02.04.1930
Neðri deild: 69. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í C-deild Alþingistíðinda. (1201)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Ég held, að nál. meiri hl. hv. fjhn. sé að ýmsu leyti eitthvert merkilegasta þskj., sem fram hefir komið í þessari hv. d. Undir nál. rita 4 þm., og aðeins einn, form. n., fyrirvaralaust. Þó er hann sjálfur óánægður með eina aðalbrtt. n., frádráttinn á helmingi tekju- og eignarskatts og útsvars frá skattskyldum tekjum. Hv. þm. V.-Húnv. skrifar undir nál. með fyrirvara, hv. þm. Dal. skrifar undir með fyrirvara „einnig um rökstuðninginn“, og hv. 2. þm. G.-K. skrifar undir með fyrirvara. Það má því segja, að enginn nm. sé með frv. eða brtt. fjhn. við það í heild sinni. Sumir eru ósammála bæði till. og rökstuðningnum, sumir aðeins tillögunum. Sjálfur er hv. frsm. ósammála einni aðalbrtt. Þskj. eins og þetta sýnist óneitanlega ekki eiga mikið erindi inn í hv. þd. Mig furðar það í svo stóru máli sem þessu, að hv. meiri hl. skuli ekki hafa reynt að vinna svo, að annaðhvort næðist innan hans fullt samkomulag eða þá að alger aðskilnaður yrði. Þetta er ekki einu sinni kattarþvottur, sem frá þeim kemur.

Annars er trauðla hægt að ræða þetta frv. eitt sér. Það, sem mestu máli skiptir, er það, hvort rétt sé að fara inn á þá braut að hækka beina skatta, til þess að geta létt tollabyrðina. Framhjá þessu meginatriði hafa meirihlutamennirnir fjórir reynt að ganga, með því að skrifa undir nál. með fyrirvörum kross og þvers. Samkv. frv. mínu um tekjuskatt og eignarskatt er gert ráð fyrir því, að þessir skattar hækki um h. u. b. 850 þús. kr. á ári, eða 66%. Ef menn athuga skattstigann í frv. mínu, munu þeir sjá, að auðvelt er að gera þetta án þess að íþyngja gjaldendunum. Menn munu að vísu segja, að skattstiginn sé orðinn nokkuð hár, þegar kemur upp yfir 50 þús. kr. tekjur, og einkum þó þegar tekjurnar ná 100 þús. kr. En af þeirri upphæð greiðist í tekjuskatt samkv. frv. mínu 29 þús. kr. og 40% af því, sem umfram er 100 þús. kr. — En í þessu sambandi verða menn að muna, hversu sárfáir það eru hér á landi, sem komast upp yfir 50 þús. kr. árstekjur. 1925 voru það á öllu landinu 14 gjaldendur, og aðeins 2 þeirra komust upp fyrir 100 þús. kr. Þó var árið 1924, sem skatturinn miðaðist við tekjurnar af, eitthvert mesta veltiár, sem sögur fara af hér á landi. 1927 eru það ekki nema 2 gjaldendur, sem komast upp úr 50 þús. kr. tekjum, og hvorugur upp í 100 þús. kr., og var þó árið 1926 meðalár. Skatturinn af 50 þús. kr. tekjum er samkv. frv. mínu 10800 kr. Held ég, að ekki verði með nokkurri sanngirni sagt, að skattur eins og þessi geti orðið til þess að lama athafnalífið í landinu. Skatturinn leggst líka aðeins á þær tekjur, sem eftir eru þegar greitt hefir verið útsvar og skattar allir.

Meiri hl. hv. fjhn. er, eins og meiri hl. skattamálanefndar, sammála mér um það, að þörf sé að hækka nokkuð persónufrádráttinn. Ef till. hv. meiri hl. verða samþ., má gera ráð fyrir, að tekjuskattgjaldendum fækki um ca. 6000, en samkv. mínum till. mundi þeim fækka um nálægt 9 þús. manns. Náttúrlega lækkar upphæð skattsins ekki í neinu hlutfalli við þetta, því aðeins lægstu skatttekjur falla undan, og á þeim er skatturinn auðvitað lægstur. Sennilega mundi lækkunin eftir till. hv. meiri hl. verða milli 100 og 200 þús. kr. Það vill hv. meiri hl. vinna upp með því að afnema frádrátt útsvara og skatts frá hinum skattskyldu tekjum. Í frv. mínu er gert ráð fyrir því, að ákvæðin um, að útsvör og tekju- og eignarskattur komi til frádráttar, haldist. Vil ég í þessu sambandi minna á það, sem segir í grg. við 11. gr. frv. míns, ef hæstv. forseti vill leyfa mér að lesa það upp:

. . . . Sé skattstiginn ekkert hækkaður, verður aftur á móti óumflýjanlegt að fella ákvæðið um frádrátt þessara skatta niður. Með því fæst nokkur hækkun á skatti af hátekjum“.

