16.04.1929
Neðri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í C-deild Alþingistíðinda. (3121)

69. mál, verðtollur

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það, sem jeg sagði áðan um þetta frv., sem fyrir liggur, átti að vera veganesti til nefndarinnar, sem um það fjallar. Þó að jeg teldi rjett að frv. væri felt, þá sje jeg ekki ástæðu til að meina því að komast til nefndar, og vildi jeg því láta nefndina vita, hvernig jeg liti á það. — Að öðru leyti þýðir ekki fyrir okkur hv. flm. að deila um frv.; það er ef til vill ekki svo langt á milli skoðana okkar í þessu efni, og getur verið að það sannist, þegar við förum að vinna saman að þessum málum; en eins og nú stendur, ber nokkuð á milli.

Hv. flm. (HG) talaði um tekju- og eignaskattinn, og taldi hann varlega áætlaðan; en jeg álít þann tekjulið mjög óábyggilegan. Hann hefir oltið á þessu bili frá kr. 700 þús. upp í 2½ miljón, svo að það er aldrei hægt að segja um, hvenær skatturinn er áætlaður nærri lagi, og þýðir ekkert um það að deila. Árferðið ræður þar mestu um, og veltur meira á því en hinu, hvort 25% tekjuskattsviðaukinn er innheimtur eða ekki.

Hv. flm. þóttist hafa orðið fyrir vonbrigðum út af því, að stjórnin flutti ekki frv. um tóbakseinkasölu á þessu þingi, og sagði, að samkomulag hefði verið um það frá hálfu milliþingan., við fyrv. fjmrh., Magnús Kristjásson, að stjórnin flytti frv. Mjer hefir verið sagt þetta, og frv. var til í stjórnarráðinu, þegar jeg kom þar. En jeg leit svo á, að það væri ekki rjett að flytja það á þessu þingi; og hv. flm. gat ekki búist við, að jeg líti alveg eins á þetta og Magnús Kristjánsson. Mjer hefir ekki verið nein launung á þessu; jeg hefi látið það í ljós bæði við hv. flm. og aðra.

Jeg ætlast til þess, að till. í skatta- og tollamálum og jafnframt í einkasölumálum, komi frá milliþinganefndinni, sem hefir þau mál til meðferðar.