16.04.1929
Efri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (2291)

78. mál, einkasala á nauðsynjavörum

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg efast ekki um það, að tilgangur þessa frv. er góður. Það á að vera tilraun til þess að koma í veg fyrir þá hættu, er sumum landsmönnum kann að stafa af hafís og harðindum. Hinsvegar er jeg ekki viss um, að þetta frv. geti náð tilgangi sínum.

Tvö atriði voru það í ræðu hv. flm., sem jeg hjó sjerstaklega eftir. Annað var það, að hann sagði, að óhætt væri að samþ. frv., því í því fælist ekki nema heimild til þess að gera ráðstafanir. En einmitt þetta gæti orðið þess valdandi, að þetta fyrirkomulag, sem frv. felur í sjer, kæmi ekki að notum, þó að lögum yrði. Hitt atriðið var það, að hjer væri aðallega verið að hugsa um fólkið. Skildist mjer svo, sem hjer væri í þessu frv. einungis verið að tryggja það, að fólkið hefði nóg að bíta og brenna.

Það verður nú ekki sjeð greinilega af 1. gr. frv., hver meiningin er með því, en í 2. gr. er sagt, að innflutningur skuli miðaður við, að nægilegt sje fyrirliggjandi af nauðsynjavörum þann tíma árs, sem samþyktin er í gildi. En ef það eitt vakir fyrir hv. flm., að nóg sje til handa fólkinu, þá tel jeg, að þeim rjetta tilgangi sje ekki náð nema að hálfu leyti. Því ef á annað borð er reynt að tryggja gegn hafís og harðindum, þá verður líka að sjá um það, að nægilegt fóður sje til handa öllum búpeningi. Því ef fóðurskortur verður, munu þess mörg dæmi, að maturinn hefir verið tekinn frá fólkinu, til þess að halda lífi í skepnunum. Það er því ekki nægileg trygging í þessum forða, er geyma skal, nema hann sje nægur handa fjenaðinum líka. En það er einmitt þetta, sem er svo erfitt að eiga við. Því ef hugsað er um að hafa nægar birgðir fyrir fólk og fjenað, þá þarf svo mikið, að það mundi nægja sem venjulegur ársforði handa fólkinu. Ef þetta yrði því gert og bæjar- og sýslufjelög tækju þetta í sínar hendur, þá væri þar með úr sögunni, að aðrir versluðu með þessa vöru, því bæjar- og sýslufjelögin væru ekki búin að selja forða sinn fyr en undir haust, og yrðu því að hafa einkasölu alt sumarið.

Í frv. er svo gert ráð fyrir, að gerðar verði árlegar samþyktir um þetta. Virðist þá tilgangur frv. sá, að hægt sje að grípa til þessa eitt og eitt ár í senn. En þetta gæti leitt af sjer vandræða truflun á þessu sviði viðskiftalífsins. Þess vegna yrði, ef á annað borð væri farið út á þessa braut, að stiga sporið alveg út og láta ríkið taka einkasölu á öllum kornvörum, svo að vísu væri að ganga, hver ábyrgðina hefði á því, að varan væri til. En jeg er ekki sjerstaklega sólginn í það, nema þá undir sjerstökum kringumstæðum, að hið opinbera taki í sínar hendur einkasölu. Það verður að mínu áliti altaf að vera eitthvað sjerstakt á ferðinni, er knýr til þess. Má vera, að hjer sje að vísu nokkur ástæða til, en jeg verð þó að segja það, að aðstæðurnar eru alt aðrar nú en fyrir 50–60 árum síðan, hvað snertir flutninga til landsins og milli hafna innanlands. Er öllum þetta svo kunnugt, að jeg þarf ekki að fjölyrða frekar um það. Jeg býst því ekki við, að geta fylgt frv. eins og það er nú.

Það var drepið á það áðan, að gerð hefði verið tilraun á Akureyri og í Eyjafirði til þess að tryggja hjeraðið og bæinn fyrir matvælaskorti í harðindum. Jeg var talsvert riðinn við það mál, og var okkur, er að því stóðum, strax ljóst, að það, sem gert var, var hvorki heilt nje hálft. Okkur var það ljóst, að ef fulltrygt ætti að vera, þá yrði forðinn að endast fram á haust í venjulegu árferði. En til þess treystum við okkur ekki. Var því aðeins gerð lítil tilraun, til þess að sjá, hvernig það gæti borið sig. Og er það tilgangurinn að fikra sig þannig áfram og láta reynsluna skera úr því, hvernig þessu verður haganlegast fyrir komið.