11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (2309)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Ólafur Thors:

Það er aðeins til þess að votta hv. 2. þm. Árn. þakklæti mitt fyrir heiðarleikavottorð það, er hann gaf mjer áðan, að jeg stend hjer upp. Hann taldi það fjarri öllu lagi, að hæstv. forsrh. hefði veitt okkur útgerðarmönnum nokkra eftirgjöf á skattagreiðslum. Og sem sönnun þess, að ekkert þvílíkt hefði átt sjer stað, tilfærði hann það, að heiðarleikur minn væri svo mikill, að það væri algerð fjarstæða að láta sjer detta í hug, að jeg hefði getað verið þektur fyrir að taka á móti slíkum gjöfum. Sjerstaklega þó vegna þess, að þetta hefði aðeins orðið stærri útgerðarmönnunum til góðs.

Jeg hefi nú aldrei heyrt hv. þm. gera nokkurn mun á útgerðarmönnum, heldur hefir hann ávalt talað svo um þá, sem væru þeir allir stórauðugir. (MT: Það hefi jeg aldrei talað um). Það er hægt að láta skoðanir sínar í ljós með fleiru en munninum. Jeg tek oft eftir atkvgr., og af þeim hefi jeg sjeð, hver er hugur hv. þm. til útgerðarmanna yfirleitt.

En um þennan tekjuskattsauka er það að segja, að jeg barðist gegn honum á síðasta þingi. Og jeg er ekki heiðarlegri en svo, að jeg mundi ekkert tækifæri láta ónotað til þess að fá hann afnuminn, svo óbilgjarn sem hann er.

Með þessum orðum mínum segi jeg þó ekki neitt um það, er gerðist í síðustu launadeilu, heldur lýsi jeg hjer skoðun minni á þessum atriðum.

Þá ætla jeg að bera hönd fyrir höfuð þingskrifaranna, því að þeir geta ekki varið sig sjálfir, og verðskulda ekki aðkast það, er þeir hafa fengið. Hv. 2. þm. Árnesinga sagði, að það væri vitanlegt, að 2. þm. Reykv. væri gáfaður, en ræður hans í Þingtíðindunum bæru þess lítinn vott. Það hljóta þá að vera þingskrifararnir, sem brjála ræðurnar. Það er að vísu vitanlegt, að ræðum þingmanna geta skrifararnir ekki náð orðrjett, en mjer segir svo hugur um, að þeir færi frekar ræður ýmsra þingm. til betri vegar en hitt. Eða hyggur þingmaðurinn, að allar þær ræður, sem haldnar eru hjer innan þessara veggja, sjeu óbrjálaðar frá hendi ræðumanna, og yfirleitt svo góðar, að þær standist gagnrýni? Sjálfur legg jeg engan dóm á slíkt. En þó vil jeg benda á, að lesendur Þingtíðindanna myndu hafa ástæðu til að halda, að ræða þessa hv. þm. hafi brjálast í meðförunum, ef hún kemur eins og hún var flutt.

Hv. 2. þm. Árn. segir, að á þinginu í fyrra hafi þm. Ísaf. (HG) krafist þess, að menn með 8000 kr. tekjum væru lausir við þennan skatt. (MT: Það er rjett. — HG: Nei). Jeg er staddur hjer milli tveggja elda. Hv. 2. þm. Árn. stendur við hin fyrri orð sín, en hv. þm. Ísaf. neitar að hafa sagt þau. Þetta sýnir, að ekki þarf þingskrifara til að brjála ræðurnar heldur geta þingmenn gert það sjálfir. Jeg hygg að álykta megi að sá, sem kveðið hefir upp dóm í málinu, sje sekur sjálfur.

Hvað því viðvíkur, sem sagt hefir verið um þessar skattaívilnanir, get jeg lýst yfir því, að útgerðarmenn hafa ekkert gert til að knýja þær fram, en að öðru leyti tel jeg mjer ekki skylt að ræða frekara um kaupdeilurnar og samningaumleitanir ráðherra.