11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (2300)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Ólafur Thors:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara. Þegar heimildarlögin um 25% viðauka við tekju- og eignarskatt voru hjer á döfinni á síðasta þingi, var jeg þeim andvígur, og er það enn. Það má nú að vísu segja svo, að úr því að stjórninni er veitt heimild sem þessi, eigi hún að ná til allra, sem slíkan skatt greiða, en þó sje jeg eigi ástæðu til að vera á móti því, að hinum lægst launuðu skattgreiðendum sje slept við viðaukann.

En fyrirvari minn stafar af afstöðu hæstv. stjórnar til þessara heimildarlaga. Það er kunnugt, að ríkisstjórnin gaf út skipun í janúar um að innheimta viðaukann, en afturkallaði þá skipun í febrúar. Hæstv. forsrh. (TrÞ) hefir skýrt þetta þannig, að er fyrri fyrirskipunin var gefin, hafi stjórninni ekki verið fullkunnugt um, hver tekjuafgangur yrði, en er hún hafi sjeð, að hann myndi nema alt að 1½ miljón hafi hún afturkallað skipunina. Jeg held nú, að stjórninni hafi verið það ljóst um áramótin, að mikill tekjuafgangur myndi verða. Það vissu allir. Jeg lít því svo á síðari tilkynningu stjórnarinnar, að hún sje eðlileg yfirlýsing stjórnarinnar um að tekjuskatturinn sje þegar svo hár, að ekki sje gerlegt að nota þessa heimild nema í ýtrustu nauðsyn. Þetta er að mínu áliti alveg rjett, og því tel jeg síðari tilkynningu stjórnarinnar gleðilegan vott um það, að hún sje að snúa inn á nýrri og betri braut í skattamálunum, og þá má álíta, að frv. það, er hjer ræðir um, sje meinlaust en gagnslaust.

Af öllum þeim sköttum, er lagðir voru á þjóðina á þinginu í fyrra, var þessi ranglátastur og hættulegastur. Hv. frsm. minni hl. (HV) sagði, að ef ætti að fara að lækka skatta, væri síst ástæða til að byrja á tekjuskattinum. Þessi skattauki er sá eini skattur, sem ríkisstjórninni er heimilt að ljetta af, þar sem henni var í sjálfsvald sett með heimildarlögunum, hvort hún innheimti hann eða ekki. En jeg held auk þess, að ástæða sje til að byrja einmitt á því að lækka tekjuskattinn. Eftir núgildandi lögum getur hann numið alt að 37½% af nettó tekjum. Auk þess verða atvinnurekendur hjer í Reykjavík að greiða alt að 25% í útsvar. Tekjuskattur og útsvar geta því numið 62½%. Hjer er mjög misært, eins og menn vita. Eitt árið er tap, en annað gróði. Að vísu er ekki lagður á tekjuskattur hallaárin, en útsvar verðum við að greiða, þótt reikningarnir sýni tap. Útsvörin þau árin, sem tapast, nema 10–15% af gróðanum í góðæri. Allir sjá, að ekki nær neinni átt að ætlast til að hægt sje að standast hallæri með 20% af ágóða góðæris.

Jeg tel því engan vafa geta leikið á, að tekjuskattslögin, eins og þau eru nú, sjeu alveg óbærileg, einkum vegna þess, hve atvinnulífið er stopult. Mín skoðun er því sú, að það spor, er stjórnin hefir nú stigið, sje aðeins byrjunarspor, og að þessi skattur hljóti að lækka áður en langt um líður. Jeg býst við, að ef frv. um vinnudóm verður samþ., og óvilhallir menn fjalla um mál útgerðarinar, þá komi í ljós, að hún getur ekki borið þær byrðar, sem núgildandi tekjuskattslög leggja henni á herðar.