21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í C-deild Alþingistíðinda. (2522)

50. mál, sala á jarðarhluta í landi Neskaupstaðar

Jón Baldvinsson:

Það er engan veginn meining mín að hlaupa fram fyrir skjöldu og svara fyrir hv. frsm., hann mun sjálfur gera það, en jeg vildi aðeins segja nokkur orð í sambandi við sölu jarðar til Siglufjarðarkaupstaðar og afstöðu mína til þess máls. Á fyrstu þingunum, er jeg sat á, var jeg á móti sölu ríkissjóðsjarða til einstakra manna og er það enn. Sama var að segja um afstöðu mína, er bæjarfjelög eiga í hlut, þar eð mjög er hætt við því, að löndin lendi í braskarahöndum, og þá er það aðeins til bölvunar, að láta þau úr eigu ríkissjóðs. Jeg var á móti því, að Siglufjarðarkaupstað væri selt land kirkjunnar, því að þá sá jeg, að svo gæti farið, þar sem bærinn var þá að kalla mátti í höndum Norðmanna. En nú á síðari árum er þetta breytt, þeir menn komnir til valda í bæjarstjórn Siglufjarðar, sem líklegt er að sjá mundu í þessu sem öðru borgið hag bæjarins. En auðvitað gæti ríkissjóður leigt bænum landið með svo góðum kjörum, að betra væri en sala fyrir Siglufjörð. Mér kemur það einkennilega fyrir sjónir, að hv. flm. brtt. (JÞ) skuli fara að skjóta þessu inn í við 2. umr., án þess að nefndin fái tækifæri til að athuga málið, því alt er þetta stærra mál en salan handa Norðfirði. Gjarnan má í þessu sambandi minna á, að oft hefir landið selt jarðeignir sínar fyrir mjög lágt verð, og hafa þær eignir sumar síðan orðið bröskurunum að bráð, og venjulega hafa þær þá lent í óhirðu og niðurníðslu. Hitt vil jeg taka fram, að þótt jeg geti fallist á að bæjar- og hreppsfjelög fá keyptar landeignir ríkissjóðs, þá geta þó verið undantekningar frá því, þegar um stórar eignir er að ræða.