er um að ræða valdboð frá jafnaðarmönnum til flokks hans.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að meiri hlutinn ætlaði sjer að ráða. En hvaða meiri hluti? Stj. ber þetta frv. fram, Nd. staðfestir það; engir aðrir en jafnaðarmenn greiða atkv. á móti því. Hvort er það stj. eða jafnaðarmenn, sem ætla að ráða? Nú á hv. Nd. að úrskurða um það, hvort ríkisstjórnin á að ráða, hvort almennur vilji þdm. á að ráða, eða hvort það er vilji jafnaðarmanna; hvort jafnaðarmenn eru hinir raunverulegu ráðendur landsins. Það er þetta, sem liggur fyrir til úrskurðar.

Jeg get verið mjög fáorður í svari mínu til annara hv. þm.

Háttv. 2. þm. Reykv. sagði, að þau tekjuaukafrv., sem nú lægju fyrir þinginu, mundu nema um 1300000 kr. Þetta má til sanns vegar færa, en er þó rangt. Hv. þm. telur tóbakseinkasöluna þar með, en víst er, að það frv. nær ekki fram að ganga. Tveir nefndarmenn leggja til, að það verði felt, aðrir tveir, að því verði vísað til stj., en hv. þm., sem er flm. frv., leggur einn til, að það verði samþykt, og þó sjálfsagt ekki af heilum hug.

Að lokum örfá orð til hv. þm. V.-Húnv.

Enn á ný hefir hann staðfest, að hann hefði helst kosið, að frv. hefði verið samþ. óbreytt í Ed. Nú ber jeg fram till. um að lögfesta það í sínu gamla horfi. Hann þarf ekki að veigra sjer við að ljá henni atkv. sitt, ekki að vera hræddur um, að samþykki hennar verði málinu að falli. Jeg hjet honum áðan stuðningi Íhaldsflokksins til að samþ. stjfrv. óbreytt. Jeg geri það enn, því fhaldsmenn hafa greitt þessu frv. — eins og það verður eftir að samþ. hefir verið brtt. mín — atkv. sitt, og þá munu þeir gera það enn. Jeg veit ekki, hvað hæstv. forsrh. er liðugur í því að snúast, en Íhaldsmenn eru það ekki. Það eru og ekki allir Framsóknarmenn. Hv. 1. þm. N.-M. hefir lýst því yfir, að hans atkv. eigi að standa. Þess vegna skora jeg á hv. þm. V.-Húnv., sem vill vera með brtt. minni, en þorir það ekki, að fylgja mjer öruggur, því að hann hefir dóminn í hendi sjer. Jeg trúi því ekki, að af 6 Framsóknarmönnum í Ed. muni ekki finnast 2, sem fylgi því frv., sem stj. ber fram; einkum þar sem 2 ráðh. eru atkvæðisbærir í deildinni. Háttv. þm. er alveg óhætt að láta skoðun sína ráða í þessu máli; hann þarf þar alls ekki að fara að bænastað jafnaðarmanna.