17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í C-deild Alþingistíðinda. (3187)

98. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Jón Sigurðsson:

Mjer þykir leitt, að hv. sjútvn. hefir ekki getað orðið sammála um þetta mál að öllu leyti, og að komin er brtt. frá tveimur nefndarmönnum, sem vilja breyta ákvæðunum um tillag ríkissjóðs. Eins og kunnugt er, var hjer frv. fyrir þinginu um hafnargerð á Skagaströnd, og hafði stjórnin lagt til, að greiddur væri úr ríkissjóði ½ kostnaður, en Alþingi færði það niður í 2/5. Jeg get ekki sjeð þær ástæður, sem liggja fyrir því, að þessu hafnarvirki er gert erfiðara fyrir heldur en hinum. Hv. þm. (SAÓ) talaði um, að vanalegt væri að greiða 1/3 kostnaðar úr ríkissjóði, og það er rjett. En jeg vil benda honum á það, að hjer er um smáhafnargerð að ræða, og á því er mikill munur og þegar kostnaður getur numið alt að ½ miljón króna. Það er alt annað þegar er að ræða um 10–20 þús. kr. framlag frá hjeraði, eða slíkar upphæðir.

Ennfremur vil jeg benda á það, að mjer finst hvíla frekar skylda á ríkinu um ríflegan styrk, þar sem ríkið á alla þá lóð, sem mannvirki þessi verða gerð á, og verðmæti landsins hlýtur að aukast mikið við þessar umbætur, en til þess verður ríkið styrkt af hjeraðinu. Jeg vona því, að sama sanngirni verði sýnd hjer og gagnvart Skagaströnd, enda á hjer stórt landbúnaðarhjerað hlut að máli, sem á afar örðuga aðstöðu, eins og allir kunnugir vita.

Jeg vil ennfremur benda á það, að hjeraðsbúar hafa lagt á sig mikil gjöld, því að þessi hafnargarður, sem byrjað hefir verið á, er þegar 60 metra langur, og hefir haft mikil útgjöld í för með sjer, en þetta mannvirki er svo nauðsynlegt hjeraðsbúum, að þeir myndu ekki telja það á sig, þótt þeir hafi orðið að bera mikinn kostnað af því verki, sem aflokið er.