06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

29. mál, jarðræktarlög

Sveinn Ólafsson:

Mjer virtist gæta nokkurs misskilnings hjá hv. frsm. þegar hann var að tala um brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. á þskj. 324. Háttv. frsm. komst svo að orði, að landsetar ríkisins yrðu illa. úti, ef þessi till. á þskj. 324 yrði samþykt. Jeg veit ekki, hvað hann miðar við með þessum dómi sínum. Þessir menn verða áreiðanlega ekki illa úti, ef miðað er við aðra bændur, því eftir till. eiga landsetar ríkisins að fá 1/3 hærri styrk til jarðabóta en aðrir. Ef tveir bændur sitja hvor við annars hlið við sama leigumála á jafngóðum jörðum, annar landseti ríkisins, en hinn á eign einstaks manns, þá verður sá bóndinn betur settur, sem situr á jörð ríkisins, því að hann fær 1/3 hærri styrk. Hann getur því ekki talist illa settur, og virðist mjer, að hv. frsm. hafi skotið yfir markið með þessu áliti um ókjör þessara landseta. En hitt er satt, að eftir brtt. verður ekki tvítalið til afgjalds sama verkið, eins og nú stappar nærri, að gert verði eftir jarðræktarlögunum. Jeg hefi að vísu ekkert á móti því, að vel sje gert við þessa menn, en hins má líka spyrja, hvort ríkissjóður hafi efni á því. Þessir menn hafa nú allir lífstíðarábúð, án hækkandi eftirgjalds, og nálgast því kjör þeirra mjög sjálfsábúð. Og þar sem þessum mönnum er veitt leyfi til að vinna af sjer landskuld og leigur og njóta svo arðsins af endurbótunum æfilangt, þá get jeg ekki sjeð, að illa sje að þeim búið. Jeg er því viss um, að allir þessir hv. þm., sem talað hafa á móti till. á þskj. 324, hafa misskilið hana. Jeg veit, að þeim gengur að vísu ekki nema gott eitt til. En jeg spyr: Er það rjett, að ríkissjóður gangi svo langt að gefa eftir landskuldirnar með öllu, og hefir hann efni á því?