Ég get því greitt þessu atkv., eins og sakir standa, meðan skattstiginn er ekki lagfærður. En ég er sammála hv. 1. þm. Reykv. um það, að þessir liðir, einkum þó útsvarið, eru hreinir kostnaðarliðir. Það er stundum lagt á sem viðskiptagjald, jafnvel þótt tap verði á árinu. Því er ekki eðlilegt, að það sé jafnframt skattlagt, og væri það miklu heilbrigðara að hækka skattstigann eins og gert er ráð fyrir í frv. mínu. Nú verður ekki séð fram á, að því fáist framgengt, og aðeins fyrir þær sakir fellst ég á þetta ákvæði frv.

Eitt atriði í nál. hv. meiri hl. fjhn. kemur mér sérstaklega undarlega fyrir sjónir. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Meiri hl. nefndarinnar telur ekki fært með skatthækkun á þessum tekjustofni ríkissjóðs að ganga svo á tekjustofn sveitar- og bæjarsjóða sem frv. minni hl. gerir, og hefir því hallazt að frv. meiri hl. Með frv. minni hl. væri að vísu séð betur fyrir tekjuþörfum ríkissjóðs, en sveitar- og bæjarsjóðir stæðu þá tekjusneyddir eftir með jafnstóran hluta af útgjöldum til opinberra þarfa og áður“.

Ég veit nú ekki, hvað það er, sem hv. meiri hl. kallar „tekjustofn sveitar- og bæjarfélaga“. Ég hefði haldið, að það væri gjaldgeta fólksins, sem á þessum stöðum byr, og hún breytist vissulega ekki til hins verra, þótt beinir skattar séu hækkaðir, en dregið úr tollunum. (HStef: Tekjustofnar sveita og bæja eru fluttir yfir á ríkissjóð eftir frv. hv. ræðumanns). Þetta er ekki rétt. Ég ætlast til þess, að sama upphæðin fari í ríkissjóð eftir sem áður. Tollarnir lækka um það, sem beinir skattar hækka samkv. frv. mínu. Gjaldgetan breytist því í engu né gjaldabyrðin. Og nú verða menn að greiða nálægt 25–30% meira fyrir þá sök, að tekjur ríkissjóðs eru teknar sem tollar, sem verzlanir byggja álagninguna á. Það er aðeins fyrirkomulagsatriði, hvernig gjöldin ber að innheimta. — Samkv. yfirliti yfir skattafrv. mín og till. á tollabyrðin að léttast um 16–18 hundruð þús. kr., og raunar 2 millj. kr., ef farið er eftir síðasta landsreikningi. Af þessu greiða landsmenn ennfremur a. m. k. 300–400 þús. kr. í álagningu til einstakra kaupmanna, fyrir að innheimta tollinn. Því er það kórvilla að halda, að gjaldgeta manna mundi minnka við það, að þeir væru látnir gjalda meira í beinum sköttum en minna í óbeinum.

Ég skal ekki ræða mikið um skattstigann. Hv. meiri hl. vill ekki láta sama stiga gilda fyrir einstaklinga og félög. Einhver misskilningur held ég, að verið hafi á ferðinni hjá hv. frsm. meiri hl., þegar hann talaði um, að hann vildi ekki láta lítil hlutafélög verða lakar úti en hin stærri. Til að sannfærast um þetta þarf ekki annað en að líta á skattstigann eins og hann er í frv. hv. meiri hl. Af honum leiðir það, að félag, sem hefir lítið hlutafé, getur þurft að greiða margfaldan skatt af sömu tekjum á við annað, sem hefir mikið hlutafé.

Mig furðar á því, að hv. meiri hl. hefir ekki getað fallizt á að hækka skattstigann af eignum neitt. Því að hvað sem menn segja um tekjuskattinn, hélt ég þó ekki, að neinn ágreiningur væri um það, að eignarskattur væri hér allt of lágur, jafnvel á móts við tekjuskatt. T. d. eru nú skattlagðar tekjur, sem komast rétt upp fyrir 500 kr. á ári, þótt engin leið sé að lifa af þeim, en 5000 kr. eign er skattfrjáls hjá öllum, hve ríkir sem þeir eru.

Þá hefir hv. meiri hl. ekki viljað taka hér í Reykjavík upp lengri fresti en í öðrum héruðum til að ganga frá skattskrám og koma með kærur. Er þó vitanlegt, að þetta er í Reykjavík ómögulegt með öllu á þeim stutta fresti, sem settur er, sakir þess, hve hér eru margir gjaldendur. Það væri þó engum til meins, þótt þessu væri breytt. En sé skattskráin síðar lögð fram hér en annarsstaðar, má til að láta kærufrest verða síðar útrunninn hér. Þetta hafa menn séð áður, eins og marka má af ákvæðum í tilsk. um þetta. Var hún sett vegna þess, að þörf var á henni, og ekkert hefir komið fram, sem dragi úr þeirri þörf.

