29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

1. mál, fjárlög 1929

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það er eingöngu vegna langrar og einlægrar vináttu við hv. þm. Barð., að jeg stend nú upp. Það er mjer til innilegrar hrygðar og sárrar sorgar, ef þau orð, sem jeg mælti til hans með djúpri samúð, hafa haft slæm áhrif á hans frábæru stillingu. Jeg finn til mikillar sorgar yfir því, að hann er mjer nú ekki sammála um Thorcilliisjóðinn. Mjer kann þó síðar að verða þörf á slíkum liðsmanni í því máli.

Um vínið og skýrslu Björns Þorlákssonar getum við hugsað í rúminu, því að vær svefn mun brátt yfir falla þingheim, þar sem klukkan er nú átta að morgni. En jeg gladdist yfir upplýsingum hans, bæði að efni og formi, og vona, að jeg eigi eftir að sjá hv. þm. Barð. sannfærast meira og meira um nytsemina af skýrslum hans.

Jeg bið nú minn ágæta vin að taka mjer ekki illa upp þessi orð, sem sprottin eru af velvild og aðdáun á hæfileikum hans og persónu.