23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2808 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

24. mál, héraðsskólar

Ólafur Thors:

í tilefni af því, sem hv. þm. V.-Sk. sagði, vil jeg upplýsa, að jeg hygg það muni rjett vera, að ræðumaður sá, sem hann vitnaði í, sje sami maður, sem fyrstur stakk upp á Laugarvatni sem skólasetri. Er skoðun þess manns því engin sönnun fyrir hugarfari manna þar eystra til þessarar skólastofnunar, og jeg minnist þess líka, að þegar ráðist var á hæstv. dómsmrh. á fundunum eystra í haust, út af aðgerðum hans í þessu skólamáli, var auðheyrt, að mönnum þótti það að makleikum.

Með því að aðalandmælandi minn, hv. 1. þm. Árn., er setstur í forsetastól, vil jeg ekki deila á hann. Það gladdi mig, að hann var sammála mjer í því að víta hæstv. dómsmrh. fyrir það að hafa ekki einu sinni boðið sr. Kjartani í Hruna skólastjórastöðuna við Laugarvatnsskólann, manni, sem er landfrægur fyrir ágæti. Væri því æskilegt, að hæstv. ráðh. vildi skýra frá því hjer, hvers vegna hann hafi alveg gengið framhjá þessum ágæta manni.

Það liggur í augum uppi, að aðstaða Sunnlendinga í þessu skólamáli er nú miklum mun verri en hún var, áður en núv. kenslumálaráðh. fór að skifta sjer af því.

Jeg skal ekki tala um það með neinu dómaravaldi, hvaða horfur voru á því, að þessi hjeruð hefðu getað komið sjer saman um samskóla. En jeg tel víst, að svo hefði getað orðið. Rök hæstv. dómsmrh. gegn því voru a. m. k. mjög ljeleg. Hann vildi færa það fram sem rök, að sr. Eggert heit. Pálsson hefði 1926 talið það vonlaust. En ef svo var 1926, hvers vegna skipar hæstv. dómsmrh. þá mann í nefnd 11/2 ári síðar til þess að velja stað fyrir samskóla? Og hvers vegna sendir hann hvern manninn á fætur öðrum austur fyrir fjall, til þess að prófa, hvort þeir hafi hið rjetta hugarfar, sem sá maður átti að hafa, sem tæki sæti í n. sem oddamaður. Það var skrítið að vera að þessu öllu, ef það var óskeikult, að samkomulag gæti ekki orðið. Það hlýtur hæstv. ráðh. að sjá. Þetta var nú gert á árinu 1928, og ári síðar vita báðir þm. Rang. hæstv. ráðh. fyrir að hafa sett á stofn Laugarvatnsskólann og þar með girt fyrir það, að um samskóla gæti orðið að ræða. Eina ástæðan, sem hæstv. ráðh. bar fram og takandi var tillit til, ef rjett væri með farið, var það, að vegna ákvæða fjárl. hefði honum verið skylt að veita fjeð til Laugarvatnsskólans. En jeg efast um, að sú ástæða sje rjett, og vil því til sönnunar lesa, með leyfi hæstv. forseta, skilyrði það, er fjárveitingunni fylgir. En það hljóðar svo: „Styrkurinn er bundinn þeim skilyrðum, að skólastaðurinn sje ákveðinn, áætlun og teikning samþykt af stjórnarráðinu og trygging sje fyrir nægu fjárframlagi á móti, enda verði reglugerð skólans staðfest af fræðslumálastjórninni og skólinn hjeraðseign“. — Jeg vil nú leyfa mjer að spyrja: Hverskonar tryggingu hefir hjeraðið lagt fram fyrir því, að það greiði stofnkostnað? Sje sú trygging ekki lögð fram, þá er þessi viðbára hæstv. ráðh. bara blekking. Jeg vil skora á hæstv. dómsmrh. að skýra frá því hjer, í hverju sú trygging er fólgin. Ef hún er örugg, þá get jeg játað, að aðstaða hæstv. ráðh. hefir verið erfiðari um að neita um fjárframlag til skólans.

Jeg efa það ekki, að þægilegt er að hafa skóla við heita staði. En það eru til önnur öfl, sem geta komið í þess stað og líka eru þægileg. Svo er með vatnsafl, sem gefið getur hita og ljós á ódýran hátt.

Hvað því atriði viðvíkur, að skólarnir geti orðið of stórir, þá trúi jeg ekki á það, enda trúir hæstv. ráðh. því ekki sjálfur. Hitt sjá allir, að hægra er að gera vel við einn skóla en tvo, a. m. k. hvað kenslukrafta snertir, og reyndar margt annað. Jeg vil nú þakka hæstv. forseta fyrir þá miklu þolinmæði, sem hann hefir sýnt mjer, og í trausti þess, að hann sýni mjer enn hið sama, vil jeg bæta við fáum orðum. Það er alveg bert, að tveir skólar verða ríkissjóði dýrari en einn skóli. Þetta kemur og í ljós í sjálfu frv. Ef t. d. 2 skólar hafa sína 12 nemendur hvor, þá kosta þeir ríkissjóð samkv. ákvæðum frv. 10000 kr. En væru þessir nemendur í einum skóla, kostaði það ríkið aðeins kr. 5800. Jeg stóð upp til að víta hæstv. ráðh. fyrir það, að hafa beitt því gerræði að stofna Laugarvatnsskólann. Með því hefir hann beitt ofbeldi og bakað ríkissjóði fjárútlát.