Það er nauðsynlegt að gera allt, sem hægt er, bæði til þess, að þessi gjöld innheimtist vel, og eins til hins, að gera mönnum sem auðveldast að greiða þau. Með því að hafa dráttarvexti skapast nokkurt aðhald í þessu efni, og engin vanþörf á því, því að það veit hver maður, að jafnan er töluvert óinnheimt af tekju- og eignarskatti um áramót. Mér virtist hv. frsm. draga þá ályktun, að ef dráttarvexir væru, mundi enginn greiða neitt fyrr en að því væri komið, að þeir færu að falla á. Ég er nú hræddur um, að þeir, sem svona hugsa, hafi ekki alltaf verið að flýta sér með greiðsluna, þótt engir dráttarvextir væru. Með samþykkt þeirra getur engu verið spillt. Munurinn er aðeins sá, að ríkissjóður fær vexti hjá þeim, sem draga það fram yfir gjalddaga að greiða skatt sinn. (HStef: Og líka hjá þeim, sem aldrei borga?). Hvað fær ríkissjóður nú hjá þeim sem ekki borga? Vegna þess, að fram til þessa hafa engir dráttarvextir verið, hefir innheimtan oft dregizt, og gjaldgeta manna stundum verið þrotin, þegar loks hefir átt að ganga að þeim með innheimtuna. Hér hefir áður verið bent á tvo stóra gjaldendur, sem svona fór um.

Þá er eftir till. hv. meiri hl. engin breyt. gerð á skyldunni til að skila framtali. Nú er það svo, að þeim einum er skylt að skila framtali, sem einhverjar skattskyldar eignir eða tekjur hafa. Ég hefi lagt til, að þessu væri breytt svo, að allir, sem hafa annaðhvort eignir eða tekjur, eigi að skila framtali. Ef menn eiga að ráða því sjálfir, eins og nú er, hlýtur allt eftirlit hjá skattanefndum að fara út um þúfur. Hvernig eiga skattanefndir að vita, hvort maður hefir skattskyldar tekjur eða á að greiða eignarskatt, ef hann telur ekki fram?

Satt að segja virðist mér, að í frv. hv. meiri hl. séu aðeins tvö atriði, sem nokkru verulegu máli skipta til bóta.

Annað er það, að með fjárlagaákvæði megi hækka eða lækka skattstigann um 25%. Hitt er skipun ríkisyfirskattanefndar. Að þessu frátöldu er frv. einskis virði. og meira að segja til hins verra, ef samþ. verður brtt. hv. meiri hl. um frádrátt á útsvari og tekju- og eignarskatti að helmingi, hvað þá heldur ef brtt. hv. þm. Dal. um fullan frádrátt á þessu verður samþ. Þetta yrði til að lækka þennan tekjustofn til muna, og það teldi ég illa farið.

Þá vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, mega segja nokkur orð um 57. gr. í frv. mínu. Hún fjallar um tekju- og eignarskatt sem tekjustofn sveitar- og bæjarfélaga. Útsvarsálagningu er víða hagað svo, að mest af útsvörunum er lagt á lágtekjumenn og sem einskonar viðskipta- eða umsetningargjöld, en stóreigna- og hátekjumenn hafa ekki greitt í réttu hlutfalli við efni sín. Því hefi ég lagt til, að sveitar- og bæjarstjórnum sé heimilað, — meðan Alþingi hefir ekki sett lög um almannatryggingar eða á annan hátt létt að verulegum mun af héruðunum kostnaði við fátækraframfærslu, — að hækka skattgjald samkv. 6. og 15. gr. frv. um 50% í umdæmum sínum. Þannig fá bæjar- og sveitarsjóðir 1/3 þessa skatts, en skattstiginn hækkar að sama skapi. Þetta mundi verða til þess að skapa betra aðhald um framtölin, þar sem sveitarstjórnir og bæja ættu eigin hagsmuna að gæta um það, að þau væru í lagi. Mætti þá lækka útsvörin um þessa upphæð. En þetta er þó ekki aðalatriðið, heldur stendur þetta ákvæði fyrst og fremst í sambandi við fátækraframfærsluna í landinu. Útsvör munu nú vera alls 4 millj. kr. til 4½ millj., en fátækraframfærið um 17–18 hundruð þús. kr. Því er þetta ákvæði sett inn í 57. gr. frv. sem bráðabirgðaskipun, unz fátækramálum verður komið í betra horf, t. d. að allt landið yrði gert að einu framfærsluhéraði, eða það, sem ég tel vænlegast, að á fót sé komið alþýðutryggingum, er nái til alls almennings um land allt. Yrði þá tekju- og eignarskattsálagið til sem tekjustofn handa alþýðutryggingunni, þegar hún kæmist á fót, auk annara tekna frá því opinbera og einstaklingum, sem henni þá yrði séð fyrir. Ef létt væri af sveitunum fátækraframfærinu á þann hátt, þá væri auðvelt að sjá þeim fyrir tekjum til annara þarfa.

Um brtt. er það að segja, að þær, sem eru teknar úr frv. mínu, get ég vitanlega fallizt á. Till. um skattskyldu samvinnufélaga líka. En á till. hv. þm. Dal. né frv. í heild sinni get ég ekki fallizt.