02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í C-deild Alþingistíðinda. (2959)

48. mál, vegalög

Einar Jónsson:

Jeg get ekki sagt, að jeg hafi numið mikinn fróðleik úr þessum umr. Aldrei minnist jeg þess, að hafa heyrt hv. þm. N.-Þ. (BSv) mæla það um sjálfan sig, nje aðra bera honum það á brýn, að hann mæli það sem aðrir mæla. En undir þau ummæli hans mun jeg taka fyrir hönd minna hjeraðsbúa. Og það er spá mín, að hjer muni nú fara sem oftar, að þegar flutt er ein brtt. við vegalögin, þá muni fylgja henni heil keðja af brtt.; og þetta er eðlilegt. Þó að hjer sje t. d. farið fram á vegarstúf í Hornafirði, þá er jeg eigi svo kunnugur staðháttum þar, að jeg geti verið viss um að meiri þörf sje á honum en ýmsum vegum í mínu hjeraði. Jeg hefi ekkert á móti því, að þetta frv. fari til nefndar; en illa spái jeg fyrir því að till. háttv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) verði ein samþykt. Því að svo mun fara sem okkar besti íslenskumaður, hv. þm. N.-Þ. (BSv) sagði, að margur mun hjer mæla sem aðrir mæla áður lýkur þessu máli.