02.04.1929
Neðri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (2537)

50. mál, sala á jarðarhluta í landi Neskaupstaðar

Sveinn Ólafsson:

Frv. þetta er komið frá hv. Ed., og á sennilega engan talsmann hjer í deildinni. Þykir mjer því rétt að gefa dálitlar upplýsingar um jarðeign þá, sem hjer er talað um að láta af hendi, til leiðbeiningar fyrir nefnd þá, sem frv. þetta fær til meðferðar.

Jeg verð að segja, að mjer þykir ekki líklegt, að Alþingi geti gengið fyllilega inn á efni frv., þegar á það er litið, hve þunglega það hefir tekið samskonar beiðnum undanfarin ár, og má þar til nefna beiðni um sölu á landi Hvanneyrar til handa Siglufirði, sem var hafnað, og sömuleiðis á sölu á landi til Vestmannaeyja kaupstaðar, sem einnig var hafnað. Vil jeg þó ekki segja með þessu, að ekki geti komið til mála að láta þessa eign af hendi, en jeg vil halda því fram, að sjerstakt mat þurfi að fara fram á henni áður en hún er seld. Og til þess að gera mál þetta ljósara fyrir nefndinni vil jeg geta þess, að þær 340 fornu álnir, sem hjer er um að ræða, og eru eign ríkissjóðs, gáfu af sjer kr. 37,00 árið 1910, en gáfu næstl. ár nokkuð á 6. hundrað. Er því ljóst, að landið hefir stigið allmjög í verði nú á síðari árum, þar sem tekjur ríkissjóðs af þessum fáu álnum hafa 14-faldast, og hlutfallsleg verðhækkun hefir auðvitað orðið á þeim 840 álnum, sem kirkjunni teljast. Af þessu hlýtur öllum að verða það ljóst, að alveg sjerstakt mat verður að fara fram á landi þessu, ef fara á fram sala á því.

Þá vil jeg geta þess, að enda þótt í þessi sala fari fram, þá er á engan hátt bætt úr grasnytjaþörf fyrir kaupstaðinn, þar sem hann stendur á þessu landi og hefir þess sömu not, hvort í ríkið á það eða bærinn.

Þessar bendingar vildi jeg gefa hv. nefnd, og finn svo ei ástæðu til þess að fara frekar út í málið.

Að eins skal þó getið þess, að með því að farga þessari eign kirkjunnar þarna, getur svo farið, að erfitt verði og útdráttarsamt að sjá presti þarna fyrir sómasamlegum bústað og hæli, þegar þetta síhækkandi verðmæti missist, og tún og grasnyt er frá honum tekin.