08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2583 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

135. mál, notkun bifreiða

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Eins og jeg gat um við 1. umr. þessa máls, er hjer ekki um neina breyt. að ræða á 1. frá 1926, aðra en þá, að hækkuð er skyldutrygging á bifreiðum gagnvart þriðja manni. Frv. þetta gerir ráð fyrir 10 þús. kr. tryggingu fyrir hverja bifreið. N. hefir leitað upplýsinga um það, hver útgjöld þetta væru bifreiðaeigendum. Ársiðgjöld fyrir 10 þús. kr. tryggingu, sem aðeins nær til ábyrgðar gagnvart þriðja manni, er frá 50–95 kr., eftir tegund bifreiða, og er iðgjaldið lítið hærra, þótt trygging sje 20 þús. kr. — Að svo stöddu þykir ekki ástæða til að hafa þessa skyldutryggingu hærri, því að aldrei mun tjón af völdum bifreiða hafa orðið sem nemi 10 þús. kr., hvað þá hærri upphæð, en vera má, að heimtuð verði hærri trygging bráðlega.

Ákvæðið um að heimila að undanfella 200 kr. skaðabætur er til þess gert, að bifreiðaeigendur, sem undir öllum kringumstæðum geta greitt þá upphæð sjálfir, megi áskilja við vátrygginguna slík smátjón, því að með því móti geta þeir fengið 15–20% lægri iðgjöld.