18.03.1929
Efri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

75. mál, kirkjugarðastæði í Reykjavík o.fl.

Jón Þorláksson:

Það getur náttúrlega vel verið, að það sje ekki stórt fjárhagsatriði, hvorki fyrir bæjarsjóð Reykjavíkur eða borgara bæjarins, hvernig þessu er hagað, en mjer skilst hitt vera nokkuð stórt atriði fyrir sveitarfjelög landsins yfirleitt, hvort þau eiga að halda þessum rjetti, sem landsmönnum er trygður með 63. gr. stjskr., eða hvort það á að verða svo, að ríkið geti komið og heimtað eignir sveitarfjelaganna án endurgjalds.

Jeg held að það þýði ekki að vísa til neins samanburðar á því, sem á sjer stað í sveitum; það mun vera svo, þar sem kirkjur og kirkjugarðar eru, að það sje alstaðar kvöð á eiganda þeirrar jarðar að halda kirkjugarðsstæði; jarðeigandi mun aftur hafa haft fyrir það nokkrar tekjur. En hvernig farið hefir eftir síðari lagabreytingar, skal jeg ekki segja.